Á menntaskólaárunum mínum var ég ótrúlega grönn. Ég notaði gallabuxur nr 24 í Diesel (minnsta stærðin) og ef ég passaði ekki í þær þá lá ég á gólfinu í mátunarklefanum og togaði þær upp þar til ég kom þeim yfir mjaðmirnar. Svo gekk ég þær til þar til þær pössuðu. Ég var 16 ára og bara barn – eða það finnst mér alla vega eftir á.
Í dag er ég móðir, eftir 41 vikna meðgöngu fæddi ég 17 marka dreng sem sat beint framan á mér – þar af leiðandi varð ég mjög stór um mig. Á meðgöngunni reyndi ég fullt til að koma í veg fyrir að ég slitnaði. Ekkert gekk svo á endanum hætti ég bara að pæla í þessu og hugsaði með mér að slitförin væru bara seinni tíma vandamál. Ég ætlaði bara að einbeita mér að því að koma barninu út.
Myndirnar voru teknar af mér á settum degi – 25. des 2012
Núna er sonur minn að verða átta mánaða og ég er ennþá með slitför – djúp slitför sem umlykja mittið mitt og ná nánast yfir allan magann og í kringum brjóstin. Ég er búin að léttast mjög hratt – meðgöngukílóin hafa hrunið af mér eitt af einu – ég fór uppum rúm 30 kg á meðgöngunni. Í dag er ég léttari en ég var áður en ég varð ólétt. Ég er að reyna að borða betur, hreyfa mig meira og vera dugleg að gera styrktaræfingar. Ég sé mikinn mun sjálf – reyndar finnst mér ég vera alltof létt en það er annað mál. Mig langar líka að taka það fram að ég er ekki í þessu átaki til að grennast heldur til þess að verða hraustari að vera 24 ára og geta ekki gengið uppá 2 hæð án þess að verða móð er ekki eðlilegt. En eitt sem ég get lítið gert í eru slitförin mín. Ég hef verið að nota bæði krem og líkamsskrúbba sem hafa hjálpað mínum slitförum mikið. En ég veit að þau munu fylgja mér alla ævi. Svo sprungu líka æðar hjá mér í lærunum og kálfunum sem ég get lítið gert í.
Einn daginn mun ég vakna líta á allan barnaskarann minn (vonandi:)) horfa á slitförin og þakka þeim fyrir að hafa fært mér fallegu börnin mín. Þá mun ég verða stolt af slitunum. Í dag á ég ótrúlega erfitt með þau – hér með viðurkenni ég það á internetinu! Mér finnst þau hræðileg og ég er viss um að ég sé eina konan í heiminum sem er með svona slæm slit.
Myndin vinstra megin er tekin framan á kúluna á settum degi – hægra megin er ég nýbúin að missa vatnið aðfaranót laugardagsins 29. des, síðasta myndin sem ég tók sjálf af kúlunni.
Eftir mikla umhugsun þá komst ég að því afhverju ég held að ég sé með verstu slitin – því frægar sem eru nýbúnar að eiga börn og sitja fyrir á bikiníum framan á ganstímaritunum eru ekki með slit. Ekki séns að ég trúi því lengur takk fyrir. Ég er fyrir löngu komin með uppí kok að þessi tímarit séu hér í tímaritastöndum – beint fyrir framan andlitið á ungum stúlkum eins og mér sem trúa þessu. Reyndar þakka ég fyrir það að það hefur verið mikil vakning fyrir þessu að undanförnu og nýlega kom út bók erlendis þar sem mæður sátu fyrir hjá ljósmyndara og sýndu slitin sín stoltar. Mér fannst konunum á þessum fallegu myndum líða svo vel svo ég setti mér það markmið að gera þetta sjálf. Taka myndir af mínum slitum og birta hér. Þetta er ég búin að vera að mana mig uppí í 3 mánuði.
Við erum allar ótrúlega ólíkar – sumar okkar slitna aðrar ekki. Ég veit það núna, hér eru mín slitför – ég er alveg til í að mæta í forsíðumyndatöku á bikiníinu og afþakka alla myndvinnslu. Það mun ekki bara vera gott fyrir sjálfa mig andlega heldur held ég að það muni hafa góð áhrif á stelpurnar eins og mig sem troða sér í minnstu stærðina af gallabuxum – af því bara. Í gærkvöldi ákvað ég að sýna mömmunum sem eru með mér í mömmuhópi myndirnar og segja þeim frá ætlun minni. Ein þeirra lýsti þeim á svo skemmtilegan hátt – hún var svo ánægð með það að ég ætlaði að sýna mannvistarleyfarnar mínar og hér sjáið þið þær…
ath, myndirnar eru eingöngu lýstar, en það var bara af því ég ákvað að taka þær seint í gærkvöldi.
Heiðurinn á því að ég fór loksins í það að taka þessar myndir fer til markaðsfræðikennarans míns úr Verzló – kona sem veitti mér svo mikinn innblástur og kynnti mig fyrir faginu sem mig langar mest að starfa í. Faginu sem ég starfa í í dag. Mér finnst dáldið gaman að eftir öll þessi ár geti hún enn veitt mér innblástur og hvatt mig áfram. Kveikjan var undirskriftarlisti sem hún setti af stað – markmið hans er að pressa á breska Marie Claire að gefa út tölublað þar sem engum myndum er breytt – sjáið meira HÉR.Mig langaði líka að setja svona skvísumynd af mér til að sýna það að hvernig ég lít út í dag – ég lít kannski ekki út fyrir að vera með slappa magann sem þið sjáið hér fyrir ofan.
Að lokum langar mig að biðja ykkur um smá greiða – að fara í átak með mér. Næst þegar við horfum á okkur sjálf fyrir framan spegilinn að segja við sjálf okkur hvað við lítum vel út – ekki skoða gallana fagnið þeim. Það sem okkur finnst vera gallar eru í raun og veru kostirnir okkar – þeir eru það sem gerir okkur að okkur – það sem gerir okkur einstök.
Slitförin mín gera mig að móður.
EH
Skrifa Innlegg