Þá er ég loksins búin að hafa tíma til að prófa Babydoll maskarann frá YSL almennilega. Ég sagði ykkur stuttlega frá honum HÉR – en fyrirsætan Cara Delevingne situr fyrir í herferðinni fyrir maskarann.
Af því ég er búin að vera að fjalla um litaða maskara hentaði vel að prófa maskarann í bláu en hann fæst líka í svörtu, brúnu og fjólubláu.
Hér sjáið þið útkomuna:
Blái liturinn finnst mér mjög fallegur og náttúrulegur. Hann dökknar samt töluvert þegar hann er komin á augnhárin mín. Mér finnst þó liturinn gera heilan helling því það birtir svo sannarlega yfir augunum. Þið sjáið bláan bjarma á augnhárunum á myndunum hér fyrir neðan ef þið skoðið þær vel.
Greiðan nær að teygja vel úr augnhárunum og til þess að ná fullri lengd er mikilvægt að fylgja augnhárunum eftir alveg fram í enda. Eitt af því sem ég kann að meta við maskara með gúmmíbursta er að ég næ auðveldlega að fara með greiðuna alveg uppvið rótina og næ að þekja augnhárin öll.
Hárin á burstanum sjálfum eru í mjög passlegri lengd – þau eru nógu löng til að umlykja augnhárin en frekar stutt svo þau ná til allra augnháranna líka þeirra minnstu. Formúlan er þétt og augnhárin stífna svo það þarf ekkert að pæla í því að augnhárin falli niður eftir því sem líður á daginn.
Hér sjáið þið litina eins og þeir eru – augnhárin mín eru náttúrulega mjög dökk fyrir svo blái liturinn sést kannski ekki jafn vel á þeim eins og á ljósum augnhárum. Ég myndi lýsa litunum sem dökkum pastellitum svo þeir gefa augunum fallegt yfirbragð. Blái liturinn smellpassar fyrir brún, grá og blá augu á meðan fjólublái er flottur fyrir græn og líka brún augu.
Ég er kolfallin fyrir YSL möskurunum og sérstaklega lyktinni af þeim – vá hún er æði og ég hvet ykkur sem hafið ekki prófað YSL maskara að þefa af þeim;)
EH
Skrifa Innlegg