fbpx

3 leiðir til að móta augabrúnir

DiorMakeup ArtistSnyrtibuddan mínYSL

Þar sem það hefur aldrei verið jafn mikilvægt að vera með fallega mótaðar augabrúnir datt mér í hug að setja saman smá færslu þar sem ég sýni ykkur hvernig þið getið notað mismunandi augabrúnavörur til að móta ykkar brúnir. Sjálf móta ég mínar mjög sjaldan, alla vega ekki svona dags daglega en þegar tilefni er til dreg ég fram góðar mótunarvörur. Hér nota ég samt mínar uppáhalds tegundir af augabrúnavörum og ég vona að þið getið lært kannski smá af mér ;)

Náttúruleg þykking:

Þetta er leiðin sem ég nota langoftast til að móta augabrúnirnar mínar, leiðin sem ég nota dags daglega. Ég er með mjög þykkar augabrúnir og mér finnst gott að geta greitt vel úr hárunum og jafna þær þannig hárin liggi eins báðum megin.

brúnir

Varan sem ég notaði: Couture Brow augabrúnagel í litnum Glazed Brown frá YSL – Væntanlegt í verslanir innan skamms.

brúnir4

Hér er ég búin að renna augabrúnagelinu í gegnum brúnirnar. Ég byrja á því að greiða úr hárunum með burstanum – ég greiði hárin fyrst upp á við og svo til hliðar. Það sem mér finnst einn af helstu kostunum við svona gel er að augabrúnirnar haldast á sínum stað allan daginn – gelið sér til þess. Annar kostur er sá að með burstanum lita ég bara hárin sjálf ekki húðin í kring sem heldur augabrúnunum náttúrulegum. Hér greiði ég hárin svolítið þannig að þau verði í úfnari kantinum svona í stíl við Cöru Delevigne.

Skarpari umgjörð:

Þegar ég er svo að fara aðeins fínna og vil ná að ramma augun mín betur inn þá finnst mér gott að grípa í augabrúnablýant. Ég vil að blýantarnir séu með vaxkenndri áferð því þá er útkoman mun náttúrulegri og liturinn sjálfur er miklu þægilegri í notkun. Með blýantinum er auðvelt að móta augabrúnirnar fallega og bæta svona aðeins við þær. Sérstaklega ef þið veljið svona vaxkenndar formúlur þá getið þið liggur við teiknað ný hár inní augabrúnirnar ef það er það sem þið þurfið.

brúnir2

Vörurnar sem ég notaði: Diorshow Brow Styler augabrúnablýantur og Diorshow Brow Styler Gel báðar frá Dior.

brúnir5

Ég byrja á því að nota greiðuna á hinum enda blýantins til að teikna útlínur augabrúnanna, ég byrja að móta undir þeim og svo endana á þeim og fer svo loks í það að fylla inní þær. Þið getið auk þess mótað efri mörk þeirra en ég geri það sjaldan og dreifi frekar úr litnum sjálfum upp að efri mörkunum. Svo nota ég aftur greiðuna til að mýkja litinn upp, til að jafna áferð hans svo það sjáist engar línur. Í það getið þið líka notað fingurna og eyrnapinna og nuddað þá litinn til. Svo þegar ég er sátt með útkomuna þá nota ég augabrúnagelið til að móta hárin, í staðin fyrir að greiða þau svona aðeins upp eins og ég geri hérna fyrir ofan þá strýk ég þeim til hliðar til að minnka umfang augabrúnanna því mér finnst það kannski ekki alveg passa að hafa umgjörð þeirra svona skarpa og svo hárin úfin… ;)

Áferðafalleg þykking:

Svo er það þriðja leiðin en hér nota ég eina af mínum allra uppáhalds augabrúnavörum. Þessa mótin geri ég þegar ég er að fara extra fínt út eða vil hafa augabrúnirnar í aðalhlutverki sem ég vil nú oft. Mótunin sem ég sýni hér gerir augabrúnirnar sérstaklega fallegar þær fá mjúka umgjörð, verða þéttari og þykkari en samt alls ekki of hvassar. Maður verður nefninlega aðeins að passa sig að þær verði ekki of hvassar því þá getur ásýnd andlitsins orðið svona heldur grimmileg.

brúnir3

Vörurnar sem ég notaði: Dipbrow Pomade frá Anastasia Beverly Hills frá nola.is og skásettur eyelinerbursti frá Real Techniques.

brúnir6

Það þarf ótrúlega lítið af þessu flotta litaða geli til að móta augabrúnirnar. Ég set lit í burstann og strýk honum svo eftir handabakinu til að liturinn verði jafn í burstanum. Með léttum strokum byrja ég svo á því að móta umgjörð augabrúnanna, ég geri eins og fyrir ofan fyrst móta ég neðri mörk þeirra og svo endana og loks fylli ég inní þær með léttum strokum og fylgi eftir því hvernig hárin mín liggja. Þið sjáið að þó svo ég nái að þykkja augabrúnirnar vel þá eru þær samt með mjúku og náttúrulegu yfirbragði.

Þegar þið veljið ykkur lit á augabrúnavörum veljið þá vörur sem eru í takt við litinn á augabrúnunum ykkar eða hárlitinn. Oft finnst mér sjálfri gott að benda ljóshærðum konum á að velja hlýja liti en dökkhærðum konum að velja kalda liti. Sjálfri finnst mér alltaf fallegra að nota brúna tóna í augabrúnirnar því það verður alltaf náttúrulegra. Einn af helstu kostunum við þessa augabrúnatísku sem er í gangi núna er að það er frábært úrval af vörum hjá öllum merkjum og litaúrvalið er gríðarlegt en það er án efa einna best hjá Anastasia Beverly Hills sem þið fáið inná nola.is. Sjálf á ég stóru púðurlitapallettuna frá merkinu og það er ein sú allra besta palletta sem ég hef keypt mér og hún er ómissandi í kittið mitt!

Vona að þetta hjálpi ykkur og munið að það þarf ekki að móta augabrúnirnar alltaf eins – það er um að gera að prófa sig áfram og móta þær í takt við það sem ykkur finnst flott og auðvitað í takt við förðunina ykkar. Ef ykkur vantar aðstoð með ykkar augabrúnir þá auðvitað kastið á mig spurningum eins og þið viljið!

EH

Vörurnar sem ég skrifa um hér hef ég annað hvort keypt sjálf eða fengið sendar sem sýnishorn. Það hefur þó engin áhrif á álit mitt á vörunum og eins og alltaf veiti ég hreinskilið álit. 

Varalitadagbók #32

Skrifa Innlegg

Skilaboð 1

  1. Elísabet Gunnars

    19. August 2015

    Fallegt og falleg …