fbpx

Cherry In The Air

EscadaFallegtIlmir

Ég er ein af þeim sem býður spennt eftir vor- og sumarilminum frá Escada á hverju einasta ári frá því ég eignaðist minn fyrsta Escada ilm.

Sumarilmurinn kemur alltaf í takmörkuðu upplagi svo ef þið eruð eins og ég þá er um að gera að tryggja sér glas sem fyrst.

Merkið er þekkt fyrir að senda alltaf frá sér ávaxtakennd sumarilmvötn og eins og nafnið kemur til kynna einkennist þetta ilmvatnið af léttum kirsjuberja ilm.

Topptónarnir í ilminum eru svört kirsuber, safarík hindber og svo er keimur af mandarínum sem gefa sítrusagnan. Undirliggjandi tónar eru svo af gardeníublómum, kókosorkídeu, vanilli og svo er léttur sykurpúðatónn – nei því miður þá er ekki sniðugt að innbyrða þetta þó svo þið fáið garnagaul eins og ég við að lesa þessar lýsingar:) Lyktin er fersk, dásamleg og sumarleg.

Ég notaði áður fyr mikið bodyspreyin frá Victoria’s Secret en ég er komin með smá leið á þeim og vil eitthvað með aðeins meiri fyllingu til að fríska mig upp – ilmvötnin frá Escada og þá sérstaklega þessi nýji eru svarið við þeirri bón minni.

Það er teiknarinn Margot Mace sem hannar umbúðirnar að þessu sinni sem eru litglaðar og skemmtilegar í takt við ilminn og merkið. Ég er ein af þessum skrítnu sem geymi alltaf umbúðirnar sem koma utan um ilmvötnin og stilli þeim upp fyrir aftan því það er lögð svo mikil vinna í þær og það er sérstaklega mikil hugsun á bakvið þær því þær verða að sjálfsögðu að passa með ilminum og það er synd að henda allri þessari vinnu – að geyma umbúðirnar utan af ilmvötnum auðveldar líka flutninga á þeim, þau pakkast miklu betur!

Hér sjáið þið svo sjónvarpsauglýsinguna – það fyrsta sem ég hugsaði um var París þegar ég heyrði tónlistina. Mig dauðlangar aftur til borgarinnar og þá helst með þennan dýrindisilm á mér – núna ilma ég eins og sumarið sem er alveg að koma þó svo veðrið í dag beri ekki merki um það;) Með ilminn á mér læt ég mig dreyma um hjólaferðir um sveitir Frakklands og fara í lautarferðir undir kirsuberjatrjám.

Ilmurinn er fáanlegur í 30 og 50 ml glösum og svo er einnig til bodylotion.

EH

Betty eða Veronica?

Skrifa Innlegg