Það er magnað hvað lífið manns getur breyst mikið þegar ein lítil baun kemur í heiminn. Það er kannski frekar lítið að segja að baunin hafi bara breytt mér, auðvitað hafði hún áhrif á alla aðra í kringum okkur Aðalstein. Ég held að við getum öll verið sammála um það að líf okkar hafi þó allra breyst til hins betra.
Tinni Snær Aðalsteinsson kom í heiminn 30.12.12 klukkan 09:57 – á nákvæmlega sama tíma og þessi færsla birtist. Það er hálfótrúlegt að hugsa til þess hvað tíminn er fljótur að líða. Ég man að allir í kringum mig hvöttu mig til þess að njóta tímans sem væri framundan eftir að ég fæddi soninn því hann væri svo fljótur að líða. Ég skildi eiginlega ekki hvað fólk var að meina fyr en núna. Ég held þó að ég hafi náð að njóta hans í botn.
Tinni Snær er besti sonur sem móðir gæti óskað sér. Hann er fullkominn í alla staði. Hann er ekki bara fallegasta barn sem hefur nokkurn tíman fæðst (afsakið allar aðrar mæður, en finnst okkur þetta ekki öllum um börnin okkar;)) heldur er hann líka skemmtilegasti karakter sem ég hef fengið að kynnast. Að fá að ala þennan son upp eru forréttindi. Það er alltaf stutt í hláturinn og brosið sem bræðir mig alveg í klessu. Það er mjög auðvelt að gera Tinna mínum til geðs og það fæst alltaf með mat. Hann er mikið matargat og finnst ekkert betra en að fá kjötbollur með kartöflum og brúnni sósu eða gott lambakjöt. Reglulega lauma svo allar ömmur hans að honum ís og súkkulaðiköku (í hófi auðvitað en ég hef enga stjórn á þeim;)) og það er kannski ekkert skrítið hvað hann heldur mikið uppá þær allar. Tinni á þrjár ömmur og þrjár langömmur sem sjá ekki sólina fyrir honum, hann á föðursystur sem gera allt fyrir hann og móður/föðurbræður sem myndu held ég gera hvað sem er til að passa uppá litla gemsann sinn. Svo eru það systkinabörnin sem eru fyrirmyndirnar hans Tinna í lífinu, í hvert sinn sem hann sér eitthvert þeirra ljómar litli kallinn minn upp. Afarnir dekra líka við elsku yndislega strákinn sinn og keppast um að dást að fallega stráknum sínum. Svo eru það dásamlegu dagmömmurnar hans sem ég veit ekki hvar ég væri án, ég er líka svo þakklát að fá að ala son minn upp með yndislegu Ingu og Elfu (auðvitað Aðalsteini líka).
Fyrir ykkur sem vitið það ekki þá er ég í sambúð með besta dansara í heimi. Sonur minn lítur ekki bara alveg eins út og pabbi sinn heldur erfði hann taktinn frá honum. Þeir dilla reglulega bossunum í takt og uppáhalds augnablikin mín í lífinu eru þegar ég er með þeim. Þeir tveir eru mín fjölskylda og ég veit satt að segja ekki hvar ég væri án þessara gullmola sem ég ætla að njóta þess að eyða ævinni með. Tinni Snær lítur mikið upp til föður síns og hann er frábær fyrirmynd og besti pabbi í heimi.
Fyrsta árið í lífi barns er ofboðslega viðburðarríkt og þegar maður pælir aðeins í því þá er þetta ár ábyggilega það mikilvægasta í lífi hvers einstaklings. Þetta er árið þar sem þau uppgötva hvað er að elska, ég er sannfærð um það að sonur minn elskar fólkið sem ég tel hér upp að ofan útaf lífinu og svo miklu fleiri. Þau uppgötva kraftinn sem þau búa yfir, kraftinn sem þau þurfa til að velta sér á bak eða maga, toga sig upp, standa sjálf, taka fyrstu skrefin og að sjálfsögðu kraftinn sem þau búa yfir þegar kemur að því að fá alla í kringum sig til að gera það sem þau vilja. Þau uppgötva að þau eru sjálfstæðir einstaklingar með skoðanir sem eru mögulega ekki alveg þær sömu og mamma og pabbi hafa. Þau uppgötva heiminn og umhverfið í kringum sig, það hefur verið magnað að fylgjast með Tinna fatta allt í kringum sig, hvort sem það eru hendurnar, fæturnir, umhverfið já eða þegar hann fattaði að strákurinn sem brosti svo fallega til hans í speglinum væri mögulega hann sjálfur. Þau uppgötva hvort annað, Tinni Snær á fullt af vinum, ekki bara hjá dagmömmunni heldur líka í mömmuhópnum mínum yndislega. Það er dásamlegt að fylgjast með þessum börnum byrja að leika saman og tjá sig hvort við annað. Þau uppgötva það hvernig þau geta tjáð sig, hvort sem það er með ópum, gráti, hlátri, handabendningum eða orðum. Tinni Snær er nú ekki mikið fyrir að tjá sig. Eins og er eru það orðin mamma, api (pabbi) og gobbedígobb sem öll dýr hvort sem þau eru hestar eða ekki segja, eða alla vega samkvæmt Tinna mínum.
