Kemur glæsilegt & glænýtt tölublað af Reykjavík Makeup Journal innum lúguna á öllum heimilum á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri. Fyrir ykkur sem búa annars staðar þá verður blaðið að sjálfsögðu aðgengilegt á netinu og ætti að vera hægt að fá það sent frá Hagkaup á meðan upplag leyfir.
Ég get ekki sagt ykkur hvað ég er glöð með að vera búin með þetta tölublað, þetta var mjög krefjandi og allt öðruvísi en þau síðustu þar sem ég vann blaðið alveg sjálf með aðstoð frá yndislegum grafískum hönnuðum sem luma á lausnum við öllu, snilldar yfirmanni sem þykir ég stundum tala alltof mikið og stórskemmtilegum ljósmyndara sem fær mig stundum til að engjast um af hlátri. Blaðið er ekki bara mitt í þetta sinn heldur er það líka jólagjafahandbók Hagkaupa og ég held ég geti með sanni sagt að í ár eru jólagjafavörurnar þær flottustu sem ég man eftir.
En verkefnið var virkilega krefjandi og þá sérstaklega þegar maður er með einn nokkurra vikna í fanginu. Ég er nefninlega ólíkt því sem margir aðrir halda, ekki í fæðingarorlofi. Við tókum þá ákvörðun að ég myndi taka mér 4 vikur í orlof og snúa svo aftur á vinnumarkaðinn en ég vinn sjálfstætt og því erfitt að detta út úr þeim heimi í langan tíma. Svo um leið og þessar 4 vikur voru liðnar hófst ég við að skrifa blaðið.
Í blaðinu munið þið finna hátíðarfarðanir og í þetta sinn ákvað ég að farða sjálf eins og þið sjáið hér fyrir neðan. Blaðið snýst þó mest um ilmvötn enda finnst mér þessi árstími tilvalinn til að finna sér nýjan ilm og uppgötva eitthvað skemmtilegt tengt honum því það koma svo margar svona auka vörur með ilmvötnum á þessum árstíma. Ég valdi því 10 merki bjóða uppá ilmvötn sem eru með flotta sögu sem ég heillast af, hannaði útlit í kringum hvert merki sem við tókum svo myndir af inní stúdíói og ég er svakalega ánægð með útkomuna!
En ég plataði hina gullfallegu Jóhönnu til að sitja fyrir í blaðinu og hér sjáið þið móður að störfum…
Ég held að þetta sé einhver allra skemmtilegasta mynd sem ég hef séð sem hann Binni ljósmyndari náði inní stúdíói. Glöggir sjá að barnið er bert en hann var hér búinn að kúka yfir sig allan í annað sinn og ég búin að senda mömmu heim að ná í ný föt. Svo hélt mamman að sjálfsögðu áfram að laga einhver smáatriði sem þurftu að vera fullkominn enda haldin þannig áráttu sérstalega tengd eyeliner…! En þessi dagur hefði sko aldrei gengið upp nema ef ég ætti dásamlegt barn sem er svo ljúft og gott og mömmu sem stökk til þegar smá var eftir til að kúra með Tumaling í fanginu svo mamman gæti rúllað deginum upp.
Svona hlutir ganga sko ekki upp nema með aðstoð góðs fólks og ég vona að þið munið taka blaðinu opnum örmum þegar það kemur – þið sem eruð með „engan fjölpóst“ límmiða rífið hann af svo þið missið nú ekki af blaðinu ;)
Ég get ekki sagt það nógu oft en ef ykkur langar að gera eitthvað – gerið það þá! Fyrir tveimur árum síðan kom út hátíðarblað Reykjavík Makeup Journal á netinu, aldrei hefði mér þá órað fyrir að tveimur árum seinna myndi blaðið koma út á prenti, hvað þá í mörgum tugum þúsundum eintaka og hvað þá að því yrði dreift FRÍTT inná öll heimili á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri. En með viljann að verki, óbilandi trú á sjálfri mér og mjög góðri og dýrmætri hjálp og frábæru fólki þá gengur þetta upp!
Draumar eru gerðir til að rætast****
Erna Hrund
Skrifa Innlegg