fbpx

Dark Shades of Grey frá L’Oreal

FW2014Lífið MittlorealneglurNýjungar í SnyrtivöruheiminumNýtt í snyrtibuddunni minni

Vá hvað ég er búin að eiga ljúfa og rólega helgi – það var svo sem alveg kærkomið enda síðasta vika frekar svakaleg vinnulega séð svo ég hef nýja viku full af orku og tilhlökkun fyrir því sem framundan er.

Við fjölskyldan erum búin að eiga ljúfa helgi sem hefur einkennst af mikilli samveru sem er bara fullkomið. Við mættum í Smáralindina á laugardaginn, keyptum þónokkrar jólagjafir og hittum múmínálfinn og Tinni Snær varð alveg star stuck. Múmín vinur hans Tinna gaf honum hans fyrsta sleikjó og við ákváðum að leyfa honum að prófa seinna um daginn – ég hef aldrei séð son minn svona. Við Aðalsteinn vorum í kasti yfir syni okkar í sykursjokki. Í dag byrjuðum við svo daginn á því að fara á Bergson í brunch, rölta um bæinn (ég nældi mér í jólablað Bo Bedre – must have!) og svo fórum við heim og tókum því rólega. Ég tók fullt af nýjum myndum fyrir bloggið sem munu birtast í vikunni en mig langaði að deila þeim fyrstu með ykkur.

Ég er búin að fá dáldið af vörum úr jólalínum merkja sem verða fáanlegar hér á Íslandi t.d. Dior, MAC, Smashbox, OPI og Bobbi Brown sem ég hlakka til að deila með ykkur – já jólin mæta snemma á bloggið í ár. En áður en við förum í jólin verð ég eiginlega að klára haustið – svo nú er komið að haustinu í naglalökkunum frá L’Oreal.

Mér þykir mjög gaman að mini línunum í naglalökkunum frá L’Oreal en haustlínan er ein sú flottasta sem hefur komið hingað, hún og pastellína sumarsins. Haustlínan heitir Dark Shades of Grey og já ég held að líklega sé innblástur í nafnið, litina og fílinginn sóttur til myndarinnar sem verður frumsýnd í febrúar á næsta ári – ég tel það líklegt að þið fattið allar hvaða mynd það er :)

loreal_grey_kollektion

Línan inniheldur nokkur mismunandi lökk sem eru hvert öðru fallegra. Það sem er sérstakt við þau er áferðin á lökkunum en hvert lakk er með sérstakri áferð – mjög skemmtileg pæling.

Í gær var föndurdagur líka á heimilinu – hér fékk lítill listmálari að njóta sín og mamman er ekki alveg búin að ná restunum af málningunni af fingrunum sínum – ég vona að þið getið horft framhjá því. Ég sit núna með olíubaðaðar neglur og styrkingar til að reyna að laga það sem ég get :)

dsogloreal7

885 – Aux Chandelles

Ljósgrátt naglalakk með vax áferð. Þetta er annað af mínum uppáhalds lökkum úr þessari línu. Áferðin er alveg sjúklega flott og lakkið kemur svakalega vel út. Ég er með tvær umferðir hér eins og alltaf á mínu naglalakkamyndum nema annað sé tekið fram, hér hefði ég þó þurft kannski eina umferð í viðbót en þið hefðuð þó átt að sjá mun á 1. og 2. umferð það var alveg svart og hvítt! ;)

dsogloreal5

895 – Power Potion

Þetta er hitt uppáhalds lakkið mitt úr línunni – ég elska fallegu áferðina á þessu naglalakki og ég er búin að nota það mikið. Áferðin minnir mig helst á Satin áferðina hjá OPI en L’Oreal kallar hana Latex áferð. Mjög flott og þekjandi lakk sem hefur mikið notagildi :)

dsogloreal2

 890 – Masque Lover

Ég varð að sýna ykkur þetta lakk líka því það kom mér mest á óvart – þetta er með granite áferð. Þetta er þétt glimmerlakk sem er eiginlega svona silfur grænblátt á litinn og með litlum hvítum og svörtum doppum í. Doppurnar eru samt svo litlar að það er ekkert mál að ná þeim af þó það sama megi ekki segja um mörg önnur svona lökk ;) Þetta lakk er ábyggilega líka mjög flott yfir önnur dekkri til að gera litinn enn flottari.

Metallic lökkin eru líka mjög flott – þær myndir komu bara ekki nógu vel út sökum listmálarans unga í gær. En það eru alveg þétt glimmerlökk sem eru sjúklega flott ein og sér en ég hef líka sett þau yfir svarta lakkið úr línunni sem gefa litnum mjög töff áferð líka. Silfraða lakkið verður t.d. svona gun metal á litinn.

En ég vona innilega að ykkar helgi hafi verið jafn ljúf og mín – svona frí/kósý helgar eru einfaldlega bestar!

10644557_709621965790664_3687010776554224465_n

knús og kram frá mér, Tinna Snæ og múmínálfinum að sjálfsögðu :)

EH

Vörurnar sem ég skrifa um hér fékk ég sendar sem sýnishorn. Það hefur þó engin áhrif á álit mitt á vörunum og eins og alltaf veiti ég hreinskilið álit. 

Nýir eigendur BonBon ilmvatnsins!

Skrifa Innlegg