fbpx

Langar þig í Jóladagatal fjölskyldunnar

Ég Mæli MeðJól 2014Lífið Mitt

Eins og ég sagði ykkur frá um daginn erum við fjölskyldan búin að græja okkur alveg upp með jóladagatatölum fyrir desember. Eftir að ég las mér til um Jóladagatal fjölskyldunnar langar mig dáldið mikið að bæta við einu – fyrir alla fjölskylduna.

Jóladagatal fjölskyldunnar er hugmynd sem vinkonurnar Þóra Hrund og Erla framkvæmdu fyrir jólin í ár og ég heyrði aðeins í henni Þóru Hrund og fékk hana til að svara nokkrum spurningum fyrir mig og lesendur sem ég hvet ykkur endilega til að skoða og lesa. Ég hvet ykkur líka til að skoða neðst í færslunni ef ykkur langar í svona dagatal en 5 lesendur sem taka þátt og svara einni einfaldri spurningu fá dagatal fyrir sig og sína.

Dagatal

Hvaðan spratt hugmyndin að jóladagatali fjölskyldunnar?

Ég og Erla Björnsdóttir sem er með mér í þessu verkefni deilum skrifstofu ásamt öðrum snillingum í Austurstræti 12. Þar ríkir mikil sköpunargleði og hraði og eru allir að vinna að sýnum verkefnum/fyrirtækjum. Ég og Erla erum búnar að þekkjast í þónokkur ár en höfum hingað til aldrei unnið saman að neinu verkefni enda vinnum við á ólíkum vettvöngum þrátt fyrir að sálfræði og markaðsfræði séu náskyld fög að mörgu leiti. Við sátum einn daginn yfir kaffibolla að fabúlera um daginn og veginn. Erla og maðurinn hennar Hálfdán eiga saman 4 stráka sem eiga það sameiginlegt að vera mikil jólabörn. Þau eru foreldrar sem má taka til fyrirmyndar varðandi ýmsa hluti og þá sérstaklega hvað þau eru dugleg að gera allskonar sniðugt með strákunum sínum. Þau hafa síðustu ár verið að föndra jóladagatal í svipuðum anda og Jólin okkar, og hefur það alltaf slegið algjörlega í gegn og hefur verið það fyrsta sem strákarnir gera þegar þeir vakna á morgnana að kíkja hvað fjölskyldan ætlar að gera saman þann daginn. Skórinn og súkkulaði dagatalið hefur alveg fallið í skuggann á þessum skemmtilegu samverustundum. Leiddi samtalið út í það hvað það væri auðvelt að gleyma sér í jólastressinu, þar sem fólk er oft undir meira vinnuálagi og svo eiga íslendingar það til að gera allt á síðustu stundu syndromið (og er ég þar ekki undanskylin) og því mikið að gera í desember. Fókusinn hefur mikið verið á þetta efnislega, hvað á að gefa í skóinn, hvað á að gefa í jólagjöf, kaupa jólaföt o.s.frv. en þótt það hljómi eins og klisja þá þegar á botninn er hvolft þá leitumst við öll eftir athygli og þá er það besta sem við gefum öðrum, hvort sem það eru börnunum okkar eða maka, tíma og athygli. Okkur datt í hug að fleiri hefðu eflaust áhuga á slíku dagatali og kom þá hugmyndin um að gefa út dagatalið og hvetja fólk þar með að setja fókusinn á réttan stað, slaka aðeins á og njóta fleiri samverustunda með ástvinum. Upphaflega ætluðum við bara að prenta þetta í litlu upplagi þar sem við fengum þessa hugmynd ansi seint og eins og ég nefndi hér að ofan, íslendinga syndromið, þá vorum við á síðustu stundu að búa það til. Höfum við þó ákveðið að prenta aðeins stærra upplag en stóð til upphaflega þar sem móttökurnar hafa vægast sagt verið frábærar og er upphaflega upplagið að verða uppselt í forsölu. Greinilegt að það eru fleiri sem vilja njóta samverustunda með fjölskyldunni í desember.

