fbpx

Elskum okkur sjálf

Lífið MittUncategorized

Mikið hefur verið rætt um útlitsdýrkun á alls konar miðlum. Þessi umræða greip að sjálfsögðu athygli mína enda finnst mér útlitsdýrkun alltof áberandi í samfélaginu okkar. Ég er fyrst til að viðurkenna að ég var haldin mikilli útlitsdýrkun og það er ekki langt síðan ég fattaði það og óx uppúr henni. Ég stundaði nám í skóla þar sem útlitsdýrkun var áberandi, álagið sem ég fann fyrir og kröfurnar um að vera alltaf fullkomin voru gríðarlegar – þannig túlkaði ég það alla vega og ég held að ég hafi bara ekki verið nógu sterkur karakter eða nógu örugg með sjálfa mig til að fatta að að ég þyrfti ekki að standast þessar kröfur. Ég vil nú samt ekki fullyrða að það hafi verið skólans vegna sem ég hafi fallið svona í útlitsdýrkunina ég held það hafi meira verið bara af því ég var ekki nógu örugg með hver ég sjálf var og hvernig ég vildi verða. Ég held það sé mjög auðvelt að falla í þessa dýrkun og það kemur fyrir besta fólk og í hvaða skóla sem er. Ég hef oft nefnt nokkur dæmi um hversu svakalega illa ég var haldin þessari útlitsdýrkun en hér eru nokkur þeirra aftur…

  • Sjálfsmyndir – ég veit ekki hversu margar sjálfsmyndir ég á af sjálfri mér frá þessum tíma og þá átti ég sko engan síma þar sem var auðvelt að taka sjálfsmyndir.
  • Ögrandi klæðnaður – mér fannst ég alltaf verða að ögra með klæðnaði sérstaklega á böllum og í partýum, örstuttir kjólar og pils og engar sokkabuxur, þannig voru iðulega dressin mín og það er eiginlega ekki skrítið að ég hafi alltaf verið veik.
  • Fatadagbókin – þið hafið eflaust mörg hver heyrt um fatadagbókina sem ég hélt en það á síðasta árinu mínu í menntaskóla sem ég var með til þess að passa uppá að ég myndi örugglega ekki fara í sömu fatasamsetningum í skólann það ÁRIÐ.
  • Förðunarvöruóð – ég fór alltaf máluð í skólann og þegar hátíðleg tilefni vöru var ég alltaf með svakalega ýkt augnhár og plastneglur. Þegar ég var á fyrsta árinu mínu í versló var ég mjög meðvituð um að ég væri með svört hár. Ég tók því iðulega uppá því þegar ég var í þannig fatnaði að meika undir hendurnar á mér svo það sæist örugglega ekki dökka áferðin í húðinni þó svo það væru engin hár.
  • Það eru mörg fleiri dæmi, dæmi sem ég er til dæmis ekki heldur tilbúin að að gangast við að ég hafi gert – skömmin er það mikil.

Ég hef stundum hugsað útí það afhverju ég var svona háð útlitinu mínu, hvaðan þessar kröfu sem mér fannst ég finna fyrir hafa verið að koma frá. Auðvitað spila áhrifavaldar þar inní sem er í mörgum tilfellum Hollywood stjörnurnar og glanstímaritin en eftir að hafa mikið hugsað um þetta sjálf þá hef ég meira og meira hugsað um það hvort að við sjálfar séum ekki að gera óhóflegar kröfur til okkar sjálfra og kvennanna í kringum okkur. Nú tala ég bara sem kona og til annarra kvenna en ég er þó viss um að þeta eigi líka við hjá strákum ég þekki það bara ekki nógu vel. Kannski er þó samt fáránlegt að segja að maður sé ekki háður útlitinu í heiminum sem við lifum í. Ég viðurkenni það alveg að mér finnst gaman að hafa mig til og farða mig, klæða mig í falleg föt en ég ákvað líka að gera það fyrir sjálfa mig ekki fyrir neinn annan. Ég vel fötin mín útfrá því sem mér finnst flott og þó svo einhverjum öðrum finnist það líka flott þá er það bara í góðu lagi, það sama á við um trend í fötum og förðun. Það mikilvæga er að tapa aldrei sjálfum sér í trendum – að ná að skilja þetta tvennt að.

