Ég er langmest beðin um að koma með ráðleggingar fyrir olíumikla húð – svo nú er loksins komið að því að birta þessa færslu sem er búin að vera í hausnum á mér alltof lengi. Ástæðan fyrir hikinu mínu er helst sú að ég er með þurra húð og hef því ekki mína eigin reynslu til að byggja á – einungis það sem ég hef heyrt, lært og lesið mér til um. Mér finnst alltaf langbest að byggja mínar færslur á minni eigin reynslu en stundum verður maður að hætta sér út fyrir þægindarammann og fara ótroðnar slóðir, nú er komið að því.
Í húð sem er með umfram olíuframleiðslu er olían oft merki óhreininda og ég hef áður sett inn video þar sem ég fer yfir nokkrar vörur frá Garnier sem ég mæli með fyrir erfiða húð sem er með óhreinindum.
Skiptum út óhreinum olíum fyrir góðar olíur
Ég las mér mikið til um olíur þegar ég skrifaði greinina um mátt þeirra fyrir Reykjavík Makeup Journal. Ég las sérstaklega mikið um það að máttur olíunnar nýttist vel fyrir konur með olíumikla húð. Konur sem eru með olíumikla húð eru með slæma og óhreina olíu í húðinni sem húðin framleiðir of mikið af – þessum olíum þarf að ná úr húðinni með því að hreinsa húðina vel og hjálpa henni að ná jafnvægi. Ein leiðin er að nota olíuhreinsi og hreinsivörur með olíu. Þetta fannst mér mjög áhugavert að lesa um en í stuttu máli snýst þetta um að skipta út óhreinum olíum fyrir hreinar og nærandi olíur. Mín húðhreinsun hefst á því að nota olíuhreinsi – það er ekki vegna þess að ég er með þurra húð – það er auka atriði – það er vegna þess að olían leysir upp erfið óhreinindi sem liggja á yfirborði húðarinnar eins og mengun en einnig leysir hún upp t.d. SPF varnir sem verja húðina okkar en við viljum kannski ekki að hlaðist upp á yfirborði húðarinnar. Svo ég byrja á því að nudda olíu yfir húðina, hreinsa hana með blautum þvottapoka og hreinsa svo húðina betur þá nota ég Clarionic hreinsiburstann. Fyrir seinni hreinsi myndi ég alltaf mæla með hreinsi sem freyðir fyrir olíumikla húð – t.d. gel hreinsar eða krem hreinsar. Þeir djúphreinsa húðina vel og olíumikil húð þolir þá vel og á hverjum degi á meðan þur húð þolir þá ekki á hverjum degi – alla vega ekki ég:). Hafið í huga að velja vörur sem eru t.d. með Salicylic Acid – það er efni sem vinnur á móti óhreinindum og það er oft ríkt af því í t.d. vörum eins og bólubönum.
Að sjálfsögðu er eflaust líka frábær leið að taka inn góðar olíur til að koma henni inn í líkamsstarfsemina.
Hreinsiburstarnir
Óhreinindi eins og olía liggja djúpt inní húðinni og það er erfitt að ná til þeirra og ná þeim alveg upp á yfirborð og fjarlægja. Hreinsiburstar eins og ég hef skrifað um t.d. Clarisonic (sem er ALVEG að koma í búðir) gætu komið að góðum notum við að hreinsa húðina vel og almennilega.
Skrúbbar sem hreinsa vel
Skrúbbar eru dásamleg leið til að losa sig við óvelkomin óhreinindi. Olíumikil húð þolir betur reglulega notkun skrúbba en það er þó gott að hafa á hreinu hvernig á að velja skrúbb sem hentar ykkar olíumiklu húð. Ef þið euð með þannig húð að hún einkennist af dýpri óhreindinum eins og fílapenslum og þannig blettum veljið þá grófan skrúbb. Skrúbb sem nær vel að nudda óhreinindin uppá yfirborð húðarinnar. Ef þið fáið hins vegar frekar óhreinindi sem eru eins og graftarbólur með óhreindindi sem geta smitast á önnur svæði húðarinnar veljið þá skrúbb sem er með fínum kornum sem minna helst á sand. Þeir skrúbbar ná að vinna vel á óhreinindunum án þess að erta bólurnar svo þær smitast ekki.
Ef ykkur langar að fara óhefðbundnar leiðir í vali á húðskrúbb þá eru til alls kyns flottar og spennandi uppskriftir á pinterest sem þið ættuð endilega að skoða.