Hvernig gekk að finna hugmyndir að því hvað ætti að vera í dagatalinu?

Það gekk ansi vel. Við skrifuðum lista með hátt í 100 hugmyndum um samverustundir og völdum síðan úr þær sem hentuðu best með tilliti til fyrirhafnar, staðsetningar og kostnaðar. En vildum við að allir ættu möguleika á að framkvæma hugmyndirnar óháð staðsetningu, aðstæðum og kostnaði. Í dagatalinu er líka talið niður til jólanna og sagt hvaða jólasveinar koma hvern dag þar sem foreldrar eru oft ekki alveg með röðina á hreinu. Við vildum líka hafa þetta fallegt, svo gaman sé að hafa þetta hangandi upp á vegg.

Geturðu gefið smá innsýn í það hvað gæti mögulega leynst á bakvið gluggana í dagatalinu?

Hver dagur felur í sér ákveðna samverustund sem fólk getur aðlagað svolítið eftir eigin þörfum. Það er hægt að gefa sér lengri tíma í hlutina ef aðstæður leyfa en ef fólk er í kappi við tímann er samt sem áður hægt að eiga þessar gæða samverustundir á styttri tíma. Dæmi má nefna með daginn sem kallast “Jólin í gamladaga” en þar eru foreldrar hvattir til að segja börnum sínum frá því hvernig jólin voru þegar þau voru börn og hvað hefur breyst. Skoða síðan gamlar fjölskyldumyndir síðan á jólunum, en gaman getur verið að skoða myndir nokkur ár aftur í tímann. Jólaárbítur er líka annar dagur en miðast hann þá á helgidag þar sem fjölskyldan er hvött til að tæma ísskápinn og búa til dýrindis morgunverðastund saman. Síðan eru margar samverustundirnar eitthvað sem flestir gera á einhverjum tímapunkti fyrir jólin en málið er að gera sem mest úr þessum litlu stundum.

Ein blaðsíða - jóladagatal

Hvar verður hægt að nálgast jóladagatalið?

Jóladagatalið má nálgast á facebook síðunni okkar, www.facebook.com/jolinokkar eða með að senda okkur póst á jolinokkar(hja)umtal.is. Í lok vikunnar verður dagatalið einnig komið í matvöruverslanir, bókabúðir og nokkrar litlar og sætar búðir útum allt land.

Verður þetta núna árlegt hjá ykkur og er mögulega eitthvað annað framundan hjá ykkur vinkonunum?

Planið var einmitt upphaflega að hafa þetta árlegt og miðað við þær viðtökur sem við höfum fengið þá held ég að það sé nokkuð ljóst að við gefum þetta út aftur að ári. Það eru nokkur verkefni í kortunum hjá okkur á næstunni en má þá helst nefna fyrirlestraröð fyrir konur sem vilja fá innblástur og fræðast um verkefni annara efnilegra kvenna og útgáfa á dagbók í desember. Við deilum einskonar dagbókarblæti og ætlum við því að sameina krafta okkar í að gera hina fullkomnu dagbók að okkar mati :)

photo (1)

Þetta eru svo sannarlega glæsilegar og framtakssamar vinkonur!

Þóra Hrund, Erla og ég viljum gleðja lesendur sem halda að dagatalið muni vekja lukku hjá fjölskyldum sínum með einu eintaki. Það sem þið þurfið að gera er að:

Segja okkur frá því hvað er í uppáhaldi hjá ykkur við jólin í athugasemd við þessa færslu og smelltu á LIKE á facebook síðu dagatalsins – JÓLIN OKKAR.

