Þessi dagur ætlar svo sannarlega að verða dásamlegur dagur á byrjun nýrrar vinnuviku. Ég fékk að sofa aðeins út í morgun og svo vorum við búin að bjóða bróður mínum og konunni hans að koma og borða með okkur brunch. Ég ákvað að gera hann svona aðeins í hollari kantinum, ég hef verið að prófa mig áfram með boosta með alls kyns hollum fræjum og góðu innihaldi og svo gerði ég sjúklega gott granóla og lék mér aðeins með það í morgun.
Ég skellti í heimagert granóla í síðustu viku að hætti vinkonu minnar Evu Laufeyjar. Ef þið hafið ekki tékkað á nýju þáttunum hennar á Stöð 2 þá eruð þið að missa af miklu. Uppskriftin sem ég fór eftir er úr fyrsta þættinum og þið finnið hana á blogginu hennar HÉR. Ég reyndar vissi ekki hvernig þurrkuð trjönuber litu út svo ég keypti goji ber og svo setti ég agave sýróp en ekki hunang en vá þetta bragðast dásamlega og betur en nokkur múslí sem ég gæti keypt útí búð!
Fyrir brunchinn í morgun dreif ég fram fínu Ultima Thule desertskálarnar, setti sykurlausa hindberjasultu í botninn – dreifði vel úr henni, setti létta AB mjólk yfir, setti svo vænan slatta af granólanu, smá meira agave sýróp yfir til að draga úr súra bragðinu af mjólkinni og fersk jarðaber. Ég gæti sko borðað svona í öll mál þetta var dásamlegt!
Núna ligg ég með fætur uppí loft og nýt þess aðeins að slaka á meðan feðgarnir eru útí labbitúr. Við bumban áttum 20 vikna samveruafmæli í gær og á morgun liggur leið okkar í 20 vikna sónar. Eins og þið vitið kannski nú þá ætlum við ekki að fá að vita kynið svo ég er alveg pollróleg fyrir þessum sónar tíma ekkert eins og síðast. Vegna veikinda síðustu viku er ég líka búin að fá að kíkja tvisvar í auka sónar svo ég veit að allt er í góðu ástandi. En það verður gaman að fá nýjar myndir – ef til vill af litlum tásulingum.
Í gær sendi ég svo Aðalstein í blómabúð fyrir mig til að kaupa páskaliljur, ég elska þessi fallegu blóm – þessar og túlípana. Það er eins gott að ég geti haft uppá túlípönum fyrir brúðkaupsdaginn því ég vil helst að vöndurinn verði gerður úr hvítum túlípönum – sjáum hvernig það mun ganga þarna í janúar (jább komin ný dagsetning!). Maðurinn minn var svo dásamlegur og keypti tvö búnt svo nú er fíni Iittala vasinn troðfullur af páskaliljum og ég er ástfangin. Fíni Eiffelturninn er svo flottur þar við hliðiná svo myndin að ofan sameinar tvennt uppáhalds páskaliljur og París.
Ég vona að þið eigið yndislegan dag í dag. Ég ætla aðeins að halda áfram í leti, byrja svo að vinna næsta Reykjavík Makeup Journal og klára færslu með leyndarmálum makeup artistans sem birtist hér í kvöld.
Njótið!
EH
Skrifa Innlegg