Ég gerði eitt það skemmtilegasta sem ég hef á ævinni gert í gær – ég smellti mynd af mér á brjóstunum, póstaði henni á twitter og fylltist fáránlega miklu stolti þegar ég virti fyrir mér #freethenipple umræðuna á síðunni. Í dag er einn af þessum dögum þar sem ég elska það að vera Íslendingur, þó svo að landið okkar sé lítið og skrítið þá getum við myndað hér alveg stórkostlega samstöðu – þannig samstöðu að hormónafull ólétt kona fer smá að gráta.
Brjóstabyltingin á samfélagsmiðlum hófst í kjölfar þess að konur komu kynsystur sinni til varnar fyrir að birta mynd af sér á brjóstunum en varð í kjölfar fyrir áreitni og dónaskap frá strák. Ég verð að segja að mér finnst þessi stuðningur eitt það fallegasta sem ég hef orðið vitni að. Ég þoli ekki þegar fólk segir að konur séu konum verstar – við erum allar í sama liði og viljum standa vörð um okkar rétt og við viljum fá jafnrétti – í gær og í dag sjáum við það að konur eru sannarlega konum bestar og sameinaðar erum við sterkastar.
Um leið og ég sá hvað var í gangi fann ég að ég vildi vera með, ég hef berað brjóstin mín á kaffihúsum bæjarins en þau sáu mínum gullfallega syni fyrir fæðu fyrstu mánuði ævi hans – hugsið ykkur hvað það er magnað. Í dag eru geirvörturnar stærri en venjulega enda að undirbúa sig fyrir slíkt hið sama fyrir krílið í maganum – ég bera geirvörturnar stolt því þær eru ekki bara sjúklega flottar heldur eru þær alveg stórkostlegar og hlutverk þeirra er magnað!
Ég ákvað að taka mynd, mér finnst það þó engin skylda fyrir alla, það eru ekkert allir sem vilja það en stuðning má sýna með svo mörgu öðru en mynd, það má sýna hann með orðum og að sjálfsögðu með gjörðum.
#freethenipple
#áframjafnrétti
#fokkofbeldi
Við konur ættum ekki að þurfa að fela neitt fyrir neinum við erum allar fullkomnar eins og við erum!
EH
Skrifa Innlegg