Mig langar í leiðinni að segja ykkur frá því sem er í uppáhaldi hjá mér – það eru tvær stundir sem ég get ekki valið á milli. Eftir að ég fór að halda jólin sjálf, heima hjá mér með mínum manni en í ár eru þetta þriðju jólin sem við verðum heima hjá okkur, þá er það augnablikið þar sem allt er tilbúið sem er uppáhalds. Þegar maturinn er kominn á borðið, pakkarnir eru komnir undir tréð, allir prúðbúnir í sínu fínasta og krikjuklukkurnar heyrast í útvarpinu þegar klukkan er orðin 6. Þetta stutta andartak þar sem allt er tilbúið og allt svo hátíðlegt er í miklu uppáhaldi hjá mér – því þá eru jólin komin :)

Hitt sem er í uppáhaldi er að fara í kirkjugarðinn og heimsækja afa, ömmu og Addí frænku, systur hennar mömmu. Leiðin þeirra eru hlið við hlið og að standa þarna í snjónum (yfirleitt) horfa yfir garðinn á öll fallegu ljósin og óska þessum þremur gleðilegra jóla er eitt það yndislegasta sem ég geri. Afi minni, þegar hann var á lífi, fór alltaf með mig í kirkjugarðinn til ömmu á aðfangadag þetta var ómissandi hefð á hverju ári og hefð sem mér þótti svo vænt um. Alltof mörgum árum síðar er ég enn að venjast því að afi standi ekki við hliðiná mér á þessum degi í kirkjugarðinum hjá ömmu en ætli hann sé nú ekki þarna einhvers staðar hjá mér – ég vona alla vega að hann fylgist með :) Eftir að afi dó pössuðu mamma og pabbi uppá að við systkinin héldum í þessa hefð og í fyrra hélt ég henni áfram með Tinna Snæ og ætla að gera það um ókomin ár. Heimsóknir til ástvina eru ómissandi um jólin hvort sem þau eru lífs eða liðin það finnst mér alla vega og þessi stund sem ég á með ömmu, afa og Addí frænku eru ómetanleg á hverju ári.

Til hamingju flottu vinkonur með þetta dásamlega dagatal ég hlakka til að opna það á hverjum degi með mínum :)

EH

Ég dreg svo út 5 lesendur sem taka þátt eftir helgi :)

Vinkonukvöld hjá Blue Lagoon

Skrifa Innlegg

12 Skilaboð

  1. Sif Heiða Guðmundsdóttir

    14. November 2014

    Aðfangadagskvöld, eftir mat og pakka – þegar ró er komin yfir heimilið, er mín uppáhalds jólastund. Narta í konfekt, drekka malt&appelsín – og lesa í nýrri bók.

    Má til með að óska Þóru Hrund og Erlu til lukku með glæsilegt jóladagatal – frábært að það sé komið mótvægi við dóta- og súkkulaðidagatölunum.

  2. Birna G. Jónsdóttir

    15. November 2014

    Klukkan sex þegar bjöllurnar byrja að hringja jólin inn og allir skiptast á faðmlögum og óskum um gleðileg jól. Mér finnst líka dásamlegt að hafa messuna á meðan borðað er, ekki það að ég sé endilega að hlusta…það minnir mig bara svo á jólin með ömmu og afa <3

  3. Brynja Guðnadóttir

    15. November 2014

    Þorláksmessa með smá stressi, Aðfangadagur og Hangikjöt á jóladag með stórfjölskyldunni sem endar í skemmtilegu bingói.

  4. Elísabet Heiðarsdóttir

    15. November 2014

    Mér finnst jólin hafa öðlast nýtt gildi eftir að ég eignaðist börn:) en að upplifa gleðina með þeim er yndislegt. Jólaboð stórfjölskyldunnar á jóladag stendur svo alltaf fyrir sínu, þar sem að ég get borðað, hlegið og haft gaman með öllu uppáhaldsfólkinu mínu:)

  5. Snædís Baldursdóttir

    15. November 2014

    Þegar jólaklukkurnar hringja inn jólin. Það var alltaf lang hátíðlegasta stundin þegar ég var barn en núna tengi ég þær svo sterkt við minningar mínar frá fæðingardeildinni aðfangadag 2005 þegar ég var að reyna að koma syni mínum í heiminn :)