Ég hef svo sannarlega notið þess að vera með Tinna fyrsta árið í lífi hans og er svo spennt að hefja nýtt ár með yndislega syni mínum sem ég elska meira en allt annað í lífinu.
Fyrir ári síðan var ég búin að vera uppá spítala með hríðir 27 tíma. 5 tímum áður missti ég vatnið svo biðin eftir barninu var ansi löng og stundum þegar ég hugsa til baka finnst mér magnað hvað þetta tók stuttan tíma svona eftir á en mér fannst ég beinlínis vera í marga mánuði uppá spítala. Fæðingin var ótrúlega erfið eða það segja mér alla vega allir sem hafa heyrt fæðingarsöguna og læknarnir og ljósurnar á spítalanum. Fæðingin tók já rúma 30 tíma, innihélt mænudreifingu, drip, sýklyf í æð, hita í fæðingu, sogklukku, mikinn blóðmissi, vesen með þvagblöðru sem endaði með 3 lítra blóðgjöf og svo miklu miklu meira. En vitiði hvað þetta var bara eiginlega ekkert mál og ég myndi hiklaust gera þetta aftur. Þetta er það magnaðasta sem ég hef nokkurn tíman gert á ævinni og ég upplifði mig sem ódauðlega manneskju sem gæti gert allt – fyrst hún gat komið 17 merku barni útum klofið á sér. Ég mæli hiklaust með þessu og ég hlakka til að gera þetta aftur.
Ég hef sagt frá því að ég var með ljósmyndara viðstaddan fæðignuna mína. Hún Aldís Pálsdóttir myndaði alla fæðinguna fyrir íslenska meðgöngubók og ég fékk leyfi hjá henni til að birta nokkrar myndir fyrir ykkur til að sjá. Aldísi verð ég ævinlega þakklát fyrir þessar dásamlegu myndir sem eru okkur Aðalsteini ómetanlegar og eru fallegasta minningin um fæðinguna. Svo eru þær líka mín sönnunargöng fyrir því að hafa getað gert þetta. Aldís veitti mér líka ómetanlegan stuðning í fæðingunni sem ég mun aldrei geta þakkað henni fyllilega fyrir, hún leiðbeinti mér í gegnum allt, hélt í höndina á mér, strauk mér þegar tárin renndu niður kinnarnar og hvatti mig áfram þegar ég var við það að gefast upp. Við Aldís erum svo sannarlega tengdar órjúfanlegum böndum og mér finnst eiginlega eins og hún hafi verið mín „fairy godmother“ í fæðingunni. Takk Aldís fyrir allt saman.
Hér fáið þið að deila með mér ómetanlegum augnablikum úr lífi mínu.
Hér er ég nýkomin á spítalann, með bara rúma 2 cm í útvíkkun. En þar sem ég hafði misst vatnið þá vildu ljósmæðurnar halda mér inná á spítalanum.
Hér er ég komin með mænudeyfingu og drip mörgum klukkutímum eftir að fyrri myndin er tekin. Yndislegi unnustinn minn var stoð mín og stytta í gegnum alla fæðinguna, án hans hefði ég aldrei getað fætt þetta barn.
Eftir rúma 30 tíma hríðir var ég orðin örmagna. Ég vissi ekki hvar ég átti að fá kraft til að fæða barnið mitt. Það lá við að ég fagnaði þegar læknarnir komu inn með sogklukkuna. Loksins sá ég fyrir endann á þessari fæðingu. Þarna er klukkan 09:13, tæpum klukkutíma seinna lá ég með soninn í fanginu.
Lítið andlit á fullkomnum prinsi lætur loksins sjá sig eftir alltof langa bið. Að fá að fæða barn á eðlilegan hátt verð ég ævinlega þakklát fyrir. Ég fann fyrir kraftinum sem ég bjó yfir þegar ég fann hann fara í gegnum leggöngin. Þetta var versti sársuki sem ég hef fundið en vá hvað þetta var magnað. Ég fattaði hvað það var sem gerir það svo einstakt að vera kona, það er að fá að gera þetta.
Hér sjáið þið svipinn á okkur þegar við heyrðum soninn gráta í fyrsta sinn. Fallegustu hljóð sem nokkurn tíman hafa heyrst.
Yndislegi prinsinn okkar loksins kominn til okkar.
Fallegastur í heimi geimi.
Mig langar að taka fram að þessar myndir má á engan hátt nota eða birta nokkurs staðar nema með leyfi mín og Aldísar Pálsdóttur ljósmyndara.
Að lokum langar mig að óska fullkomna prinsinum mínum innilega til hamingju með 1 árs afmælið. Takk fyrir að vera besti sonur sem nokkur móðir gæti óskað sér. Svo langar mig að sjálfsögðu að þakka yndislega unnustanum mínum fyrir besta ár lífs míns, fyrir fallega son okkar, fyrir að vilja eignast fjölskyldu með mér og eyða lífinu með mér alltaf.
EH
Skrifa Innlegg