Vöruna sem ég skrifa um í færslunni fékk ég sem gjöf, ég meina þó allt sem ég skrifa og eins og alltaf er færslan skrifuð í einlægni og öll orð eru frá mér :)
Já ég prófaði dáldið nýtt í dag, um að gera að skella sér smá útfyrir þægindarammann þó það sé nú ekkert of langt eða alla vega þannig að það er auðvelt að taka það til baka, nú er hárið orðið bleikt!
Ekki allt hárð heldur bara endarnir og það með stórskemmtilegri hárkrít. Hér er mikil gleði á heimilinu vegna öskudagsins svo mamman er kannski bara smá í takt við það með bleika hárið sitt. Tumalingur var pandabjörn og Tinni Snær ákvað að vera rauðhetta. Honum finnst sjálfum hárið á mömmu mjög flott þó hann hafi samt ákveðið að hvetja mig til að fara í klippingu, mamman er víst komin með of mikið hár – bleiki liturinn fannst honum mjög flottur!
Litinn gerði ég með þessu snilldartóli sem er hárkrít frá merkinu Fudge Urban en það fæst í Hagkaup, Lyfju og Lyf og Heilsu, í fullt af fleiri litum líka, ég væri t.d. mjög mikið til í að prófa hvíta litinn með þessum bleika til að setja smá pastel áferð í litinn, það gæti komið virkilega skemmtilega út!
Ég var ekkert sérlega vongóð um að krítin myndi endilega ná að lita mitt hár en það tókst svona svakalega vel þó ég sé með mitt dökka hár. Ég nuddaði krítinni bara mjög óreglulega í enda hársins. Ég byrjaði reyndar á því að ýfa það vel upp með þurrsjampói og setti svo krítina í. Ég setti í enda hársins og bara frekar ójafnt eins og sést því þannig finnst mér liturinn gefa hárinu miklu meira líf.
Kemur skemmtilega út finnst ykkur ekki? Gaman líka fyrir mig sem þori ekki að lita hárið mitt í neinum svona flippuðum lit – þá er þetta svona eins dags flipp sem ég næ svo bara auðveldlega úr. Með þessa liti þá er auðvelt að festa þá vel í hárið með að spreya yfir þá með góðu hárspreyi. Það er bara um að gera að passa fötin. Ég var í svörtum bol þegar ég setti þennan lit í og dustaði bara af honum það litla sem fór á hann og það gekk virkilega vel, tók enga stund og enginn litur situr í.
Þetta verður litur sem ég mun svo sannarlega minna á fyrir hátíðir eins og Secret Soltice í sumar – sjáið þið það ekki fyrir ykkur!
Stundum finnst mér ég orðin smá gömul, alveg að verða 27 ára tveggja barna móðir, ókei ég veit ég er ekkert háöldruð en samt… En bleika hárið hjálpaði mér smá ég er sannarlega ekki í jafn mikilli aldurskrísu í augnablikinu ;)
Erna Hrund
Skrifa Innlegg