Ég held að við munum aldrei geta uppfyllt kröfurnar sem við heyrum útundan okkur, kröfurnar sem við upplifum að aðrir setji á okkur með neikvæðum athugasemdum. Besta ákvörðun sem ég hef tekið við að díla við neikvæðar athugasemdir er að taka á móti þeim og svara þeim með hrósi. Þegar ég uppgötvaði það mér til skelfingar að ég væri mögulega í þeim hópi að vera alltaf að rakka aðra niður hvort sem það væri útlitstengt eða vegna öfundar þá skammaðist ég mín mikið. Ég fór í mikla sjálfskoðun og fann það strax að svona vildi ég ekki vera og ég hef engan áhuga á að verða þannig aftur nokkur tíman. Ég sá líka þá hvað við erum svakalega gagnrýnar margar og það er mjög neikvæður eiginleiki – við hrósum sjaldan. Ég finn það líka á síðunni minni – ég fæ sjaldan hrós en ég fæ mikla gagnrýni. Kannski á ég gagnrýnina skilið, kannski ekki en ég reyni þó alltaf að taka vel á móti henni. Í staðin fyrir þennan neikvæða eiginleika sem ég hef nú losað mig við hef ég tileinkað mér það að hrósa, ég nota hvert tækifæri til að hrósa fólkinu mínu, fólkinu í kringum mig. Vitiði það að ég finn að mér líður svo mikið betur líka eftir að ég losaði mig við neikvæðni og tók fagnandi við jákvæðninni. Jákvæða ég lætur þó yfirleitt ekki sjá sig fyr en eftir fyrsta kaffibolla dagsins en það kemur nú fyrir á bestu bæjum.

Þegar ég hugsa til baka vildi ég óska þess að ég hefði getað uppgötvað þetta fyr, ég hefði mögulega geta haft einhver áhrif með því að hrósa í staðin fyrir að tala niður til fólks. En ég get þó huggað mig við það að ég get vonandi haft góð áhrif héðan í frá.

Ég hef bæði fengið athugasemdir og heyrt útundan mér að ég sé ekki jafn góð fyrirmynd og áður að ég sé ekki jafn mikið að sporna við útlitsdýrkun eins og áður. Sannleikurinn er sá að gildi mín hafa ekkert breyst – ég er alveg sömu skoðunar og ég var áður. Mögulega er útskýringin sú að ég er bara orðin ónæmar fyrir áhrifavöldum og sé hlutina ekki eins og áður. Ég er öruggari með mig, mitt útlit og mér líður miklu betur.

Mikið af þessari vellíðun er ykkur að þakka – því hversu vel þið tókuð í það þegar ég birti myndirnar af slitförun mínum og sagði frá þunglyndinu og vanlíðaninu. Kraftinn sem ég fékk frá ykkar stuðning get ég ekki líst – hann var og er mér ómetanlegur og stundum þegar ég á slæman dag fer ég tilbaka í huganum og rifja upp þessa jákvæðu strauma og orku sem orð svo margra ykkar gáfur mér. Þessa vellíðun get ég líka þakkað sjálfri mér fyrir og þeirri sjálfskoðun sem ég fór í, vitið þið að það tekur ótrúlega mikið á að vera neikvæður þó svo það sé ekkert eitthvað sem einkennir mann. Neikvæðnin leggst bara yfir mann, hún smitar útfrá sér til annarra og hún gerir lítið gott.

Þegar ég birti færsluna mína um slitförin lagði ég áskorun fyrir sjálfa mig og ykkur um að hætta að horfa á sjálfa mig í speglinum með gagnrýnum augum – ég get með sanni sagt að ég stóðst þá áskorun og ég vil aldrei breyta því. Þegar ég horfi á sjálfa mig í speglinum sé ég mig – einstöku mig – að fatta það hvað ég er einstök svona í alvörunni er það besta sem hefur komið fyrir mig – ég lærði að elska sjálfa mig. Nú vil ég endurtaka þessa áskorun og skora aftur á ykkur að gera slíkt hið sama.

Það sem mér fannst líka mikilvægt var að sonur minn myndi aldrei sjá mömmu sína gagnrýna sjálfa sig og læra að það væri eðlilegt – nú get ég fagnað því að ég þarf aldrei að hafa áhyggjur af því.

