fbpx

RFF spurt&svarað: Fríða María

Blue LagoonFashionMACMakeup Artist

Þá er komið að hinum förðunar listamanninum fyrir RFF að sitja fyrir svörum – hér er á ferðinni sannkallaður listamaður sem er ein af þeim bestu og vinsælustu í förðunarbransanum á Íslandi.

Fríða María ásamt Guðbjörgu Huldísi hannar farðanir fyrir MAC fyrir tískuhátíðina RFF og stjórnar teymi af förðunarfræðingum frá merkinu baksviðs. Hún er með áralanga reynslu úr þessum heimi og hefur farðað fyrir óteljandi auglýsingar, myndaþætti og tilefni. Eitt af þeim eftirminnilegustu andartökum frá okkar vináttu er þegar hún farðaði mig fyrir N1 auglýsingu í stúdíóinu hjá Ara Magg á Hverfisgötu og þurfti í miðjum klíðum að hlaupa yfir götuna í Þjóðmenningarhúsið til að farða einhvern hátt settan pólitíkus fyrir sjónvarpsútsendingu í miðju hruninu. Það er ótrúlegt hvað þetta starf bíður manni uppá og þessi dama veldur sko öllum verkefnum og tekst á við þau af miklu jafnaðargeði og gleði. Það er svo gaman að fylgjast með Fríðu Maríu vinna – hún er iðulega brosandi, hlæjandi eða að segja skemmtilegar sögur. Nærvera hennar er svo þægileg og góð – þessi er einstök á allan hátt og ég hlakka til að fylgjast með þeim Fríðu og Guðbjörgu um helgina og leyfa þeim að dáleiða mig með sínum einstöku förðunartöktum!

En nú er nóg komið frá mér ég gef Fríðu Maríu orðið….

fríðam Við vinkonurnar á kynningu hjá Blue Lagoon í vetur – Fríða María er einhver sú yndislegasta kona sem ég hef kynnst um ævina – þessi er alltaf til í gott spjall yfir kaffibolla og að deila fróðleik sínum með öðrum.

Hvernig leggst RFF í þig þetta árið?

Bara virkilega vel, hátíðin er alltaf að verða betur skipulögð, úrvalið er spennandi og áhugavert og ég er viss um að þetta verða flottar sýningar.

Hvaða hönnuði sérð þú um?

Ég sé um JÖR by Guðmundur Jörundsson, Scintilla og Eyland. Allt frábærir hönnuðir en afar ólíkir sem gerir starfið mitt sérlega spennandi.

fríðam3

Ein umtalaðasta förðun síðasta árs var förðunin sem Fríða María hannaði fyrir JÖR – það verður gaman að sjá lúkk ársins!

Hvernig verður förðunin fyrir sýningarnar til, hverju þarf að huga að fyrir hvert merki?

Fyrst hitti ég hönnuðina, hvern fyrir sig auðvitað, á fundi og þar förum við yfir línuna, hver stemningin er í hönnuninni, áhrifavaldar og slíkt, við skoðum teikningar af fötunum, efnisbúta og teikningar af mynstrum, stíliseringu og annað sem viðkemur fatnaðinum. Svo ræðum við líka um umgjörðina, sviðið, tónlistina, ljósin og slíkt, því þetta skiptir allt máli þegar kemur að hönnuninni, heildarmyndin verður að vera sterk. Þá ligg ég líka yfir sýningum úti í heimi til að fá svolitla tilfinningu fyrir því hvað liggur í loftinu fyrir næsta vetur. Sum trendin eru að verða þreytt og það er mikilvægt að fá aðeins tilfinningu fyrir því, þar sem maður er að búa til eitthvað sem þarf að vera ferskt og spennandi næsta vetur. Ég nota Pinterest mikið til að búa til svokallað „moodboard“ sem ég deili með hönnuðinum á lokuðu borði sem við ein og hárhönnuðurinn höfum aðgang að. Þar geta þau líka hent inn hugmyndum og þegar einhverjar hugmyndir fara að kvikna gerum við prufuförðun. Oft verða meiri vangaveltur eftir það og jafnvel gerð önnur prufuförðun. Þetta er heljarinnar ferli, en mjög skemmtilegt og gefandi.

Tvær af förðununum sem Fríða María hannaði fyrir RFF í fyrra – önnur er fyrir Farmers Market og hin fyrir JÖR.

Hver var innblásturinn fyrir lúkkin?

Það er mjög mismunandi milli hönnuða. Sumir gefa sér kannski einhvern karakter úr sögunni sem setur svolítið línuna, kannski er eitthvað tímabil í sögunni, eða jafnvel blanda af tveimur tímabilum, sem setja mark sitt á hönnunina en það er líka mikilvægt að fara ekki í einhverja periodu í lookinu, þetta verður að vera ferskt og nútímalegt, en við finnum kannski áhrif frá einhverju úr tískusögunni. Svo getur það verið t.d. tónlistin sem spilar stóra rullu og hefur jafnvel ósjálfrátt áhrif á allt hitt. Þetta getur verið svo ótalmargt, en auðvitað má ég ekkert segja varðandi hvert look fyrr en sýningarnar eru búnar.

Hvaða 5 vörur frá MAC eru ómissandi í kittið þitt fyrir RFF?

RFFFRÍÐAMARÍA2

1. Extended Play Lash maskari – hann er léttur og þægilegur, molnar ekki og auðvelt að þrífa hann af. Þetta er uppáhaldsmaskarinn minn, fyrir sjálfa mig og á aðra.

2. Fresh Brew varaliturinn – ég nota hann bæði á varir sem brúntóna nude varalit en líka til að skyggja undir kinnbein þegar ég vil hafa gljáa í áferðinni og ekki of dökkan tón.

