fbpx

Nýtt í Snyrtibuddunni

Eins og þið hafið kannski tekið eftir hef ég aðeins verið að hleypa farða inn í líf mitt aftur eftir að BB kremin yfirtóku snyrtibudduna mína. Í gær skrifaði ég um spennandi nýjan farða sem var að koma í sölu hjá Bobbi Brown og núna er komið að því að segja ykkur aðeins betur frá honum.

Ég er svona aðeins að reyna að rífa mig úr því að bera farða saman við BB krem enda eiginlega ekki hægt að bera þetta tvennt saman að mínu mati. Stundum dett ég meirað segja í þannig fíling að ég nota bæði farða og BB krem. Ég notaði t.d. BB kremið frá MAC alltaf undir farða þegar ég vildi fá meiri þekju en BB kremin voru að gefa mér. Ég var sérstaklega hrifin af MAC BB kreminu og þessi nýji farði frá Bobbi Brown minnir mig mikið á það.

Farðinn ber nafnið Long-Wear Even Finish Compact Foundation. Hann er olíulaus og er sagður eiga að endast í alltað 12 tíma sem er eiginlega nauðsynlegt fyrir okkur sem erum alltaf á fullu og viljum bara mála okkur á morgnanna og geta treyst því að við lítum vel út allan daginn. Farðinn á að draga fram það fallega í húðinni okkar þannig að fólk í kringum okkur sjái húðina okkar eins og þegar hún er uppá sitt besta.Fyrst langar mig að taka fyrir umbúðirnar – þær eru einstaklega smekklegar eins og svo sem allt sem kemur frá Bobbi Brown. Hringlótt og þykkt box sem inniheldur farða og svamp sem er geymdur í sérhólfi undir farðanum. Mér finnst alltaf kostur þegar það er ekki þannig að svampurinn liggur alltaf ofan á farðanum – hitt finnst mér einhvern vegin subbulegra… Hér er ég eingöngu með farðann á húðinni og rakakrem undir – ég er með litinn Porcelain. Liturinn hentar minni húð fullkomlega hann er mjög ljós en samt smá gulur. Farðinn er mjög drjúgur það dreifist vel úr honum – það þarf alls ekki mikið magn til að þekja húðina alveg. Ég myndi lísa farðanum sem kremkenndum kökufarða en hann er þó miklu léttari en kökufarðar – því ég fann ekki fyrir honum á húðinni sem gerist mjög oft hjá mér og minni þurru húð. Farðinn fellur vel saman við húðina og yfirborð hennar verður mjúkt og náttúrulegt. Ég notaði svampinn sem fylgdi með við að bera farðann á en ég held ég myndi frekar nota bursta – alla vega þegar ég er heimavið. Ef ég kemst hjá því þá nota ég ekki svampa við að bera farða á því mér finnst þeir stundum draga farða í sig ég nota þá frekar til að laga aðeins til. Hér er ég síðan búin að setja skyggingu á andlitið, smá kinnalit í kinnarnar og létt af hyljara – ég notaði hann eingöngu til að lýsa ákveðin svæði upp eins og í kringum augun – farðinn sá alveg um að hylja allt sem ég vildi burt. Farðinn gefur húðinni frekar matta áferð svo ég þurfti ekki að nota púður og mér fannst auðvelt að blanda sólarpúðrinu við farðann án þess að það kæmu sterk skil.Það er hún Katie Holmes sem situr fyrir í auglýsingum fyrir farðann og þegar ég er með hann á húðinni minni finnst mér ég bara engu síðri en hún;)

Ég myndi hiklaust mæla með þessum farða fyrir ykkur sem eruð að leita að nýjum farða eða eruð jafn hrifnar af nýjungum og ég er. Mér finnst hann henta öllum húðtýpum og hann stendur undir nafni – endist lengi og gefur jafna áferð. Ég er líka sammála því að mér fannst húðin mín bara verða fallegri með hann á sér – hann huldi það sem þurfti að hylja og sýndi það sem mátti sýna.

EH

Kæra Sumar....

Skrifa Innlegg