Eitt af mínum uppáhalds íslensku hönnunarmerkið er merkið hans Guðmundar Hallgrímssonar sem er betur þekktur sem Mundi. Á morgun frumsýnir hann samstarfsverkefnið sitt og 66°N. Ég stalst til þess að kíkja við á vinnustofuna hans í vikunni og fékk að sjá smá af flíkunum sem verða sýndar á morgun. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum og ég hlakka til að sjá þetta allt saman á morgun ásamt stuttmyndinni sem hann gerði.
Mundi gerir aldrei eins og hinir hann fer sínar eigin leiðir. Það var augljóst strax frá byrjun, í fyrra hóf hann RFF hátíðina í bílakjallara Hörpunnar en á morgun ætlar hann að enda RFF og í þetta sinn í Eldborg. Í gær sýndi hann svo sumarlínuna sína undir berum himni. Það eru örfáir dagar síðan tökum á stuttmyndinni lauk svo ég vona að drengurinn og hans fólk fái smá hvíld núna á sunnudaginn.
Þessar myndir eru svo frá sýningunni hans fyrir 2 árum þar sem fyrirsæturnar voru með hvíta andlitsmálningu, sólgleraugu og ef ég man rétt þá eru þetta meðal annars sokkabuxnaræmur sem eru í hárinu á fyrirsætunum. Hér fyrir neðan sjáið þið nokkrar myndir af flíkum úr sumarlínunni hans – ég fékk að smella af nokkrum myndum. HÉR getið þið svo séð myndir frá gærkvöldinu þar sem hann sýndi flíkur úr sömu línu undir berum himni fyrir framan ATMO á Laugavegi.
Ég er sérstaklega hrifin af munstrunum sem hann Mundi gerir – flíkurnar hans eru engar venjulegar flíkur þær eru sannkölluð listaverk. Á vinnustofunni hans er fullt af flíkum sem hann hefur hannað í gegnum árin. Það var virkilega skemmtilegt að sjá svona margar ólíkar flíkur saman komnar á einum stað – en það var mjög greinilegt að sami maður hannaði þær allar. Flíkurnar áttu það samt allar sameiginlegt að vera ótrúlega vel gerðar og það er greinilegt að Mundi er með gott og hæfileikaríkt fólk í kringum sig sem hjálpar til við að gera þær að veruleika. Ég þakka þeim og Munda kærlega fyrir að taka á móti mér! EH
Skrifa Innlegg