fbpx

31.07.15

Lífið MittTinni & Tumi

Það er ótrúlegt hvað tíminn getur verið fljótur að líða, nú á ég 6 daga gamlan Tuma og er því orðin tveggja stráka móðir og greinilegt að lukka mín í lífinu felst í því að vera umkringd yndislegum herramönnum.

Ég var sett af stað á fimmtudaginn fyrir viku síðan. Gangsetningunni var flýtt vegna mikilla verkja útaf nýrnasteini sem situr enn sem fastast en sársaukinn er þó að mestu farinn þar sem það er ekkert lengur að þrýsta á nýrað. Næsta áskorun er svo að taka á honum með aðstoð þvagfæraskurðlækna.

Fæðingin gekk eins og allar aðrar fæðingar – hún átti sínar hæðir og lægðir en endaði með því að fá dásamlega fallegt barn í hendurnar. Gleðin var svo mikil að foreldrarnir áttuðu sig ekki á því fyr en eftir þó nokkuð langa stund að enginn hafði athugað með kyn barnsins. Ljósan kíkti og þá kom í ljós að við fengum lítinn strák. Mér finnst það nú ekki amalegt enda elska ég að vera strákamamma. Við vorum búin að ákveða nafnið hans fyrir löngu síðan, þegar Tinni fæddist voru þetta nöfnin tvö sem komu til greina, sá fyrsti varð Tinni og núna þegar við eigum annan þá fær hann nafnið Tumi.

IMG_5779

Tumi kom í heiminn rétt uppúr hádegi síðasta föstudag svo hann verður vikugamall á morgun. Það er fá orð sem lýsa tilfinningunni sem maður upplifir þegar maður fær barnið sitt í hendurnar – maður gleymir stað og stund – þetta er algjörlega magnað. Tumi þurti að fara uppá Vökudeild á Barnaspítalanum eftir fæðinguna, bæði af því hann kom töluvert fyr en hann átti og vegna fráhvarfa sem hann upplifði vegna lyfjanna sem ég var á síðustu dagana fyrir fæðinguna. Hann var trappaður niður og við tóku 5 sólarhringar þar sem var fylgst vel með honum og einkennunum og hann virðist vera að braggast svakalega vel núna.

IMG_5885

Þar sem stóri bróðir mátti ekki koma inná Vökudeild fengum við leyfi til að kíkja örstutt með hann þar útfyrir til að leyfa bræðrunum að hittast. Ég fór að skæla þetta var ein sú fallegasta stund sem ég hef séð og stóri bróðirinn sér ekki sólina fyrir músarass eins og hann kallar litla bróður sinn – pabbanum að kenna…

IMG_5913

Að liggja hér inni er nú fjarri því að vera slæmt en mig þyrstir í að komast heim og við fengum heimleyfi í nokkrar klukkustundir einn daginn og það var alveg æðislegt – bara að komast aðeins út. Stóri bróðirinn kom og sótti okkur og við fórum heim og borðuðum pönnukökur og Tinni sýndi svo mömmu sinni hvað hann væri orðinn klár á trampolíninu sínu. Við fengum þó ekki fullt heimleyfi strax því kúturinn er með guluna og liggur nú í ljósum hér við hliðiná mér á meðan ég sit og skrifa.

IMG_6021

Ég er nú búin að liggja hér inná Kvennadeildinni í samtals 30 daga vegna þessarar meðgöngu og nú er kominn tími til að láta einhvern heyra það. Ég hef nú sjaldan verið þekkt fyrir að standa á mínum skoðunum og í þetta sinn verð ég að hvetja íslensk stjórnvöld – hvort þau séu í stjórn eða stjórnarandstöðu – að hysja upp um sig buxurnar og fara að hlúa almennilega að heilbrigðiskerfinu og því mannafli sem hér starfar!

