fbpx

Nærandi & græðandi í kuldanum

Ég Mæli MeðHúðSnyrtivörur

Vörurnar sem ég fjalla um hér hef ég ýmist keypt sjálf eða fengið sendar sem sýnishorn. Ég skrifa alltaf um allar vörur af einlægni og vil að lesendur geti treyst mínum orðum. 

Flestar fyrirspurnir sem ég fæ t.d. í gegnum Snapchat snúa að húðumhirðu. Ég hef tekið eftir mjög áberandi mynstri núna en það virðast margir vera að finna fyrir þessum mikla kulda í húðinni sinni. Veðurbreytingar sjást alltaf mjög greinilega á húðinni en einkennin eru yfirleitt yfirborðsþurrkur, tap á ljóma, gulir og gráir undirtónar og húðin missir dáldið líf ef svo má segja. Þessi einkenni eru algjörlega óháð húðgerðum og lýsa sér eins á milli allra þó undirliggjandi einkenni séu alltaf til staðar. Ég tek meirað segja eftir þessu í húð barnanna minna og ég vil endilega koma að nokkrum ráðum varðandi börnin hér að neðan.

En auðvitað er best að halda húðinni í sem bestu jafnvægi. Við verðum að hreinsa húðina vel og halda okkur dáldið við okkar rútínu en það er gott að bæta inní rútínuna okkar nokkrum extra næringarríkum vörum. Svo á þessi mikli þurrkur auðvitað bara ekki við andlitið heldur líka líkamann, hendur og auðvitað varir. Ég held að varirnar mínar skilji sig ábyggilega 3-4 sinnum á dag!

Hér langar mig að ráðleggja nokkrar vörur inní rútínuna ykkar, þær henta allar öllum húðgerðum og öllum aldri. Hér fyrir neðan fer ég yfir vörurnar, hvernig ég nota þær og hvað þær geta gert fyrir ykkar húð…
nærandikrem1. Rich Nourishing Lip Balm frá Blue Lagoon – Hér er sama virkni og í næringarríku kremunum frá Blue Lagoon hér eru það þörungarnir sem næra varirnar, færa þeim fyllingu og nauðsynlegan raka. Ég elska þennan líka svo svakalega af því það kemur svo fallegur ljómi á varirnar. Það er eins og fallegt gloss, kemur í túbu og maður ber það bara á varirnar með fingrunum og maður finnur fyrir virkninni. Þörungarnir örva collagen framleiðslu húðarinnar svo varirnar fá líka mjög fallega fyllingu.

2. Baby Lips Dr. Rescue frá Maybelline – Þetta er uppáhalds ódýri varasalvinn minn, hér er menthol sem djúpnærir varirnar og maður finnur hvernig það virkar. Ég er alltaf með þennan á mér og ég sé hvernig varirnar mínar lagast og verða fallegri og fallegri með hverri notkun. Ég vel þennan græna því ég vil hafa hann litlausan en hann er líka til bleikur og nude litaður.

3. Eight Hour Cream frá Elizabeth Arden – þær eru allar dásamlegar vörurnar á þessum lista en ef einhver er búin töframætti þá er það þetta krem. Það er mjög drúgt og mikið í sér og það er ofboðslega græðandi. Þetta eru kremið sem ég nota líka á strákana mína. Tinni Snær fær mjög sáran þurrk í húðina og sérstaklega í kringum varirnar, hann verður alveg eldrauður og kvartar undan óþægindum. Ég ákvað að byrja á því að prófa þetta krem, setti það að kvöldi til á hann og þegar hann vaknaði morguninn eftir var allt horfið. Ég prófaði svo aftur núna á laugardaginn því hann var aftur svo slæmur og ég horfði á kremið hjálpa húðinni að gróa og jafna sig það var frekar magnað. Ég sjálf elska að nota þetta krem á varirnar það nærir svakalega vel og róar húðina. Ég nota það á allt andlitið þegar ég á slæman dag og hún batnar hið snarasta. Svo hef ég líka átt næturkrem í þessari týpu og það er yndi. Þessu kremi gef ég mín allra bestu meðmæli!