Maskar
Það eru til alls konar flottir djúphreinsimaskar. Ég nota sjálf stöku sinnum djúphreinsimaska sem ég finn alveg að hreinsar og þurrkar vel húðina mína og nær burt djúpum óhreinindum. Ég nota þá sjaldan því ég vil ekki að húðin mín þorni enn meira en það eru þá maskar eins og leirmaskar t.d. frá Clarisonic sem ég nota. Samkvæmt internetinu er líka hægt að fá djúphreinsimaska hjá The Body Shop – en ég þekki ekki til þess nákvæmlega en endilega kíkið líka þangað. Þar eru líka til frábærar vörur fyrir olíumikla húð eins og Tea Tree vörurnar sem vinna gegn óhreinindum eins og olíu.
Látum förðunina endast
Eitt algengasta vandamál kvenna sem eru með olíumikla húð er að fá förðunina til að endast, þ.e. að húðin fari ekki að glansa mikið yfir daginn. Ég er síðasta manneskjan til að segja við konur með olíumikla húð að þær verði að nota púðurfarða eða annars konar farða sem gefur matta áferð. Mér finnst að ef grunnurinn er góður þá er hægt að nota flesta farða sem ykkur langar að nota. Að gera góðan grunn felst fyrst og fremst í því að nota góðar undirstöðu vörur. Ef þið eruð með olíumikla húð er nauðsynlegt að hreinsa húðina líka á morgnanna þar sem húðin skilar líka umfram olíu á yfirborð húðarinnar á nóttunni – munið þess vegna líka að skipta reglulega um koddaver! Þegar húðin er orðin tanduhrein notið þá ykkar næringu, serum, dagkrem og augnkrem t.d. passið að leyfa hverri vöru að þorna fyrir sig á húðinni til að fá sem mesta virkni úr þeim og leyfa þeim að gera sitt. Notið góðan primer eins og nýja Pore Minimizing primerinn frá Smashbox (hann er dásamlegur), hann fullkomnar yfirborð húðarinnar, hjálpar til við að auka endingu farðans sem þið setjið yfir og mér finnst primerar alltaf á sinn hátt (margir þeirra alla vega) mynda eins konar lag yfir húðinni sem nær að passa uppá það að undirstöðu snyrtivörurnar eins og kremið fær að sinna sínu hlutverki og veita langvarandi raka og farðinn fær að gera sitt, þ.e. að fegra yfirborð húðarinnar. Ef þið eruð síðan með ójafnt yfirborð t.d. eftir að hafa verið með erfiða húð á unglingsárum þá fullkomna primerarnir að sjálfsögðu yfirborð húðarinnar.
Fyrir olíumikla húð má ef til vill líka mæla með að nota lausan steinefna púðurfarða eins og frá bare Minerals sem eru lausir við t.d. olíur ef þið viljið ekki nota þær og þær matta yfirborð húðarinnar vel án þess að loka húðinni – húðin nær að anda vel sem er líka mikilvægt.
Ekki gleyma rakanum
Þó að þið séuð með olíumikla húð þá má alls ekki gleyma rakanum og að næra andlitið. Ef þið kjósið að velja krem sem innihalda ekki olíur þá er auðvitað fullt af úrvali af þeim þó ég voni að þið gefið olíu kremum mögulega séns – hrein olía í skiptum fyrir óhreina olíu – meikar það ekki sens :) Svo eru til létt rakakrem eins og Triple Active græna gelið frá L’Oreal sem er bara raki í gelformi, rosalega létt krem sem situr ekki eftir á yfirborði húðarinnar. Svo er græna kremið í Moisture Match línunni frá Garnier sem gefur húðinni matt yfirborð – rosa flott krem.
Passið að næra alltaf líkamann vel
Ef þið hafið ef til vill fengið lyf við olíumyndun hjá húðsjúkdómalækni þá einkennast þau mörg hver af því að þurrka – þá eru lyfin að þurrka upp olíuna en það er þó gott að hafa í huga að það þarf að passa uppá að halda húðinni í jafnvægi og að sé gott magn af raka í henni, besta ráðið við því er að drekka vatn og næra þannig líkamann vel.
Vörur
Þar sem ég hef ekki alveg persónulega reynslu á vörum sem eiga að draga úr olíumyndun í húðinni get ég bara mælt með vörum sem aðrir hafa talað vel um við mig. Vörurnar sem mér finnst alltaf sérstaklega talað vel um er Neutrogena – þar myndi ég mæla með appelsínugulu línunni þó svo sú bleika gæti líka reynst vel – ég nota kremhreinsinn úr þeirri línu fyrir mína þurru húð og hann er dásamlegur en það er líka annar hreinsir í þeirri línu sem hentar olíumikilli húð betur. Eins eru Tea Tree vörurnar frá The Body Shop flottar og henta líka okkur sem eru ekki endilega með olíumikla húð en fáum svona leiðindaóhreinindi eins og bólur uppá yfirborð húðarinnar.
Ef þú hefur eitthvað snilldarráð eða vöru fyrir olíumikla húð endilega deildu því með okkur hinum hér í athugasemdunum – allt er vel þegið og öllum ráðum tekið með opnum örmum!
EH
Skrifa Innlegg