Ég var að fá tvær alveg æðislegar nýjungar frá Bobbi Brown sem mig langaði að sýna ykkur, þessar eru mjög klassískar og eru nú strax komnar inní dagförðunar rútínuna mína. Endilega ef ykkur langar að sjá hvernig ég mála mig þessa dagana þá finnið þið einföld sýnikennsluvideo í dag inná snapchat rásinni minni ernahrundrfj ;)
En það er reyndar bara önnur nýjungin sem er komin í búðir og hún er fyrir augabrúnirnar. Mótunarpúðrin eru væntanleg í næstu viku en þau eru partur af sumarlúkkinu frá Bobbi Brown – Sandy Nudes, svo ég ætla að segja ykkur betur frá því þegar þar að kemur þó þið sjáið vöruna reyndar hér fyrir neðan ;)
Hér er dagförðunin mín, á venjulegum degi er það léttur fljótandi farði eða litað stafrófskrem með góðri sólarvörn, fljótandi hyljari, contour púður, kinnalitur, highlighter, maskari, varasalvi og smá í augabrúnirnar en ég ætla einmitt að sýna ykkur smá skref fyrir skref myndir fyrir þær…
Ég elska svona basic vörur frá Bobbi Brown – ég hef ósjaldan sagt að hún sé ókrýnd drottning grunnförðunarvara og alltaf sannar hún það fyrir mér aftur og aftur!
Hér fyrir ofan sjáið þið Face & Body Bronzing Duo í litunum Antigua og Golden Light, ég nota brúna litinn í skyggingar og plómulitinn í kinnarnar. Ég er með þessa liti í förðuninni á myndunum í færslunni.
Svo er það Perfectly Defined Long-Wear Brow Pencil í litnum Saddle. Varan er tvöföld í öðrum endanum er liturinn og hinum megin er svona hrein augabrúnagreiða…
Það sem ég kann helst að meta við vöruhönnunina er lögunin á litnum sjálfum. Með svona skáskornum oddi er ekkert mál að móta augabrúnirnar, ramma þær inn og ná að þétta lit þeirra með léttum strokum. Liturinn fer auðveldlega og jafnt á augabrúnirnar. Mér finnst nefinilega stundum eins og maður þurfi að þrýsta litum svo fast í augabrúnirnar og þá verða línurnar svo skarpar en þessi formúla er rosalega mjúk og púðurkennd svo áferðin verður miklu náttúrulegri.
Eins og ég hef svo oft sagt þá er ég ekki mikið fyrir ofa mótaðar augabrúnir og ég helst fylli bara svona aðeins inní mínar eigin. Ég lagði plokkaranum nú fyrir ári síðan og í dag elska ég augabrúnirnar mína útaf lífinu þær eru svo glæsilegar og mér þykir voða gaman hvað ég fæ mikið af hrósum fyrir þær. Mínar eru kannski ekki allra en ég elska þær og það er það sem skiptir mestu máli að okkur líði vel í okkar eigin skinni…
Svona eru mínar alveg náttúrulegar, ég hef aldrei litað þær og eins og ég segi hér fyrir ofan þá eru þessar aldrei plokkaðar þessa dagana. En þegar mér finnst tilefni til þá móta ég þær aðeins og fylli inní þær bara til að þétta þær smá…
Ég vel mér lit sem tónar við litinn á augabrúnunum mínum, ég vel mér alltaf kaldan lit því mér finnst hann hæfa mínu litarhafti betur, yfirleitt er mælt með því að dökkhærðar konur velji sér kaldan lit og ljóshærðar hlýjan lit. En það er alltaf um að gera að prófa litina og velja það sem ykkur þykir fara ykkar litarhafti betur. Saddle sem er liturinn minn í þessum blýanti er með örlítið gráan undirtín sem hentar mér mjög vel því hann tónar við minn eigin lit. Plís ekki velja ykkur of dökkan lit reynið að hafa hann sem mest eins og ykkar eigin. Augabrúnir breyta svo miklu varðandi okkar eigin andlitsdrætti og vitlaus litur t.d. of dökkur getur gert okkur grimmar í framan en það viljum við nú ekki. Hér sjáið þið hvernig ég geri þetta með nýja litnum frá Bobbi Brown.
Ég byrja alltaf á því að ákveða hvar þær eiga að enda og móta alveg fremst í augabrúnunum. Í raun finnst mér ég mest þurfa á því að halda að þétta þær aðeins þarna fremst, af því þau vaxa upp hárin alveg fremst í augabrúnunum þá verða þau dáldið svona útum allt og ekki alveg þétt svo þá finnst mér gott að fylla aðeins þar inní. Ég nota oddinn á blýantinum og strýk honum létt eftir húðinni, svo set ég hann aðeins yfir hárin þarna fremst með mjög léttum strokum til að fá ekki of mikinn lit á húðina svo ég nái að halda þeim náttúrulegum. Ég strýk svo smá lit bara yfir augabrúnirnar þar sem þær eru þéttastar til að liturinn tóni saman yfir allar brúnirnar. Svo laga ég þær aðeins þarna í endann sem þið sjáið ef þið berið saman myndirnar tvær hér fyrir ofan.
Næst nudda ég litinn og geri áferð hans mýkri, stundum nota ég fingruna, stundum nota ég Real Techniques augabrúnapensil og stundum nota ég eyrnapinna. Hér notaði ég fingurna. Ég er í raun bara að mýkja litinn og nudda hann létt fram og til baka svo það sé engin skörp áferð neins staðar yfir brúninni.
Lokatouchið er svo bara að greiða yfir hárin með greiðunni hinum megin á litnum til að jafna brúnirnar. Hér væri líka hægt að setja kannski augabrúnagel til að festa hárin í sínum sporum en ég gerði það ekki.
Svona vil ég helst vera alltaf. Ég mála mig reyndar mjög sjaldan en mér þykir það þó alveg gaman svona þegar ég nenni því. Hér eru augabrúnirnar mínar í fókus sem þær eru nú reyndar oftast þar sem þær eru mjög áberandi vegna þykktarinnar ;)
Ég get alla vega sagt að ég mæli algjörlega með nýja litnum frá Bobbi Brown en hann er til í fullt af litum og hann er bara svakalega auðveldur í notkun.
Njótið dagsins – coming up er ný dressfærsla þar sem kúlan sem er að verða 28 vikna á morgun fær svo sannarlega að njóta sín!
EH
Vörurnar sem ég skrifa um hér fékk ég sendar sem sýnishorn. Það hefur þó engin áhrif á álit mitt á vörunum og eins og alltaf veiti ég hreinskilið álit.
Skrifa Innlegg