fbpx

Á allra vörum – Einelti er ógeð!

Lífið MittVarir

Síðustu ár hefur það verið fastur liður hjá mér að styðja við átakið Á Allra Vörum, mér finnst alltaf nauðsynlegt að styðja við mikilvæg málefni þegar ég hef tök á og mér finnst ekki síðra að styrkja svona frábært framtak hjá duglegum og kraftmiklum konum sem dömurnar á bakvið Á Allra Vörum hafa svo sannarlega sýnt okkur að þær séu.

Í ár er að sjálfsögðu hægt að styðja við málefnið með kaup á fallegum snyrtivörum fyrir varirnar og í ár eru það varalitur og varagloss frá merkinu Benecos. Ég og synirnir skelltum okkur í innkaupaleiðangur um daginn og Tinni valdi með mér þessa fallegu liti.

áallravörum2

 Árið 2015 – Barist fyrir bættum samskiptum meðal barna og unglinga. Erindi og Á allra vörum taka höndum saman og ætla að koma á laggirnar samskiptasetri fyrir þá sem glíma við einelti, foreldra og fjölskyldur þeirra. 

áallravörum3

Ég valdi varaparið í fallegum rósalit, varaliturinn heitir Pink Rose og glossinn heitir Rose. Á myndunum hef ég sett báðar vörurnar saman. Ég byrja á því að móta varirnar með varalitnum og varapensli, þek svo varirnar vel með litnum og set glossinn á miðja efri vör og miðja neðri vör. Þannig fær miðja varanna fallegan ljóma, þær draga að sér meiri athygli og þær verða þrýstnari. Svona skemmtileg leið til að nota báðar vörurnar saman. En svo njóta þær sín að sjálfsögðu líka mjög vel einar og sér.

Ég verð að segja að ég er sérstaklega hrifin af litnum á glossinum. Sanseringin er mjög falleg og mjúk og varirnar fá virkilega fallegan ljóma.

áallravörum

Sem móðir tengi ég mjög sterkt við átakið í ár, mér finnst ég reyndar alltaf ná að tengja við málefnin sem þessar flottu konur, þær Gróa, Elísabet og Guðný, beina spjótum sínum að. Þær velja málefnin af svo mikilli vandvirkni og leggja mikla vinnu í að rannsaka þau og finna sem bestu leiðirnar til að láta til sín taka og til að breyta þeim á betri veg og þær einhvern vegin hjálpa okkur að hjálpa þeim sem þurfa á hjálp að halda.

Sem foreldri get ég hvorki ímyndað mér það að barnið mitt gæti orðið fórnarlamb eineltis eða gerandi. Ég hef það að leiðarljósi í uppeldi strákanna minna að kenna þeim muninn á réttu og röngu, að kenna þeim það að það séu ekki allir eins, að kenna þeim það að vera góðir við alla í kringum sig og að bera virðingu fyrir öllum. Ég finn það nú strax þó Tinni sé bara rétt að skríða í 3 ára aldur hvað það er mikilvægt að eiga góð samskipti við hann og við fólkið í kringum hann, við fjölskyldur okkar Aðalsteins, við yndislega starfsfólkið á leiksskólanum hans Tinna – það skiptir máli að skilaboðin sem fara til hans varðandi samskipti hans við aðra séu rétt og að þau séu þau sömu frá okkur öllum.

Ég grét þegar ég sá auglýsingu Á Allra Vörum í fyrsta skipti, ég grét jafn sárt þegar ég sá hana í annað sinn, það þriðja, það fjórða, það fimmta og öll önnur skipti. Ég get ekki með neinu móti sett mig í spor móður afmælisdrengsins sem þarf að útskýra fyrir barninu sínu, manneskjnunni sem við mæðurnar elskum meira en allt annað í heiminum afhverju enginn kom í afmælið hans. Að hugsa sér að þetta sé aðeins ein af alltof mörgum birtingarmyndum eineltis finnst mér hryllingur, að hugsa sér að einelti geti banað saklausum einstaklingi er hryllingur en að taka ekki af skarið og standa upp á móti því, að taka ekki þátt í að fræða að betrumbæta og kenna betri siði og hegðun finnst mér jafnvel verra. Einelti er ógeð, í hvaða formi sem það er, gangvart hverjum sem það er það á ekki að líðast og ég skora á alla þá sem geta lagt sitt af mörkum að gera það.

Getum við tekið höndum saman öll sem eitt og sett það sem markmið að útrýma einelti. Ég hef trú á því að það sé hægt ef viljinn er fyrir hendi þá er allt hægt.

Á Allra Vörum er að vinna söfnunina með Erindi….

„Erindi eru samtök fagfólks á sviði uppeldis-, lýðheilsu- og menntunarfræða og hafa það hlutverk að miðla fræðslu og skapa almenna umræðu um málefni sem varða hag barna og ungmenna á öllum skólastigum. Markmið Erindis er að opna samskiptasetur þar sem aðstandendur í eineltismálum geta fengið ráðgjöf og þjónustu frá fagaðilum.“

Inná heimasíðunni erindi.is verður svo að finna fræðsluefni fyrir foreldra, börn og skóla og ég mun fylgjast spennt með framgangi mála og lesa mér til um hvernig ég get frætt barnið mitt betur.

Frábært framtak – áfram Á Allra Vörum og Erindi – niður með Einelti!

Inná heimasíðu Á Allra Vörum getið þið svo séð hvernig þið getið styrkt þetta flotta málefni, ein leið er að kaupa fallegan varalit og gloss eins og ég.

EH

Tryllt hönnun Thelmu og Bianco sigurvegari

Skrifa Innlegg