fbpx

Ráð fyrir þurra húð

Ég Mæli MeðHúðLífið MittMakeup TipsSnyrtivörurSpurningar & Svör

Ég fékk senda fyrirspurn á tölvupóstinn mynn frá lesanda sem vantaði góð ráð við þurri húð. Ég ákvað því að þarna væri komið fullkomið tækifæri fyrir mig til að deila með ykkur nokkrum ráðum fyrir þurra húð. Sjálf er ég með mjög þurra húð sem verður sérstaklega slæm tvisvar sinnum á ári eða þegar heitt og kalt loft mætist í hitabreytingum fyrir sumar eða vetur. Þá þurrkast húðin mín alveg upp og getur orðið mjög slæm. Ég er reyndar orðin nokkuð góð í að sjá hvenær þetta ástand er að fara að bresta á og þá dreg ég fram rakamaskann til að redda mér.

Húðþurrkur er sérstaklega algengur á veturna vegna þess að þá er minna um raka í loftinu í kringum okkur og því mikilvægara en áður að nota góð og nærandi krem, nærandi farða og förðunarvörur til að viðhalda rakamagni húðarinnar allan daginn. Húðþurrkur getur versnað með aldrinum en það er vegna þess að þegar húðin okkar eldist hægist t.d. á collagen framleiðslu húðarinnar en þar af leiðandi er það efni mjög algent í húðvörum fyrir þroskaða húð. Margar aðrar ástæður geta t.d. legið á bakið húðþurrk og internetið er fullt af útskýringum t.d. getur matarræði skipt miklu máli, stress og svefnleysi. Sjálf get ég alveg tekið undir með stressið en þegar álagið er mikið á mér t.d. í vinnu þá á ég það til að hunsa húðina og þar af leiðandi verður ástand hennar ekki nógu gott. Ég er þeirrar skoðunar að það skipti mjög miklu máli að nota réttar vörur og vita hvaða vörur á að forðast.

Réttar hreinsivörur:

Fyrir þær ykkar sem eruð með þurra húð er mjög mikilvægt að velja réttar hreinsivörur. Persónulega hallast ég sjálf frekar að hreinsimjólk þar sem þær eru mun mýkri og fara vel með húðina. En ef þið kjósið frekar gelhreinsa leitið þá eftir þeim sem innihalda ekki sápu. Sápa getur nefninlega ert þurra húð og það viljum við alls ekki. Sjálfri svíður mig óendanlega mikið þegar ég nota óvart hreinsa með sterkri sápu. Ég verð líka að taka það fram að ég get sjaldan notað hreinsa sem freyða, þeir fara mjög illa með húðina mína til langs tíma. Reyndar elska ég hreinsa sem freyða og helst hentar mér hreinsirinn frá Blue Lagoon en aðra get ég bara alls ekki – sem mér finnst mjög leiðinlegt.

Ég mæli líka með því að þið nýtið ykkur uppskriftina mína af blautþurrkum fyrir krílabossa til að gera hreinsiþurrkur fyrir ykkur sjálfar. Kókosolían hefur svo róandi og góð áhrif á húðina og hún hreinsar burt jafnvel þær snyrtivörur sem við eigum í erfiðleikum með að ná burt eins og þær sem eru vantsheldar.

HÉR finnið þið líka æðislega uppskrift af nærandi húðskrúbbi sem inniheldur kókosolíu og er fyrir líkamann – þessa verð ég endilega að prófa sem fyrst.

Whipped-Coconut-Body-Scrub-1-1-of-1-618x412

Næringarrík rakakrem:

Þetta skref segir sig svo sem líklega alveg sjálft. Næringarrík rakakrem eru nauðsynleg fyrir okkur með þurru húðina. Ég mæli líka með að þið sem eruð slæmar nælið ykkur í gott næturkrem til að nota á nóttunni. Næturkrem eru ríkari af virkum efnum eins og þeim rakamiklu en laus við t.d. SPF þar sem við þurfum nú lítið á þannig vörn að halda á nóttunni. Á daginn er svo mikilvægt að nota líka rakamikið krem undir farðann þar sem húðin dregur í sig rakann smám saman yfir daginn og ef við erum ekki með gott krem undir farðanum þá dregur hún hann inní sig og þar af leiðandi endist farðinn lítið sem ekkert og við förum ósjálfrátt að setja meira af förðunarvörum á andlitið. Ég er sérstaklega hrifin af kremunum sem ég hef verið að prófa frá Skyn Iceland en nú er ég að prófa Pure Cloud kremið sem er eitt stórkostlegasta krem sem ég hef notað. Þar áður var ég að nota Rich Nourishing Creme frá Blue Lagoon sem er rosalega þétt og minnir á smyrsli og nærir því extra vel. Einnig er ég mjög hrifin af rakakremunum frá Elizabeth Arden eins og 8 Hour kremið og kremin frá Clinique, Shiseido og Dior fara alltaf vel með mína sandpappírshúð!

26fc9a5e20d816bf8aee28c104ed5900

Augnkrem á þurrkublettina:

Ef þið fáið svona leiðindaþurrkubletti á húðina þá mæli ég hiklaust með einhverju góðu þykku augnkremi. Augnkrem eru stútfull af góðum raka fyrir augnsvæðið en húðin í kringum augun er auðvitað viðkvæmust og hún missir yfirleitt fyrst teygjanleikann sinn og þar af leiðandi myndast fínar línur í kringum augun. Þá koma augnkrem með þéttum efnum eins og collageni sem gefa fyllingu og raka sterk inn til að auka teygjanleikann aftur og einnig til að gefa ákveðnum svæðum húðarinnar aukið rakabúst. Sjálf verð ég reyndar verst í þurrkinum í kringum augun og þá maka ég augnkremi á mig og er með það á mér yfir daginn til að geta bætt á. Sjálf er ég hrifnust af Visible Differnce frá Elizabeth Arden, Laser augnkreminu frá L’Oreal og augnkreminu frá Bobbi Brown.

hreinhúð

Tandurhreina húðin mín, húðin mín er í sérstaklega góðu jafnvægi núna og ég vona að ég nái að halda því í gegnum hitabreytingarnar sem standa yfir núna.