3. Augabrúnablýantarnir Fling og Lingering – ég er ekki mikið fyrir að dekkja augabrúnir, finnst það sjaldan náttúrulegt en oft virkar vel að móta brúnirnar, fylla inní þær eða gera stærri og villtari með þessum ljósu tónum sem eru líka svo þægilegir í notkun.

4. Pro Longwear Paintpot Groundwork – er kremaður augnskuggi sem þornar, liturinn er millibrúnn og hentar um það bil öllum, ég nota hann bæði á augu, einan og sér eða sem grunn undir aðra augnskugga, en líka til að skyggja undir kinnbein (allavega fyrir tískusýningar).

5. Face and Body foundation – léttur farði sem hentar nánast öllum, áferðin er mjög náttúruleg, eðlilegur gljái og hægt að byggja upp dálitla þekju sé það nauðsynlegt. Fyrir sýningar þurfum við líka oft að setja farða á fótleggi og handabök og þá er þetta hinn fullkomni farði, hann er svo eðlilegur að sjá en smitar líka minna í föt en annar farði.

Hvað tekur svo við eftir RFF?

Það verður nú engin slökun eftir RFF. Sem betur fer er auglýsingarbransinn á góðu róli þessa dagana, og það eru nokkur svoleiðis verkefni sem bíða mín, auk áhugaverðrar tískuljósmyndatöku, og svo er ákveðið leyniverkefni sem ég er að fara að vinna að og er mjög spennt fyrir. Nóg framundan semsagt.

BL_Lavascrub_Glamour_spread_OK

Eitt af nýjustu verkum Fríðu Maríu er myndataka fyrir nýjungina frá Blue Lagoon en við vinkonurnar eigum það sameiginlegt að vera miklir aðdáendur merkisins.

Hvernig dekrar þú við húðina þína eftir langa vinnutörn?

Ég er yfirleitt mjög dugleg að dekra við við húðina mína, en einmitt þegar mikið er að gera gefur maður sér oft minni tíma í það, því miður, en þá er einmitt gott að taka góða törn þegar um hægir. Ég er búin að nota Blue Lagoon vörurnar í dágóðan tíma, nota kvölds og morgna Rich Nourishing kremið og Anti-aging Eye kremið ásamt Anti-aging Day serum og auðvitað hinn dásamlega nýja Rich Nourishing varasalva, en hjá Blue Lagoon kennir ýmissa grasa þegar kemur að húðdekri. Þegar húðin er þreytt þá tek ég allan pakkann, ég nota Mineral Face Exfoliator í sturtunni, svo nota ég Silica Mud maskann, þennan hvíta, hann hreinsar og styrkir húðina, eftir það nota ég svo Algae maskann, þennan græna, en hann er rakabomba og gefur húðinn endurnýjað líf, ef svo má segja. Hann er aljört dúndur.

bláalónið6 (1) Fríða María að störfum fyrir Blue Lagoon herferðina frá síðasta ári.

Hvaða förðunartrend sérð þú fyrir þér að verði áberandi í vor?

Áherslan er á heilbrigða og fallega húð, það er ákveðinn minimalismi, áhrif frá seinni hluta tíunda áratugarins. Villtar, sterkar og þykkar augabrúnir haldast enn inni en þær detta út með haustinu ásamt litríkum varalitum, þeir verða vinsælir í sumar en meira verður um nude varir næsta vetur. Þá eru enn inni allskonar eyelinerar, minna samt um „sexy wing“ linera, en meira um nineties mínimalískar línur. Ákveðinn einfaldleiki og ferskleiki semsagt. Svo er líka gaman að finna fyrir seventies áhrifunum sem eru aldeilis að detta inn.

Geturðu deilt góðu förðunarleyndarmáli sem hefur nýst þér vel með lesendum að lokum.

Að bera á farða eftir að maður er nýbúinn að nudda góðu rakakremi vel inní húðina gefur yfirleitt fallegustu áferðina, og forðist púður nema nauðsyn krefji, og notið þá litlaust, laust púður, eins og Prep + Prime frá MAC, með mjúkum bursta, ekki of stórum, létt á ennið, kringum nef og á höku. Stundum þarf púður undir augu til að festa, notið þá sömu týpuna og enn minni og mjúkan bursta og reynið að hafa magnið sem allra minnst því púður getur ýkt hrukkur, og það viljum við sjaldnast. Athugið að mikilvægt er að sinna húðinni vel svo förðunin komi vel út. Ef þú er með yfirborðsþurrk og jafnvel líka fitumyndun í húðinni er gott að nota Exfoliator reglulega og sé húðin sérlega þurr, sem er mjög algengt á þessum árstíma, þá er mjög gott að nota reglulega rakamaska eða einhvern nærandi maska, eins og Algae maskann frá Bláa Lóninu. Skoðið alltaf háls og bringu þegar þið veljið ykkur farða og svo finnst mér best að bera hyljara og baugafelara á eftir að farðinn er kominn á.

Takk fyrir “spjallið” Fríða mín! Hlakka til að sjá þig og Guðbjörgu í essinu ykkar á föstudaginn***

Framundan í RFF upphituninni eru svo spurningar sem ég lagði fyrir MAC dömur með mikla reynslu bæði frá RFF og tískuvikum erlendis – er mjög spennt að heyra hvað þær hafa að segja um hátíðina og undirbúninginn svo verðum við að sjálfsögðu að rifja aðeins upp það sem gerðist baksviðs á RFF fyrir núna ári síðan – úff hvað tíminn er fljótur að líða!

EH

Spennandi nýjung frá Blue Lagoon!

Skrifa Innlegg