4. Turnaround Revitalizing Treatment Oil frá Clinique – Áferðafalleg og létt olía úr Turnaround línunni frá Clinique sem hefur það að markmiði að koma húðinni í jafnvægi, hún snýr bara öllu við! Olían er mjög létt og ég myndi halda að hún væri ein af þessum allra þynnstu svo hún hentar eflaust þeim best sem eru óvanar olíum og hún hentar því einnig best að mínu mati til daglegrar notkunar. Húðin fær mikla fyllingu að innan og virkilega góða næringu. Hér væri gott að taka bara góðan kúr í nokkrar vikur og nota hana á hverju kvöldi jafnvel bara þar til hún klárast og slaka svo aðeins á og taka aftur þegar ykkur finnst húðin þurfa.

5. Nutri Gold Extraordinary Night Cream Mask frá L’Oreal – Það er nú ekki langt síðan ég sagði ykkur fyrst frá þessum maska. Hér er fyrsti maskinn frá L’Oreal kominn í sölu á Íslandi en það er sko ekki algengt að fá góðan ódýran maska hér á landi og þessi virkar svo sannarlega. Nutri Gold línan frá L’Oreal er olíulínan, hér eru olíuagnir sem fara djúpt inní húðina og gefa svakalega raka, næringu og færa húðinni mikinn og fallegan ljóma. Þegar ég er með þennan á mér þá vakna ég endurnærð og húðin er silkimjúk – hún er mýkri en bossinn á Tuma því get ég lofað! Hann er fyrst settur í þunnu lagi á húðina og nuddaður vel saman við hana næst er svo þykkt lag borið á og látið vera á húðinni í 10-15 mínútur og þurrkað af með rökum þvottapoka og vá húðin verður bara vá! Mér líður svo vel þegar ég hef notað þennan og hann er orðinn einn af mínum uppáhalds rakamöskum.

6. Nutri Gold Extraordinary Oil frá L’Oreal – Hér sjáið þið fyrstu olíuna sem ég byrjaði að nota að staðaldri og þá sem kom þessu mikla olíu æði af stað hjá mér. Ég elsa hve drjúg olían er og hvað hún færir mér mikla glóð og mikla og góða næringu. Olían hefur mikla græðandi eiginleika og róar húðina og sefar, þau gefa ofboðslega mikla næringu og mér finnst dásamlegt að setja nóg af henni á andlitið fyrir nóttina eftir að ég hef þrifið húðina vel og nota í staðin fyrir næturkrem. Munið að passa alltaf að setja nóg á andlit og háls!

7. Rich Nourishing Cream frá Blue Lagoon – Eitt allra vinsælasta kremið frá Blue Lagoon og það er ekki af ástæðulausu sem það er lofað hástert. Hér eru nærandi þörungar sem næra húðina alveg svakalega vel. Kremið fer vel inní húðina og hver sem er getur notað þetta krem. Hér er það collagen sem eykur þéttleika húðarinnar, gefur henni mikla fyllingu og slétt yfirborð. Húðin fær mikilvægan raka og fallega áferð. Ég myndi þó ráðleggja alltaf enn drjúgari vöru með þessu jafnvel olíu en þetta krem heldur húðinni í góðu jafnvægi og svo gefið þið henni næringarbúst með góðri olíu inná milli. Kremið myndi ég nota á morgnanna og olíu og næturkrem á kvöldin. Í þessi er líka dásamlegi kísillinn frá lóninu sem styrkir húðina og gerir hana því sterkari fyrir eiginleikum sem koma henni úr jafnvægi eins og kuldinn á til!

8. Arctic Face Oil frá Skyn Iceland fæst á nola.is – Hér er 99% Camelina olía en þessi olía er að verða sannkallað trend í húðumhirðu heiminum get ég sagt ykkur en ég sá hana fyrst í þessari dásamlega léttu olíu sem fæst HÉR. Camelina olían er unnin úr þykkni plötnu sem ber sama nafn. Plantan lifir í mjög óstöðugu umhverfi sem einkennist af miklum veðurbreytingum en samt heldur hún sér fullkomlega alltaf. Eiginleikar þessarar plötnu hafa verið fangaðir í olíunni. Hér er á ferðinni alveg dásamleg olía sem er svo gott að nota og eins og L’Oreal olíuna þá finnst mér mjög gott að bera vel af henni yfir allt andlit og háls fyrir nóttina. Ég gæti vel gert það á hverju kvöldi en ég nota olíur kannski 2-3 í viku en alltaf á kvöldin.

