fbpx

Hátíðin frá YSL

AugnskuggarÉg Mæli MeðJól 2014LúkkMakeup ArtistYSL

Þá er loksins komið að því að birta færslu sem er búin að vera í drafts alltof lengi! Ég kenni tímaleysi og tölvubilun um já og bara löngun minni til að eiga notaleg blogglaus jól ;) En það gerir þó ekkert til að þessi förðun komi aðeins of seint inn þar sem litasprengjan hentar líka fullkomlega fyrir áramótin. Hér sjáið þið hátíðarförðunina mína með vörum frá Yves Saint Laurent!

yslhátíð7

Förðunina gerði ég með þeirri allra fallegustu augnskuggapallettu sem ég hef lengi séð en pallettan er úr nýja pallettusafninu frá merkinu en þeir komu núna í haust, glæný formúla og nýjar litasamsetningar sem voru allar settar saman með part af sögu merkisins í huga – hversu dásamlegt er það!

yslhátíð3

Hér sjáið þið svo hvernig hún er með lokuð augun, það fór dáldill tími í að ákveða hvernig litablöndunin ætti að vera en á ákvað að vera ekki að kíkja á neinar myndir af förðunum sem aðrir höfðu gert með pallettunni og bara prófa mig áfram. Augnskuggana frá YSL má nota bæði þurra og blauta og það gerði ég – bæði.

yslhátíðarförðun

1. Le Teint Encre De Peau, nýjasti farðinn frá merkinu sem er ótrúlega drjúgur og þekjandi en á sama tíma einn sá léttasti farði sem ég hef prófað. Farðinn skilur eftir sig flauelsmjýkt yfirborð og púður er algjör óþarfi með þessum farða. Með hjálp sprotans inní farðanum set ég hann á andlitið og nota svo buffing bursta til að jafna áferðina. Frábær farði sem er auðvelt að mæla með og standa heilshugar að baki meðmælunum!

2. Touche Éclat, það er nú varla hægt að gera YSL hátíðarförðun án þessarar tímalausu vöru frá merkinu. Ljómapennann nota ég sem hyljara og highlighter bara til að fullkomna grunninn.

3. Mascara Volume Effet Faux Cils Shocking, hér sjáið þið minn uppáhalds maskara frá YSL, ég elska þennan og hef gert frá því við hittumst fyrst. Hann þykir augnhárin samstundis og þéttir þau svo um munar. Hann er auðvelt að nota til að byggja upp augnhárin smám saman en hér nota ég bara eina umferð þar sem ég vildi hafa athyglina á augnhárunum. Það besta við þennan er hinn dásamlegi ilmur, en það er eitt sem þarf að passa uppá og það er að loka honum vel, ég hef nefninlega heyrt frá nokkrum sem hafa notað hann að þeim finnst hann þorna hratt inní umbúðunum. Það hefur ekki enn gerst hjá mér en ég er búin með tvo svona og hef klárað þá upp til agna og formúlan alltaf blaut og flott – bara að loka mjög vel – en það á við um alla þykkingarmaskara og þær formúlur sem eru almennt með möskurum með venjulegri greiðu, af fenginni reynslu eru þær viðkvæmari fyrir súrefni en hinar ;)

4. Couture Pallette í litasamsetningunni Ballets Russes en innblásturinn af litasamsetningunni er lína sem Yves Saint Laurent sjálfur hannaði um þá línu lét hönnuðurinn frægi eftir sér hafa „Some collections are very special to me, I feel an artistic joy“. En ég mæli algjörlega með því að þið leitið af myndum af þessari línu sem er eitthvað alveg sérstakt eins og þessi palletta. Ég heillaðist af þessari samstundis og ég sá hana, litirnir kölluðu á mig og forvitnin um hvernig útkoman yrði með því að blanda þeim saman tók yfir allt. Ég er mjög ánægð með útkomuna en ég segi betur frá blönduninni hér fyrir neðan.

5. Rouge Volupté í lit nr. 1 – Nude Beige, hér er um að ræða einstaklega fallegan nude lit sem er alveg fullkomlega látlaus við þessa förðun en bleiki undirtónninn tónar mjög vel við litasamsetninguna. Það fer ekki á milli mála að þessi litur verður mikið notaður enda tímalaus og flottur og alltaf vinsæll hjá merkinu!

6. Eyeliner Effet Faux Cils, þessi eyeliner eins og umbúðirnar gefa til kynna er settur í flott með maskaranum sem ég notaði. Eyelinerar eru auðvitað hugsaðir til að gefa augnhárunum okkar aukna þykkingu við rót og hjálpa til við að móta augnumgerðina og því átti vel við að nota þessar tvo innrammara við verkið. Tússpennar eru ástin mín og þessi er dáldið stífur og góður, þægilegur í notkun og það verður gaman að láta reyna á endingu vörunnar sjálfrar en okkar samband byrjar vel.

yslhátíð5

Ef þið rýnið í augnlokin ættuð þið að sjá nokkurn vegin hvernig ég er að blanda litunum saman, ljósasti gyllti tónninn fór á innri helming augnloksins en hann sést lítið nú þar sem sá blái tók yfirhöndina á því svæði, ef þið rýnið þó vel í myndina þá sjáið þið hlýjan undirtón í honum. Sá bronslitaði fór á móti á ytri helming augnloksins og þessum litum blandað saman. Sá fjólublái er notaður í skygginguna en er þó aðallega í globuslínunni og mætir svo bronslitnum um mitt augnlokið. Svo tók ég þann bláa og bleytti upp í honum og bar í innri augnkrókinn. Litirnir verða alveg rosalega sterkir í bleytu en halda samt einhvern vegin í púðuráferðina og blandast alveg jafn vel og áður. Það er eins og pigmentin fái rosalegt spark í rassinn með vatninu og ljóminn frá litnum er alveg dásamlegur. Eini liturinn sem fékk að hvíla hér er sá bleiki en hann verður bara notaður seinna – ef ég á að segja eins og er þá fann ég bara engan stað til að setja hann á :D

yslhátíð2

Ég er mjög ánægð með útkomuna frá fyrstu kynnum mínum við þessa dásamlega fallegu litasamsetningu sem er innblásin frá hönnun meistarans sjálfs og hlakka til að endurnýja þau við fyrsta tækifæri. Merkið hefur sannarlega fengið að blómstra á árinu 2014 og frábærir hlutir hafa gerst þar má helst nefna Coutuer augnskuggapalletturnar, Le Teint Encre de Pau farðann og að sjálfsögðu endurkomu Opium ilmsins sem stendur svo sannarlega undir nafni og er alveg ávanabindandi!

EH

Vörurnar sem ég skrifa um hér fékk ég sendar sem sýnishorn. Það hefur þó engin áhrif á álit mitt á vörunum og eins og alltaf veiti ég hreinskilið álit.

Lúxusburstar frá Real Techniques?

Skrifa Innlegg