Þegar ég fór á Bjútíbloggara kynninguna hjá Make Up Store um daginn þá fengum við heim með okkur poka með nokkrum vel völdum glaðningum. Meðal þess sem ég fékk var þetta nýja lausa sólarpúður. Almennt finnst mér ekkert sérstök lykt af púðurförðunarvörum en ég pæli svo sem ekkert sérstaklega mikið í henni. Hin vegar tók ég strax eftir lyktinni eða réttara sagt ilminum af þessu púðri – svo góður var hann.
Mér finnst þetta skemmtileg og sniðug hugmynd hjá snyrtivörumerkinu þar sem það er auðvitað rosalega mikið úrval af sólarpúðrum en ilmurinn gerir þetta púður sérstakt og spennandi. Hinn kosturinn við þetta púður er að það er laust í sér sem minnir óneitanlega á steinefnapúðurfarða sem hafa verið vinsælir undanfarið. Þegar lausa púðrið kemst í snertingu við hita bráðnar það og skilar sér í enn fallegri og náttúrulegri áferð fyrir húðina.
Hér fyrir neðan sjáið þið myndir af vörunni, mér með púðrið og smá útskýringarmynd sem sýnir hvernig ég nota það.
Ég gerði bara einfallda og klassíska skyggingu með sólarpúðrinu. Þá sömu og ég geri á hverjum einasta degi og þá sömu og mér finnst nóg að allar konur noti dags daglega.
Hér sjáið þið svo á útskýringarmynd hvar ég set nákvæmlega púðrið. Svona laust sólarpúður er mikilvægt að vinna vel saman við húðina með hringlaga hreyfingum til að fá náttúrulega áferð á það og hjálpa því að blandast saman við förðunarvörurnar sem fyrir eru.
Púðrið kemur með skrúfloki og ofan á götunum sem mynda M (fyrir Make Up Store) liggur stórt hringlótt límband sem er mjög sniðugt að hafa bara á svo púðrið gusist ekki uppúr götunum ef það fer óvart á hreyfingu. Þá getur púðrið líka farið allt útum allt þegar þið opnið það.
Púðrið finnst mér ekki vera með mikilli sanseringu en það inniheldur þó fínar glimmeragnir sem mér finnst samt ekki fara mikið fyrir. Eina sem ég get varað við er ef til vill liturinn á púðrinu sem er heldur appelsínugulur – það eina sem ber þó að varast með það er að mögulega hentar litatónninn ekki ykkur sem eru með rauðan undirtón í húðinni. Sjálf er ég með gulan undirtón sem er langalgengastur en þar sem ég er með mjög ljósa húð þá passa ég líka uppá að blanda púðrinu extra vel og setja alls ekki of mikið. Munið að dusta alltaf aðeins úr burstanum með því að slá honum létt á handabakið áður en þið berið nokkrar púðurförðunarvörur á húðina – það er alltaf auðveldara að bæta á en aðeins meira vesen að draga úr.
Nýtið ykkur endilega frábæra ráðgjöf sem er í boði í Make Up Store og athugið hvort þið getið ekki platað stelpurnar til að prófa þetta sólarpúður á húðinni ykkar – þá sjáið þið hvernig það kemur út og getið mögulega fengið aukatips um hvernig er gott að nota það:)
EH
p.s. munið að finna líka ilminn af því – hann er æði!
Skrifa Innlegg