Sumarlúkkið frá Lancome er sannarlega rómantískt eins og svo margt annað frá merkinu. Línan heitir Oui! og er hugsuð sem vörulína sem er fullkomin fyrir brúðir sumarsins. Línan er einföld og inniheldur nokkrar af vinsælustu vörum merkisins í fallegum blómatónum, með fallegri léttri áferð og ljómandi útkomu.
Mig langaði að sýna ykkur aðeins línuna og vörurnar sem ég fékk að prófa úr henni til að sýna ykkur…
Hér sjáið þið vörurnar sem ég fékk að prófa úr línunni, reyndar vantar hér varalitinn en hann er enn í láni hjá brúði síðustu helgi – ég notaði hann bara strax í brúðarförðun hann var svo svakalega fullkominn í það!
Ég lék mér aðeins með litina til að sýna ykkur hve falleg útkoman getur orðið að nota liti í brúðarförðunum. Ég mæli alltaf með því við mínar brúðir að skoða sem mest af myndum eins og inná Pinterest og reyna að móta sér skoðun á því hvernig þeim langar til að vera því það skiptir mestu máli að þeim líði sem allra best á daginn sjálfan. Brúnir tónar eru alltaf klassískir og passa við allt en fyrir þær sem eru litaglaðar og opnar fyrir því þá eru þetta litir sem þið ættuð kannski að skoða.
Mér finnst nellikurnar alveg fullkomnar sem brúðarblóm – elska þessi dásamlegu blóm!
Ég nota hér fjólubláa litinn aðallega, set hann yfir mitt aunglokið, nota þann grá í skyggingu og þann dekksta til að skerpa enn meira á skyggingunni og gefa augunum meiri dýpt. Ljósfjólublái liturinn fer svo innst á augnlokið og í augnkrókana og svo nota ég aftur þann grá og svarta til að setja meðfram neðri augnhárunum. Hér er lykillinn að blanda, blanda, blanda og mýkja áferð augnskuggana og gefa augunum þannig rómantíska áferð.
Vörurnar sem ég nota í förðunina og sem þið sjáið hér á myndinni…
Bridal Hypnose Palette í litnum Bouquet de Lilas – hún er einnig til í fallegum rósableikum tónum.
Blush Subtil í litnum Rose aux Joues – hann kom einnig í meiri orange tón.
Lip Love Gloss í litnum Bouquet Finale – það komu svo tveir aðrir litir sem eru meira útí bleikt.
Vernis in Love í litunum Rose Porcelaine og Lilas Twist – auk þess er einn litur í viðbót sem er svona mitt á milli þessa tveggja.
Mér hefur alltaf fundist mjög þægilegt að vinna með augnskuggana frá Lancome, bæði er auðvelt að gera djúpar farðanir með þeim og líka bara léttar – það er mjög gaman að leika sér mðe litapigmentin í augnskuggunum og það sem er alveg langbest við þá er hversu auðvelt er að vinna með þá, það er allt svo einfalt, mjúkt og auðvelt. Ég lendi alla vega aldrei í veseni með þá!
Ein af skemmtilegustu nýjungunum sem fylgir línunni er box af blot tissjúi. Það er sumsé örþunnur pappír sem dregur í sig olíu og annan raka og dregur þá úr glans í húðinni. Pappírinn kemur í fallegum umbúðum, það er ekki fyrirferðamikið svo það passar vel í litlu buddurnar sem mér finnst nú flestar brúðir alltaf vera með sér. Ég hlakka til að ná að prófa þessa vöru almennilega í brúðkaupi helgarinnar þegar mágur minn og unnusta hans ganga í hjónaband. Það eru nefninlega kannski ekki svo margar brúðir sem geta haft mikið af vörum til að laga sig yfir daginn og þá finnst mér alltaf gott að mæla með því að þær séu með eitthvað til að matta húðina og svo til að bæta á varirnar. Síðustu helgi var brúðurin mín samt svo heppin að hafa boðið mér í veisluna því áður en ég fór heim frískaði ég fullkomlega uppá lúkkið hennar svo hún myndi nú ná að vera hin fullkomna brúður langt frameftir kvöldi ;)
Sannarlega falleg og skemmtileg lína frá merkinu sem mér finnst dáldið hið fullkomna brúðarförðunarmerki. Sanseringin í augnskuggunum gefur augunum svo fallegan glans og endukastar birtu frá sér svo umgjörð augnanna ljómar enn meira á þessum merka degi. Þó línan sé að sjálfsögðu svona innblásin af brúðum og brúðkaupum má auðvitað taka pælinguna lengra því hún er líka flott fyrir alla gesti í brúðkaupum já eða bara skemmtilegum afmælum í sumar.
Mér er búið að finnast svo ótrúlega gaman uppá síðkastið að nýta náttúrulegu birtuna fyrir framan húsið okkar til að taka myndir af förðununum mínum og vörunum. Mér finnst ég bara loksins búin að finna hina fullkomnu birtu til að fanga vörurnar alveg fullkomlega til að sýna ykkur. Þó sólin geti reyndar verið alveg sérstaklega sterk af og til svo ég er með pýrð augu á þónokkrum myndum sem voru síðan eyddar út. En ég reyni nú að kvarta ekki það er sannarlega gleðiefni að fá þessa fallegu gulu til að skína svo skært hér hjá okkur.
EH
Vörurnar sem ég skrifa um hér fékk ég sendar sem sýnishorn. Það hefur þó engin áhrif á álit mitt á vörunum og eins og alltaf veiti ég hreinskilið álit.
Skrifa Innlegg