  6. Sigrún

    16. November 2014

    Ég er eins og þú, get ekki valið á milli uppáhalds mómentsins, þegar allt er tilbúið, klukkurnar hringja og allir óska hvert öðru gleðilegra jóla er lang hatiðlegasta stundin að mínu mati, gleðin í augun barnanna minna þegar þau fá loks að tæta í sig gjafirnar og svo þegar allt er komið í ró er rosalega gott að skipta yfir í náttfötin og leggjast upp í brakandi hreint rúm með nýja bók :)

    Ég á þrjú börn á mismunandi aldri, við eigum okkar fjölskylduhefðir svo sem að rölta niður laugavegin að kvöldi fá okkur heitt kakó og velja saman eitt nýtt jólaskraut á jólatréð, það er uppáhalds hefðin okkar en oft er erfitt að finna hugmyndir sem henta mismunandi aldri og því myndi væri svona dagatal gleðja bæði foreldra og börn :)

  7. Sigríður Hauksdóttir

    16. November 2014

    Í seinni tíð hefur mér þótt aðdragandinn eða aðventan það dásamlegasta við jólin, það er svo margt skemmtilegt í gangi og hægt að gera með fjölskyldu og vinum til að undirbúa en um leið að stytta sér stundir fram að jólum. Ýmsar skemmtilegar hefðir hafa skapast en það væri rosalega gaman að fá eitt svona flott dagatal til að bæta enn frekar við þessar góðu stundir og hefðir :D

  8. Unnur Guðlaug

    16. November 2014

    Það sem er í uppáhaldi hjá mér er það að eftir að hafa eignast börn þá upplifir maður jólin á nýjan hátt á hverju ári því þær stækka og þroskast og eitthvað nýtt bætist við á hverju ári sem þær “fatta”. Finnst yndislegt að upplifa jólin í gegnum börnin :)

    Og besta hefðin er að alltaf kl 18 þegar búið er að hringja inn jólin er lagið Ó Helga nótt með Agli Ólafssyni spilað og hefur verið gert síðan ég var lítil. Hélt því áfram eftir að ég fór að halda jólin heima hjá mér :)

  9. Þóra

    16. November 2014

    Jólin eru dásamleg tilfinninga rússíbanareið, söknuður, gleði, hamingja og sorg í einni kássu. Það besta við jólin finnst mér vera hamingjan, það eru bara flestir svo hrikalega hamingjusamir að það smitar :D

  10. Hildur Sif Rafnsdóttir

    16. November 2014

    Finnst þetta frábær hugmynd af jóladagatali! :) Ég á eiginlega tvær uppáhalds hefðir.. get ekki valið á milli þeirra. Á þorláksmessukvöld er skreytt jólatréið saman, eftir það er kíkt niður í bæ og klárað að versla síðustu jólagjafirnar og fengið sér heitt súkkulaði, þá eru jólin svo sannarlega komin!
    Svo á aðfangadagskvöld á slaginu 18 þegar bjöllurnar í útvarpinu klingja stoppar fjölskyldan og allir knúsast, kyssast og óska gleðilegra jóla, þá hugsa ég alltaf hvað ég er heppin að eiga frábæru fjölskylduna mína að :)

    En ég hlakka líka til að búa til nýjar hefðir með manninum mínum og syni okkar. Þetta eru önnur jólin hans og það sem ég hlakka til að búa til jólaminningar með þeim feðgum :)

  11. Snædís Ósk

    17. November 2014

    Ég verð að vera sammála um að uppáhalds mómentið mitt er þegar allir setjast við matarborðið í sínu fínasta pússi og kirkjuklukkurnar í útvarpinu hringja inn jólin!
    Ég hlakka samt ótrúlega til að upplifa jólin í ár í gegnum Arnar Kára og skapa nýjar hefðir með honum og Ívari :)

  12. Þórey Birna

    18. November 2014

    Að opna jólakortin þegar ró er komin á heimilið eftir pakkfjörið og gleðjast yfir fallegu myndunum og orðunum frá vinum og vandamönnum allsstaðar að af landinu.