9. Moisture Surge Extended Thirst Relief frá Clinique – Klassískt græðandi rakakrem fyrir þurra húð. Það er létt í sér og alveg dásamlega græðandi, það róar húðina og gefur henni létta kuldatilfinningu sem hjálpa henni að slaka á. Kremið gefur húðinni samstundis rakamikla fyllingu og áferðin er draumi líkust en svona þannig að þið verðið að prófa til að sjá og upplifa.

10. Many Many Mani Intensive Hand Lotion frá essie – Það má ekki gleyma neinum svæðum húðarinnar ekki gleyma höndunum. Þetta er minn uppáhalds handáburður sem ég er með á náttborðinu og hann nærir hendurnar yfir nóttina. Mig klæjar mjög mikið í hendurnar, þær eru svo ofboðslega sárar og þurrar í þessum svakalega mikla kulda. Ég gæti bara hreinlega ekki lifað án góðs handáburðar, þeir eru margir til en þetta er minn og því er hann hér.

11. Triple Active Sensitive Skin frá L’Oreal – Hér er aftur komið krem sem er mjög drjúg í sér og mjög róandi og sefandi og það inniheldur Camelina olíu, það er það sem einkennir það allra helst. Kremið er mjög græðandi og ég nota það á morgnanna þegar húðin mín er sem allra verst. Þó það sé mjög feitt og þétt í sér þá fer það vel inní húðina og liggur ekki á yfirborði hennar og smitast í farðann eða svoleiðis. Ég held það sé vegna þess hve olían er létt hún fer svo vel inní húðina og nærir hana svo vel. Þetta krem gefur mér mjög góða tilfinningu og heldur rakanum inní húðinni allan daginn, það er svakalega góð ending á honum. Mig grunar þó að vegna þess hve mikið smyrsl það er þá eru ekki allar ykkar sem munu þola að bera það á húðina ykkur mun kannski finnast það of feitt svo farið þá frekar í léttari áferð eins og með Clinique kremið.

Mikið vona ég að þetta hjálpi mögulega einhverjum og ég tek alltaf fagnandi á móti öllum fyrirspurnum og reyni að svara eftir bestu getu :)

Erna Hrund

Lag dagsins...

Skrifa Innlegg

9 Skilaboð

  1. Auður

    7. December 2015

    Gaman að fá þessa umfjöllun! Ég hef samt prófað svona 20 misdýr krem sem virðast ekkert gera fyrir kinnaþurrkinn minn. Það er eins og kremin fara ekki inn í húðina – nema eftir ég skrúbba en hef heyrt að maður eigi ekki að skrúbba of mikið. Haha, þetta er kannski skiljanlegt en ertu með einhver ráð – sérstakan skrúbb eða aðferð?

    • Reykjavík Fashion Journal

      8. December 2015

      Með skrúbba þá er einmitt mælt með því að vera ekki að nota þá of mikið því þeir geta rispað húðina… En mér finnst það þó helst fara eftir skrúbbum. T.d. eru Pink Grapefruit skrúbburinn frá Neutrogena mjög midur og ráðlagt að nota daglega. Svo eru mínir uppáhalds sem eru mjög svipaðir Top Secrets frá YSL og svarti skrúbburinn frá Helenu Rubinstein. Báði skrúbbarnir bráðna saman við húðina þannig þegar þú ert “búin” þá verður áferðin á húðinni olíukennd svo kornin leysast upp og því minni hætt að rispa húðina :)

  2. eglé

    7. December 2015

    en hvad krem mundirđu maela međ fyrir blandađa húđ,sem vön ađ slaemar þurku blettir i kuldanum

  3. Eyrún

    7. December 2015

    Hvar færðu þetta krem frá Elizabeth Arden? Og næturkremið frá Elizabeth Arden?

  4. Íris

    7. December 2015

    Hvar fæst þessi Nutri Gold Extraordinary Night Cream Mask frá L’Oreal?

      • Íris

        9. December 2015

        Takk :)