Ég get nú ekkert sagt að árið hafi byrjað neitt sérstaklega vel þegar kemur að heilsufari mínu en mikil veikindi hafa hrjáð mig – þessa sem hefur ekki tíma til að vera veik – síðan um áramótin og ég held ég sé loksins að læra það að ég þurfi aðeins að slaka á og leyfa þeim að klárast og gefa svo í. En á meðan ég hef verið liggjandi fyrir hef ég alveg óvart leiðst útá braut innkaupa á netinu…
Ég er sérstaklega ánægð með kaupin og mjög spennt að fá báðar sendingarnar og ég vona að mögulega munið þið líka verða spennt fyrir komu þeirra þar sem það getur vel verið að ég muni gefa með mér – tja alla vega eitt af þessu :)
Ég skrifaði um þennan dásamlega múmínbolla fyrir jólin en hann var á mínum óskalista fyrir jólin, ég vissi þó reyndar að það væri lítil von á því að ég gæti fengið hann því sala á honum hófst ekki fyr en í byrjun ársins. Ég er núna búin að kaupa mér einn og já ég keypti annan sem ég hyggst gefa heppnum lesanda sem er jafn hrifinn af múmín og ég! En þessi bolli er 70 ára afmælisbollinn og mér finnst hann ofboðslega flottur sérstaklega vegna þess hve einstakur hann er en hann lítur út eins og hús múnínfjölskyldunnar.
Ef ykkur langar líka í þennan bolla þá fæst hann hér – 70 ÁRA MÚMÍN AFMÆLISBOLLINN – ég kaupi allt mitt múmín að utan á þessari síðu þ.e. það sem ekki fæst hér á landi og hef einnig í samstarfi við hana gefið lesendum afslátt. Þetta er frábær vefverslun sem er sinnt rosalega vel og ég mæli eindregið með henni. Bollinn er ekki fáanlegur á Íslandi ennþá eftir því sem ég best veit en hann hlýtur að koma.
Hitt sem ég er búin að vera að festa kaup á eru að sjálfsögðu Bold Metals burstarnir frá Real Techniques sem ég get ekki beðið eftir að fá að prófa. Ég hef sjaldan verið jafn spennt að prófa nokkra bursta og vonandi standast þessir væntingar. Fyrir ykkur sem þekkið ekki til þessara bursta þá er þetta lúxus lína sem systurnar hönnuðu sem eru meira hugsaðir fyrir atvinnumenn í faginu – þó svo það geti auðvitað allir notað þá! En vegna þess eru gæðin mun meiri t.d. þegar kemur að hárunum og þeir kosta aðeins meira en þessir klassísku RT burstar.
Burstarnir eru samtals 7 talsins – 2 gylltir fyrir grunninn, 2 rósagylltir til að fullkomna áferð förðunarinnar og 3 silfraðir sem eru fyrir augun. Það er ekki búið að staðfesta að þeir komi til landsins en þegar það kemst á hreint þá lofa ég að láta vita, ég er búin að fá fjölmargar fyrirspurnir nú þegar og ég lofa, lofa, lofa að láta ykkur vita! Ég keypti mína í Boots í UK og fékk að senda á vinkonu mína sem býr þar en burstarnir fást líka í ULTA í Bandaríkjunum – en það eru bara þessar tvær verslanir sem selja burstana. Mínir burstar koma til landsins í lok næstu viku og ég er vandræðalega spennt fyrir komu þeirra – eiginlega eins og lítill krakki í sælgætisverslun!
Hlakka til að sýna ykkur alla þessa hluti betur þegar þeir koma til mín***
EH
Skrifa Innlegg