Á þessum 30 dögum hef ég svo sannarlega fengið að finna fyrir því að heilbrigðiskerfið okkar er virkilega illa sett og það er svo sannarlega ekki því yndislega fólki sem hér vinnur að kenna. Hér finnur maður fyrir því að allir leggjast á eitt til að enginn sjúklingur finni fyrir skorti en stundum gengur það ekki upp því hér er mikil mannekla, hér er lítið pláss og hingað vantar meira fjármagn. Eina kvöldstund lá ég í verkjakasti í 4 klukkutíma niðrá meðgöngu- og sængurkvennagangi og beið eftir lækni til að gefa leyfi til að gefa mér sterkari lyfjaskammt. Hún kom á þeim tíma ábyggilega 3 sinnum niður frá 3. hæðinni (fæðingarganginum) en þurfti alltaf að hverfa um leið aftur upp vegna anna á þeirri hæð. Hún kom því niður til mín þegar nýr sérfræðingur var mættur á vakt uppi til að anna því ástandi sem var þar – hún var búin á vaktinni sinni en hún kom samt niður til mín til að aðstoða mig. Hér á spítalanum vinna yndislegar ljósmæður sem eru búnar að láta óspart í sér heyra fyrir mig og mína verki – þær fá hins vegar ekki laun í samræmi við sitt vinnuframlag. Þær eru nefninlega í ekkert sérstakri samningsstöðu þar sem mikið er um menntaðar ljósmæður og erfitt að knýja sitt í gegn með þrjósku bæði vegna þessa og vegna þess að hér er brjálað að gera. Einn daginn meðan ég beið eftir mínum gangsetningardegi fæddust 5 börn á einum klukkutíma – ég get rétt ímyndað mér álagið. Hér er fólk sem tekur mikilvægar ákvarðanir um líðan mína og barnsins míns – ykkar og barnanna ykkar á hverjum einasta degi og hvar eru þakkirnar – þær eru alla vega ekki nógu sýnilegar finnst mér. Þetta er bara örlítið brot af upplifun minni héðan af kvennadeildinni frá þessari meðgöngu og ég efast um að ástandið sé mikið betra annars staðar á spítalanum.

Mér finnst vera kominn tími á breytingu. Ég vil að fólkið sem situr á Alþingi og vinnur fyrir okkur, fer með völd yfir peningum sem við borgum í skatta og önnur gjöld hlúi að okkur og okkar fólki í stað þess að rífast allan daginn.

Þessa dagana nýti ég tímann líka til að hugsa hvað ég get gert til að gefa tilbaka og þakka fyrir mig og barnið mitt. Ég hef undanfarið árið borgað mánaðarlega í Líf Styrktarfélag sem vinnur frábært verk hér á Kvennadeildinni. Ég hef nú þegar ákveðið að hækka mitt mánaðarlega framlag um helming enda komin með tvö börn og hvet ykkur sem hafið tök á til að gera slíkt hið sama HÉR. Svo ef ég kem aðalhugmyndinni minni í framkvæmd verðið þið fyrst til að fá að vita hver hún er.

Mig langar að lokum að þakka kærlega fyrir allar fallegu kveðjurnar sem okkur hafa borist og þakka öllum hér á Kvennadeildinni og Vökudeild Barnaspítalans fyrir okkur Tuma. Ég veit ekki hvar við værum án ykkar***

EH

Takk fyrir fallegar kveðjur*

Skrifa Innlegg

5 Skilaboð

 1. Unnur

  6. August 2015

  Til hamingju með fallega drenginn og batakveðjur! ❤️

 2. Brynja Guðnadóttir

  6. August 2015

  Ynnilega til hamingju með Tuma þinn

 3. Elísabet Gunnars

  7. August 2015

  Orka til ykkar og til hamingju með vikuafmælið í dag <3

 4. Auður

  7. August 2015

  Innilega til hamingju með gullfallega drenginn þinn :)

 5. Sonja

  12. August 2015

  Yndislegur – til hamingju með litla lífið og gangi ykkur vel :)