Mér datt í hug að næstu leyndarmál myndu einkennast af einföldum en sniðugum makeup ráðum fyrir ykkur og kannski fleirum í einu en vanalega. Næsta leyndarmála færsla átti reyndar að snúast um neglur en ég hef ekki enn haft tíma til að skella í hana – ætlaði að reyna að gera myndbönd með þeirri færslu líka ;)
En hér eru nokkur góð tips sem eru kannski ekki svo augljós en um leið og þið heyrið þau þá fattið þið hvað þau eru mikil snilld!
Blanda saman smá augnkremi útí hyljara til að jafna áferð í kringum augun:
Augnkrem gefa húðinni í kringum augun góðan raka og ef þið eruð með smá línur í kringum augun þá fylla flest þeirra auðvitað uppí þau. Hvort sem þið notið augnkrem á hverjum degi eða ekki er sniðugt þó að blanda því saman við smá hyljara til að setja í kringum augun. Áferðin verður ótrúlega flott, jöfn og hyljarinn fer ekki í línur svo það þarf t.d. ekki að nota mikið púður til að matta áferðina svo hyljarinn fari ekki í rugl.
Notið sólarpúður til að dekkja húðina:
Nú er ég ekki að hvetja ykkur til að bera sólarpúður yfir alla húðina – alls ekki gera það þá verður áferðin á húðinni of púðruð. En ef þið setjið smá sólarpúður t.d. með sanseringu eða smá highlight yfir svæði andlitsins sem standa út þá getið þið látið líta út fyrir að þið hafið verið útí sól. Setjið sólarpúður ofan á kinnbeinin, yfir ennið, meðfram nefinu og á hökuna og ef þið eruð í þannig flík að ofan setjið þá aðeins ofan á bringubeinið. Þetta eru þau svæði sem ná sér fyrst í lit þegar við förum í sólina svo liturinn virðist raunverulegur.
Notið fleiri en einn maskara til að fá fullkomin augnhár:
Maður þarf alls ekki bara að nota einn maskara til að móta augnhárin sín. Ef þið hafið ekki enn fundið hinn fullkomna maskara fyrir ykkur þá getur verið sniðugt að nota tvo mismunandi maskara. Kannski einn til að byrja að móta augnhárin, sem greiðir vel úr þeim og svo loks notið þið annan sem er kannski kolsvartur og gefur meiri þykkingu eða lengingu. Mér finnst líka alltaf nauðsynlegt að vera með góða stál augnhára greiðu eins og þessa frá Real Techniques við hendina til að renna í gegnum augnhárin til að fullkomna þau og fjarlægja klumpa sem geta komið á augnhárin. Nýlega setti Max Factor á markaðinn tvöfaldan maskara sem er algjör snilld. Í öðrum endanum er maskari sem er æði dags daglega og hinum megin er svo meiri þykkingarformúla sem er kolsvört og gefur fallega glans áferð á augnhárin. Í vikunni ætla ég einmitt að sýna ykkur videoumfjöllun um hann.
Notið púður á milli umferða til að byggja upp þekju:
Ef þið fáið leiðinlega bólu eða eruð með hrikalega bauga þá er sniðugt að setja nokkrar umferðir af hyljara þangað til ykkur finnst þið vera búin að fá nógu góða þekju. Setjið smá púður á milli umferða af hyljaranum til að byggja upp meiri þéttleika og til að auðvelda ykkur verkið!
Burt með leiðindaroða:
Ef þið eruð með mikinn roða í húðinni t.d. rósaroða þá eru nú fáanleg alls konar sniðug krem til að leiðrétta það. Sjálf finnst mér þegar ég hef verið að farða konur með roða CC kremið frá L’Oreal langbest. Það er líkast töfrum að setja kremið yfir rauða húð þar sem liturinn jafnast samstundis. Ég hef svo heyrt það frá einni vinkonu minni sem er með rósaroða að það virki sérstaklega vel við roðanum hennar og að það virki betur en aðrar vörur sem hún hefur prófað. Það sem er svo sérstakt við það er að það er grænt þegar það kemur úr túpunni en það inniheldur litapigment sem springa út og lita kremið með léttum brúnum tón sem aðlagast litarhafti húðar þeirrar konu sem notar það – algjört töfrakrem!
Notið þurrsjampó til að fá lyftingu í hárið!
Eitt svona hártips sem ég nota sjálf stöðugt. Þegar ég vil aðeins fríska uppá hárið, fá aukna lyftingu þá finnst mér þurrsjampó eina leiðin til að gera það vel og hratt. Ég beygi mig fram svo hárið stendur niður og set þurrsjampóið í hárrótina. Nudda því svo aðeins í rótina og kasta hárinu upp. Þá kemur samstundis góð lyfting. Ég er mjög hrifin af þurrsjampóinu frá eva nyc sem fæst t.d. í ölluma apótekum mjög litríkur brúsi og svo var ég að prófa sjampóið frá Sebastian sem er snilld það fæst á hárgreiðslustofum. Svo eru reyndar líka rosalega sniðug þurrsjampó með lit í frá merkinu Label M t.d. eru þau sniðug ef þið eruð farnar að fá smá rót hvort sem það er sökum annars hárlits eða grárra hára – þá dekkar sjampóið litinn áður en þið komist í litun:)
Vonandi koma þessi ráð að góðum notum :)
EH
Skrifa Innlegg