Rakamaskar:

Dekurkvöld einu sinni í viku eiga að vera föst hjá öllum konum. Nýtið kvöldið til að þrífa húðina vel notið djúpnæringarmaska og að lokum góðan rakamaska og helst einhvern sem má vera á húðinni yfir nótt eins og rakamaskann frá Clinique t.d. – hann er einn af mínum uppáhalds. Ég ber alveg þykkt lag af maskanum á andlitið svo rakinn endist alla nóttina. Ég kann mest að meta glæra rakamaska sem eru kannski í léttari kantinum og ég get þá frekar notað meira í einu án þess að finna fyrir því en að nota hvíta maska sem ég á erfitt með að hlaða ofan á – þegar ég vel mér hins vegar hreinsimaska þá vil ég maska sem breyta um lit eins og Silicia maskann frá Blue Lagoon.

58ec7b0643020678f41fcada284de333

BB kremin:

BB krem eru eitt það besta sem hafa komið fyrir okkur sem eru með þurra húð. Hér eru á ferðinni næringarrík krem með léttum lit, sterkri vörn og miklum raka. Mörg kremanna eru olíulaus en það þýðir þó ekki að þau næri ekki vel húðina. Það eina sem er mögulega hægt að setja út á BB krem með olíu er að þau geta farið að glansa fyr en krem sem eru ekki með olíu. Það vandamál er þó einfaldlega hægt að leysa með því að dusta púðurfarða yfir húðina eftir að þið berið kremið á.

Ég sat með tárin fyrir framan tölvuskjáinn um daginn þegar mér barst fallegasti tölvupóstur sem ég hef nokkurn tíman fengið. Pósturinn var frá konu sem þakkaði mér fyrir að hafa bjargað húðinni sinni. En hún sagði að eftir að hún hafði lesið mínar umfjallanir um BB krem og hvað það væri mikilvægt að vera ekki með hreina húð dags daglega til að verja húðina gegn óhreinindum. Hún er í þannig vinnu að hún er í kringum mikið af óhreindum og eftir að hún byrjaði að nota BB krem er húðin hennar allt önnur.

Sama þó mér finnst BB krema hæpið komið yfir öll mörk  þá er þessi markaðssetning að skila því að konur sækjast í þessi góðu krem sem eru frábær vörn við óhreindum og stútfull af næringarríkum raka sem er nauðsynlegur fyrir húðina okkar. Sjálf nota ég helst primer svo bb eða cc krem og svo farða – á hverjum degi! ;)

hreinhúð2

Hér er ég bara með BB krem (Shiseido) og sólarpúður til að skyggja andlitið – náttúrulegt finnst mér alltaf best. Mér finnst svo mikilvægt að húðin sé í góðu ástandi þar sem grunnur hverrar förðunar er falleg og vel nærð húð.

Olíur fyrir húðina:

Ég hef aðeins fjallað um húðolíur sem eru fáanlegar hjá fleiri og fleiri merkjum nú orðið. Olíurnar finnst mér róa húðina mína mikið og þær á flestar að nota dáldið eins og húðserum eða á undan dag- eða næturkremi. Ég er þó alltaf dáldið stressuð yfir því að olíur geti valdið bólum eða of miklum glans og því nota ég þær ekki á hverjum degi ég nota þær t.d. annan hvern dag eða 3-4 sinnum í viku. Það hefur verið að virka vel fyrir mig. Húðolíur eru fáanlegar frá merkjum eins og Ole Henriksen, Signature Spa, L’Oreal (nýkomin í verslanir) og frá Josie Maran (uppáhaldið mitt). Hárolíur hafa aldrei verið jafn vinsælar og mér finnst ég heyra fleiri og fleiri hárgreiðslumenn tala um hvað þetta sé frábær breyting – mögulega er húðolían líka eitthvað sem við eigum eftir að þakka fyrir að hafa byrjað að nota eftir einhver ár.

Ég vona að þessar ráðleggingar hafi mögulega hjálpað ykkur en eins og þið vitið þá er auðvitað alltaf í boði að senda mér línu á ernahrund(hjá)trendnet.is og ég reyni að svara öllum eftir bestu getu.

Að lokum verð ég þó að taka það fram að húðin mín hefur aldrei verið í betra ástandi en eftir að ég fór að taka mig á og mála mig á hverjum morgni. Ég passa mig á að nota réttu vörurnar sem henta minni húðgerð, ég passa mig á að þrífa húðina kvölds og morgna og ég nota reglulega húðmaska og á dekurkvöld með góðu tímariti eða spennandi þætti.

EH

Ilmandi sólarpúður

Skrifa Innlegg

Hætta við svar

2 Skilaboð

  1. Hafdís

    30. April 2014

    Ofsalega góð umfjöllun hjá þér. Ég er búin að reyna hugsa vel um húðina undanfarið en ég er samt sem áður alltaf með svona rauða flekki eða einhversskonar roða í húðinni. Hefur þú nokkuð einhver ráð fyrir mig? :)

  2. ..

    1. May 2014

    Ég er einnig með þurra húð yfir veturinn og prófaði blue lagoon vörurnar í vetur, froðuhreinsirinn þurrkaði upp húðina og mér fannst hann taka farðann af mjög illa, Clarins hreinsimjólkin er það sem mér finnst virka best .