fbpx

Annað dress: Kimono

Annað DressFashionÍslensk HönnunLífið MittNýtt í FataskápnumSS14

Þakklæti er mér efst í huga þessa stundina þegar ég fer yfir allar falleg kveðjurnar sem mér hafa verið sendar síðan ég skrifaði um fósturmissinn minn. Það er svo dásamlegt að finna fyrir svona stuðningi eins og þið hafið gefið mér með kveðjunum ykkar og lestrinum. Ég er ein af þeim sem finnst voða gott að tala upphátt um hluti sem mögulega aðrir eiga erfiðara með, stundum líður mér eins og bloggið og skrifin mín hér séu partur af einhvers konar sálfræðimeðferð en mér finnst ég alltaf geta opnað mig með hugsanir mínar hér og mig langar að þakka ykkur kærlega fyrir að gefa mér tækifæri á því og gefa mér styrk til að gera það. Síðan mín er með bestu, yndislegustu og frábærustu lesendur sem hægt er að hugsa sér – það finnst mér alla vega. Knús og takk til ykkar allra:***

Eins og gefur að skilja hafa síðustu dagar verið ótrúlega skrítnir – þeir eru eiginlega bara í smá móðu en ég er að reyna að komast í gegnum þá og taka bara einn dag í einu. Þegar maður verður líka fyrir svona áfalli þá er eins og maður sjái kannski lífið í öðru ljósi og kunni að meta mun betur það sem maður á. Ég hef reynt að eyða sem mestum tíma með strákunum mínum og í gær skelltum við Tinni okkur á kaffihús eftir að ég hafði sótt hann, drukkum epladjús og gæddum okkur á gómsætu matarkexi á meðan við biðum eftir pabbanum. Það eru þessar stundir sem eru í mestu uppáhaldi hjá mér.

Mig langaði að sýna ykkur í leiðinni einn af nýju dýrgripunum í fataskápnum sem kær vinkona færði mér að gjöf um daginn. Ég finn það líka svo sterkt núna hvað það er mikilvægt að eiga gott fólk í kringum sig sem er til staðar fyrir mann og sem maður er sjálfur alltaf til staðar fyrir.

kimono4

Ég kolféll fyrir þessum fallega og sumarlega kimono á sýningunni hennar Andreu. Um leið og ég sá hann varð ég að eignast hann og Andrea var svo yndisleg að gefa mér hann fyrir alla hjálpina í kringum sýninguna. Ég efast um að það sé hægt að finna jafn yndislega konu og jafn duglega eins og Andrea er – hún á alla sína velgengni svo skilið og miklu meira en það. Hlakka til að fá að vinna með henni meira í framtíðinni og hlakka sérstaklega til næstu sýningar!

kimono

Dressið samanstendur af:

Kimono: SS14 eftir Andreu Magnúsdóttur úr AndreA Boutique
Buxur: Just Jude – VILA
Bolur: Vero Moda
Espadrillur: Selected
Myndir teknar á Canon EOS 100D

kimono3

Takk aftur fyrir ómetanlegan stuðning á þessum erfiðu tímum. Ég er að komast sjálf aftur almennilega í gang eftir bæði mitt áfall og veikindi í fjölskyldunni. Í gær tók ég upp þrjú sýnikennslumyndbönd fyrir síðuna og fullt af skemmtilegum förðunarlúkkum og myndum fyrir vöruumfjallanir fyrir nýjungar frá Dior, Chanel, Max Factor, YSL, Olay og svo lengi mætti telja.

Hlakka til að deila öllu með ykkur – knús til ykkar allra:***

EH

Stundum er lífið svo ósanngjarnt

Skrifa Innlegg

2 Skilaboð

  1. Hulda

    13. June 2014

    Oh þú ert svo yndisleg kona!

  2. Björk

    14. June 2014

    Vá þetta kimono er æði og þú mjög smart í því :)