fbpx

Heimagerður jólapappír

Jól 2014JólagjafahugmyndirLífið Mitt

Þá held ég að ég sé búin að finna mér föndrið fyrir jólin – heimagerður jólapappír! Ókei kannski ekki alveg heimagerður frá grunni en heimaskreyttur er kannski betra orð. Ég rakst á svo skemmtilegar útgáfur af heimaskreyttum pappír á Pinterest flakkinu mínu fyrir stuttu og ég er alveg fallin fyrir þessari hugmynd sérstaklega þar sem maður getur látið hugann reika og gert það sem manni dettur í hug.

Að skrifa fallegar jólakveðjur eða jafnvel texta úr uppáhalds jólalögunum sínum er einföld leið til að fríska aðeins uppá venjulegan brúnan pappír. Mér finnst þetta mjög skemmtileg hugmynd og ég þyrfti helst að redda mér einhverjum flottum svörtum kolalit til að gera þetta. Pappírana væri hægt að skreyta með hinum ýmsu setningum og kemur skemmtilega út með því að binda svo utan um hann með einföldu snæri og flottum merkimiða.

Ég er samt mjög hrifin af því að vera með svartan pappír sem er skreyttur með hvítum lit – en ég man bara alls ekki eftir því að hafa nokkurs staðar rekist á svartan pappír – hvað með ykkur, endilega deilið!

Svo er gaman að poppa uppá þann pappír með skemmtilegum böndum og öðrum líflegum skreytingum.

0299bd1daba0171e6faf72924caa3a31

Þetta finnst mér líka skemmtileg hugmynd að skreyta pakkana með jólaseríu. Tinni Snær gæti tekið þátt í þessu föndri með því að gera ljósin með sætu litlu puttunum sínum.

Mig langar svo að sjálfsögðu líka að leyfa honum að skreyta pappírinn með fallegum teikningum. Hann er svo duglegur að taka þátt í öllu föndri hjá dagmömmunum sínum svo hann ætti að njóta sín alveg í botn með örk af brúnum pappír.

518c0abe54e4bf9861cc9e4bc678b5d4

Svo er nú klassískt að vefja svona diskaskreytingarmottum yfir einfalda pakka og nota jafnvel til að merkja pakkana.

26e9f32af76987b124747eaa3f84648c

Ég held ég geri líka nokkra svona en ég veit fátt skemmtilegra en að pakka inn jólagjöfum – mér finnst sko alls ekki svona gaman að pakka inn afmælispökkum. Það er bara eitthvað við þennan árstíma og að pakka inn öllum gjöfunum sem maður er búinn að velja til að gleðja fólkið sitt. Svona voru pakkarnir mínir í fyrra…

jólapakkar4-620x413

Er þetta ekki bara dáldið skemmtileg hugmynd að jólaföndri í ár? Mig dauðlangaði reyndar að kaupa mottu undir jólatréið með munstri til að sauma út í – ég sá þannig fyrir nokkrum vikum í A4 í Smáralind en finn hana ekki aftur ætli fleiri hafi ekki fengið sömu hugmynd og ég. Mig bara vantar svo skemmtilega mottu undir jólatréð og það væri svo gaman að gera hana sjálf – ég hef augun aftur opin fyrir þannig föndri bara á næsta ári – í ár er það heimaskreytti jólapappírinn.

Ég held ég ætli að segja pass við kertaföndri í ár, langar að gera eitthvað nýtt eins og pappírinn hér fyrir ofan. En fyrir þær sem langar að gera svoleiðis þá minni ég á sýnikennsluvideoið mitt sem þið finnið hér fyrir neðan – það er alltaf um að gera að vera snemma í að byrja á svona jólaföndri því efnið sem þarf í þau selst hratt upp í föndurbúðum

Ég er eiginlega komin í svakalega mikið hátíðarskap og ég ætla að leyfa mér að byrja snemma í ár. Jólin eru svo dásamlegur tími og bara alltof stuttur tími svo það er um að gera að teygja aðeins úr honum þó ég ætli nú kannski ekki að blasta tónlistinni strax :)

EH

How to: Shimmer Brick

Skrifa Innlegg

15 Skilaboð

 1. árný

  11. November 2014

  Fallegar hugmyndir. Ég má líka til með að benda á að flottu merkimiðarnir á síðustu jólamyndinni eru frá Reykjavík Letterpress, íslensku hönnunarfyrirtæki sem allir ættu að tjékka á…. https://www.facebook.com/reykjavikletterpress

  • Reykjavík Fashion Journal

   11. November 2014

   Jú einmitt – þetta eru jólapakkarnir sem ég sendi frá mér í fyrra – allar upplýsingar um miðana eru í færslunni sem ég bendi á hér fyrir ofan :) Merkimiðarnir vöktu mikla lukku og gerðu pakkana enn flottari!

 2. Fanný

  11. November 2014

  Ég lét einu sinni strákinn minn hlaupa með málningu undir fótunum yfir hvítann pappír. Kom rosalega vel út og fjölskyldan hrifin.

 3. Anna

  11. November 2014

  Mjög sniðugt að skreyta jólapappírinn ! Langar að láta strákinn minn skreyta. En hvar get ég fengið svona brúnan pappír ?:)

  • Reykjavík Fashion Journal

   11. November 2014

   Held að brúni pappírinn sé nánast til alls staðar – Hagkaup, Bókabúðum og IKEA – held það sé hægt að kaupa alveg svona extra stórar rúllur hjá þeim sænsku :)

 4. Margret

  11. November 2014

  Veistu hvar diskaskreytingamotturnar fast ? :)

 5. Elín

  11. November 2014

  Mamma og pabbi létu okkur systkinin mála á pakkana (pökkuðu þeim fyst inn í dagblöð og svo brúnan makínupappír sem við máluðum á). Ég man ekki hvað við vorum gömul þegar við hættum en ég var orðin unglingur þegar ég áttaði mig á að ömmur og afar geymdu allar myndirnar

 6. Anonymous

  11. November 2014

  Það er hægt að fá svartan pappír í söstrene grene :)

  • Reykjavík Fashion Journal

   11. November 2014

   Ég sem fór þangað í dag eða í Kringluna – var ekki til þar, þarf að kíkja inní Smáralind á morgun ;)

 7. Þóra Magnea

  11. November 2014

  Manstu ekki eftir því þegar við bjuggum á Egilsstöðum en þá málaði ég jólapappírinn? Lærði það af snillingunum á Héraði. Hvað svarta pappírinn varðar þá getur þú málað brúnan pappír með svartri krítarmálningu sem fæst í föndurbúðum og svo notað krítarpenna til að skreyta (hægt að fá hann í mörgum litum). Þegar maður málar pappírinn að fullu er gott að pressa hann í nokkra daga undir þykkum bókum.

  Diskaskreytingarmottur eru líka til í mörgum stærðum í föndurbúðum. Hef séð þær í Föndru og Föndurlist sem er í Holtagörðum.

 8. Herdís

  12. November 2014

  Hvar fær maður svona Stimpla til að setja nöfn til og frá, eða einhverskonar prentaða stafi?