Það kom mér á óvart hversu fáir lesendur tilnefndu tegund af kremfarða þegar ég bað um þær vegna verðlaunanna sem ég stóð fyrir á síðunni núna um áramótin. Kremfarðar eru mjög skemmtilegir þar sem þeir eru svona mitt á milli þess að vera með púður og fljótandi farði. Að mínu mati eru þeir farðar sem gefa mestu þekju og hylja langbest kremfarðar. Það var einn kremfarði sem fékk eiginlega allar tilnefningarnar í verðlaununum en ég ákvað að það væri kominn tími til að fara aðeins yfir fleiri frábæra kremfarða sem eru fáanlegir hér á Íslandi.
Fyrstur á dagskrá er Studio Foundation farðinn frá Make Up Store. Fyrst langar mig að segja að hann er fáanlegur í ótrúlega mörgum litum. Mér finnst ótrúlega oft vanta uppá litaúrval hjá merkjunum hér á Íslandi en venjulega er það af því að það er bara of mikið fyrir merkin hér að taka inn mikið af litum svo nokkrir eru valdir út. Áferðin á farðanum er fáránlega þétt – eins og þið sjáið á myndunum hér fyrir neðan.
Hér sjáið þið hvernig farðinn lítur út hann er innst inní búðinni, hægra megin þegar þið labbið inní búðina hjá merkinu í Smáralind.
Hér er ég búin að bera farðann á vinstiri hlið andlitsins – ég er farin að hafa það að markmiði að sýna ykkur eins vel og ég get hvað nákvæmlega snyrtivörurnar eru að gera og hvað þær geta gert. Ef þið færið ykkur aðeins neðar á síðuna þá getið þið séð betur up close hver munurinn nákvæmlega er.
Ég tók líka aðeins betri nærmyndir til að sýna ykkur nákvæman mun.
Hér er ég með hreina húð…..
Hér er ég með farðann á hinni hlið andlitsins – þið sjáið strax kremuðu áferðina sem er komin á húðina. Húðin fær fallega birtu og ótrúlega þétta áferð og svakalega mikla þekju! Roðinn úr húðinni er algjörlega farinn þökk sé gula tóninum í farðanum. Áferð húðarinnar virðist mun sléttari og mýkri.
Hér sjáið þið svo förðunarlúkk sem ég gerði með farðanum yfir andlitinu. Ég þurfti ekki að nota neinn hyljara með farðanum. Hann er þannig gerður að ég get bara bætt ofan á þau svæði sem þarf aðeins að bæta á með því að doppa meiri farða t.d. í kringum augun. Svo setti ég bara púður á þau svæði sem ég vildi ekki að glönsuðu of mikið eins og T svæðið og í kringum augun.
Ef þið viljið farða sem hylur vel og gefur þétta áferð en samt mjög fallega þá er Studio farðinn frá Make Up Store eitthvað sem þið ættuð að kíkja á. Ef þið viljið fá léttari þekju þá getið þið notað rakan förðunarbursta til að létta aðeins á áferðinni.
Ég notaði Expert Face burstann frá Real Techniques til að bera farðann á. Hann gefur þessa fallegu þéttu áferð sem farðinn á að gefa á no time. Ég þarf svo endilega að muna að segja ykkur betur frá þessari förðun sem þið sjáið hér fyrir ofan – ég var að reyna að komast í smá vorskap.
EH
Skrifa Innlegg