Mig langaði að deila með ykkur umfjöllun sem átti að fara í síðasta tölublað Reykjavík Makeup Journal en ég hafði bara því miður ekki tíma til að klára í tæka tíð fyrir útgáfu blaðsins. Ég ákvað því að best væri að geyma umfjöllunina og birta hana á blogginu fyrir áramótin :)
Fyrir hátíðirnar langar okkur að líta vel út. Á köldum íslenskum vetrum er húðlitur flestra íslenskra kvenna ekki sá dekksti og til að fá frísklegan lit og ljóma í húðina mælum við með sjálfbrúnkuvörum. Fyrst og fremst er það að sjálfsögðu mun betra fyrir húðina heldur en að skella sér í ljósabekki sem ég er ekki hrifin af. Ég ákvað að taka saman nokkur góð ráð þegar kemur að notkun sjálfbrúnkukrema og skreyti umfjöllunina með myndum af sjálfbrúnkukremum sem fást á Íslandi.
- Áður en þið berið á ykkur sjálfbrúnku er gott að venja sig á undirbúa yfirborð húðarinnar vel með því að nota húðskrúbb og nærandi krem.
- Með því að nota húðskrúbb pússum við yfirborð húðarinnar og hjálpum henni við að endurnýja sig. Húðin er stærsta líffærið okkar og hún er stanslaust að endurnýja sig. Það er nauðsynlegt að hjálpa húðinni við að fjarlægja dauðar húðfrumur svo það sé nú nóg pláss fyrir þær nýju.
- Langflest snyrtivörumerki bjóða upp á góða skrúbba sem er gott að venja sig á að nota um það bil einu sinni í viku. Skrúbbana er gott að geyma í sturtunni til að gleyma þeim örugglea ekki.
- Eftir að þið hafið skrúbbað húðina er gott að næra hana með bodylotion Ef húðin er mjúk og vel nærð er auðveldara að bera sjálfbrúkuna á. Liturinn verður líka jafnari og fallegri þar sem húðin er þá búin að fá góðan raka og þarf ekki að taka allan rakann úr sjálfbrúnkunni. Þið getið fengið bodylotion sem hentar ykkar þörfum, hvort sem það eru rakamikil krem eða jafnvel krem með smá stinningaráhrifum
- Þegar það er komið að því að bera sjálfbrúnkuna á er gott að passa upp á að þið séuð með hreinar hendur.
- Munið að þvo ykkur um hendurnar um leið og þið eruð búnar að bera sjálfbrúnkuna á sérstaklega ef þið eruð með brúnkukrem sem eru með lit í. Liturinn getur fest sig auðveldlega í rákum í húðinni á höndunum. Til að koma í veg fyrir það getið þið líka notað þar til gerða hanska.
- Sjálfbrúnkuúðar gefa jafna og flotta áferð og auðvelda okkur að setja sjálfbrúnkuna á svæði líkamans sem við eigum erfitt með að ná til eins og bakið og aftan á lærin. Það er líka sniðugt að nota úðana til að setja sjálfbrúnku á hendurnar. Þá setjið þið úðann á hendurnar síðast, eftir að þið eruð búnar að þvo ykkur vel um hendurnar kreppið þá fingurnar og spreyjið yfir hendurnar. Þannig passið þið uppá það að áferð litarins verði jöfn.
- Þegar þið spreyið á húðina sjálfbrúnkuúða þá er gott að hafa í huga að halda úðanum í ákveðinni fjarlægð svo liturinn verði jafn. Haldið ykkurþó í smá fjarlægð frá hvítum veggjum og innréttingum þar sem liturinn gæti farið þangað.
- Mörg merki eru með sérstök sjálfbrúnkukrem fyrir líkama og önnur fyrir andliti. Þessi sem eru fyrir andliti eru oftar en ekki jafn litsterk, léttari og rakameiri. Oft getur nefninlega verið vandasamt að fá jafna áferð yfir andlitið og því hjálpar það að hafa mikinn raka svo það sé auðvelt að dreifa úr því.
- Þið getið að sjálfsögðu líka blandað smá rakakremi útí sjálfbrúnkukremið til að mýkja það upp og deyfa litinn smá. Ef þið notið hanska þá er sniðugt að setja smá af sjálfbrúnkunni í hanskann ásamt jafn miklu magni af bodylotion. Blandið formúlunni saman örlítið í hanskanum og berið á húðina.
- Ef þið eruð þolinmóðar þá er hægt að fá sjálfbrúnkukrem sem eru með stigvaxandi brúnkuáhrifum. Liturinn kemur þá smám saman en oft þarf að nota þau nokkra daga í röð til að fá litinn sem þið viljið. Þessi krem eru mjög rakamikil og gefa oft náttúrulegri lit.
- Ef þið gleymið að bera á ykkur sjálfbrúnkuvörur og eða hafið lítinn tíma til að taka ykkur til fyrir viðburð, þar sem ykkur langar að líta vel út, þá eru til sjálfbrúnkuvörur sem gefa samstundis lit. Þær vörur eru þannig gerðar að þær smita ekki lit í fötin en það getur þó verið góð hugmynd að leyfa þeim að þorna aðeins á húðinni til að tryggja að þau smitist örugglega ekki.
- Eftir að þið hafið borið á ykkur sjálfbrúnku er sniðugt að leyfa kremunum að jafna sig aðeins á húðinni. Gefið þeim nokkrar mínútur og nýtið tækifærið og flettið í gegnum uppáhalds tímaritið ykkar á meðan þið bíðið.
Skrifa Innlegg