Mér datt í hug að hafa þemað í þessari leyndarmálafærslu sparnað. Ég er núna búin að vera mikið útí búðum í alls konar kynningum fyrir snyrtivörumerki. Mér finnst mjög mikilvægt að gera það reglulega til að hitta konur sem eru að kaupa sér snyrtivörur og hlusta aðeins eftir því hvað þær eru að leitast eftir. Það er ekkert leyndarmál að snyrtivörur hafa hækkað mikið í verði hér á Íslandi undanfarin ár því miður. Konur eru að pæla miklu meira í verðum heldur en áður og pæla kannski ekki eins mikið í gæðum. Ég er alls ekki að segja að ódýrar vörur séu ekki eins góðar og þær sem eru dýrari. Sjálf tel ég okkur mjög heppnar hvað er til mikið af góðum og ódýrum vörum hér á Íslandi. Meirað segja finn ég fyrir fordómum stundum gagnvart ódýrum vörum að þær geti ekki verið góðar fyrst þær kosta svona lítið, það er alls ekki rétt. Fyrst og fremst eigum við að hugsa um hvaða snyrtivörur henta okkur burtséð frá verði (hvort þær séu dýrar eða ódýrar).
En mig langar að koma með nokkur ráð sem geta kannski nýst ykkur við að drýgja aðeins snyrtivörurnar ykkar svo þær endist lengur. Aftur verð ég að minnast á það að á öllum snyrtivörum er mynd af lítilli krukku og inní henni er tala og stafurinn m. Tölustafurinn sem er inní krukkunni eða við hlið hennar stendur fyrir tölu mánaða sem þessi snyrtivara endist í frá opnun hennar – sjáið meira HÉR.
Hugsið vel um snyrtivörurnar ykkar:
Að sjálfsögðu getur verið hægt að nota þær aðeins lengur sérstaklega ef þið eruð ekkert mikið að nota þær snyrtivörur. Þið aukið alltaf endingu snyrtivaranna ykkar með því að fara vel með þær. Geymið þær á stað þar sem er jafnt hitastig, ekki of heitt eða of kalt og ekki þar sem er mikill raki. Lokið þeim vel svo súrefni komist ekki nálægt þeim.
Passið að vera ekki að pota með fingrunum í púðursnyrtivörur (púðurfarði, sólarpúður, kinnalitur, augnskuggar) þar sem fitan af fingrunum okkar getur smitast í púðrið og eyðilagt það, þá myndast hálgerð filma yfir púðrið og það verður ekki jafn gott og áður.
Pumpið aldrei maskarann ykkar, mér er það óskiljanlegt hvernig konur geta haldið að það komi meiri maskari á greiðuna með því að pumpa greiðunni hratt inní maskaranum. Þetta gerir ekkert annað en að fylla maskarann af loftbólum sem springa inní honum og þurrka formúluna svo maskarinn eyðileggst. Plís ekki gera þetta. Ef þið viljið fá meiri formúlu á greiðuna snúið þá greiðunni út til hliðanna um leið og þið dragið hana upp.
Drýgjið snyrtivörurnar ykkar:
Reynið að nota snyrtivörurnar ykkar fram til síðasta dropa. Ef þið eigið þéttan og góðan farða en viljið kannski breyta yfir í léttari farða þá þurfið þið ekkert endilega að kaupa ykkur nýjan. Þið getið tekið smá af rakakreminu ykkar og blandað því saman við farðann og borið á andlitið ykkar. Þannig fáið þið hálgert litað dagkrem.
Þó svo að púðrið ykkar brotni þarf það alls ekki að að þýða að það sé ónýtt og það eigi að henda því. Púður er hægt að laga með því að blanda smá af sótthreinsi útí púðrið, þjappið því svo niður með fingrunum en munið að hafa fingurna vafða inní plast til að koma í veg fyrir að það fari fita úr fingrunum ykkar saman við púðrið. Þetta á við um allar púðurförðunarvörur. Ég hef áður talað um þetta ráð en góð vísa er aldrei of oft kveðin.
Góð ráð um maskara:
Góður maskari er það sem flestar konur vilja eiga og leitin að hinum fullkomna maskara getur verið löng, ströng og dýr… Ég hef ótrúlega oft lent í því að finna formúlu af maskara sem ég elska en þá er burstinn ekki nógu góður og svo öfugt. Svakalega getur þetta verið böggandi. Kannist þið ekki við þetta vandamál? Þá er ein leið, þegar þið klárið maskarann með uppáhalds greiðunni ykkar hreinsið hana þá vel. Það getur verið gott að byrja á því að hreinsa greiðuna með augnhreinsi og leyfa henni svo að liggja aðeins í sjóðandi vatni. Fáið ykkur svo maskara með uppáhalds formúlunni ykkar og notið greiðuna góðu með þeim maskara. Hafið í huga að það getur verið erfitt að nota venjulega maskara greiðu með maskaraformúlu sem er með gúmmíbursta þar sem þeir maskarar eru mjög þröngir og getur verið erfitt að troða greiðu ofan í þá. Hreinsið svo alltaf greiðuna eftir notkun af því ef maskarinn þornar á greiðunni getur verið erfitt að nota hana næsta dag.
Sjálf á ég nokkrar svona maskaragreiður sem ég nota með hinum ýmsu formúlum. Uppáhalds maskaraformúlan mín í öllum heiminum er Great Lash formúlan frá Maybelline. Æðislegur maskari, burstinn mætti vera betri en ég fýla hann samt alveg. En formúlan er snilld, kremuð og þétt og endist ótrúlega vel. Persónulega hef ég aldrei lent í því að Great Lash formúlan hrynji af augunum mínum.
Þetta er fín leið til að spara smá – velja ódýra formúlu en að nota bursta kannski af dýrari möskurum. Greiðan endist miklu lengur en formúlan sérstaklega ef hugsað er vel um hana.
Ekki nota svamp til að bera á ykkur farða:
Titillinn á þessu innslagi er bara ráðið sjálft. Svampar draga svo svakalega mikið inní sig svo ef þið notið t.d. svamp til að bera á ykkur fljótandii farða þá getur hann klárast mun hraðar en ef þið notið t.d. hendurnar eða förðunarbursta. Með förðunarburstana þá er gott að nota bursta með gervihárum þar sem þeir draga heldur enga formúlu inní sig. Förðunarburstar með alvöru hárum innihalda kjarna sem draga inní sig formúluna – þó aldrei jafn mikið og svampar gera. Svampar henta fínir sem strokleður, til að laga mistök sem þið gætuð mögulega gert þegar þið eruð að farða ykkur. Svo er líka allt í góðu að nota þá til að jafna áferð húðarinnar en ef þið eigið góða förðunarbursta þá er það ekkert stress kannski. Mörg merki bjóða uppá bursta með gervihárum, allir burstarnir frá Real Techniques eru t.d. með gervihárum.
Nýtið vörur á fleiri en einn hátt:
Varalitir þurfa ekki endilega að vera bara fyrir varirnar, þá er líka hægt að nota sem kinnaliti og jafnvel sem augnskugga. Það sama gildir um gloss nema þeir gefa aðeins meiri ljóma en varalitirnir og nýtast því vel sem highlighter.
Eyelinerblýanta getið þið alveg nýtt sem varalitablýanta og öfugt. Fjólubláir varalitir hafa til dæmis verið mjög áberandi og ef ykkur vantar varablýant í þeim lit athugið fyrst hvort þið eigið kannski eyeliner í sama lit og prófið að nota hann.
Ég vona að þessi örfáu ráð geti mögulega reynst ykkur vel:)
EH
Skrifa Innlegg