Verum jákvæð, hrósum og elskum okkur sjálf!

Með ást og kærleika,

EH

Bob Noon & heimsókn í Snúruna

Skrifa Innlegg

16 Skilaboð

  1. Berglind

    27. October 2014

    Frábær færsla hjá þér Erna, er svo sammála og það er sorglegt hvað útlitsdýrkun er mikil á Íslandinu litla og auðvitað líka í öllum heiminum. Ég bjó í ár úti í BNA og eftir nokkra mánuði tók ég eftir því hvað ég var miklu minna upptekin af útlitinu, fann ekki fyrir þessari pressu. Svo þegar ég kom heim fann ég aftur fyrir mikilli pressu að vera alltaf fín og sæt, þorði varla að fara í gamalli hettupeysu í Kringluna. Það er eins og þegar við búum í svona litlu samfélagi að það sé auðveldara að vera “húkt” á þessu. Auðvitað geta tísku- og útlitsblogg ýtt undir útlitsdýrkun en mér finnst þitt blogg ekki gera það, þitt blogg er raunverulegt og þú ert alltaf þú sjálf, maður sér að þú ert ekki að reyna að búa til “glansmynd” af þínu lífi. Persónulega finnst mér ótrúlega gaman að lesa tískublogg því ég hef mikinn áhuga, ekki af því að ég er með útlitsdýrkun á háu stigi.

    • Reykjavík Fashion Journal

      27. October 2014

      Takk kærlega fyrir falleg orð kæra Berglind. En veistu það eru einmitt margir sem segja það sama og þú að um leið og umhverfið er annað þá breytast áherslurnar. Kannski er þetta af því að við búum á svo litlu landi og þá fer meira fyrir svona – ég veit það ekki. Ég trúi því alla vega að með því að vera jákvæðar og að hrósa öðrum í kringum okkur verðum við allar/öll bara sterkari fyrir vikið og lífið verður svo miklu skemmtilegra :***

  2. Erla

    27. October 2014

    Eitt af þvi sem veldur þvi að eg les alltaf bloggið þitt er hvað þu talar alltaf fallega um annað fólk og ert dugleg að hrósa. Það er svo mikilvægt og lætur manni sjálfum og þeim sem eru i kringum mann liða vel!

  3. Sunna

    27. October 2014

    Það er fátt sem lætur manni líða jafnvel og að hrósa og þú ert rosalega dugleg við það og frábær fyrirmynd!
    Ein hugmynd, hvernig væri að sýna bloggsystur ykkar Helgu Gabríelu stuðning í verki og taka afstöðu með henni, og skrifa pistil um umfjöllun Mörtu Maríu varðandi hana, það væri svo flott því að bloggið ykkar trendnet.is er svo áhrifaríkt og sterkur miðill hjá ungum stúlkum…

    • Reykjavík Fashion Journal

      27. October 2014

      Já þetta var svona mín leið til að reyna að koma því á framfæri hvernig við gætum lagað það að ungum stúlkum fyndist þær knúnar til að gera svona. Ég get ekki annað en þakkað fyrir að hafa ekki verið með svona forrit á mínum unglingsárum því þá hefði ég ábyggilega fallist í freystni ábyggilega án þess að gera mér grein fyrir því afhverju ég gerði það. Helga Gabríela er yndisleg stelpa sem á fullan stuðning hjá mér í þessu. Hún er líka ótrúlega sterk og er búin að sýna það að hún getur vel staðið uppúr þessu og mun bara verða sterkari fyrir vikið:)

  4. Þórdís

    27. October 2014

    Takk fyrir frábæran pistil Erna! :)
    Fnnst æðislegt að lesa bloggið þitt þar sem mér finnst þú svo hlý, þó svo ég hafi ekki hitt en þá hef ég fylgst með blogginu þínu núna í rúmt ár og finnst alltaf jafn gaman að lesa það sem þú skrifar :)

    Takk fyrir frábært blogg og vera svona flott og sterk fyrirmynd :)

  5. Andrea

    27. October 2014

    Flotta kona <3
    Það að vera heiðarlegur og sjálfum sér samkvæmur er einn besti kostur í fari fólks.
    Að fylgja alltaf eigin sannfæringu – tala ekki illa um aðra og vera almennt bjartsýnn og jákvæður út í lífið gerir okkur að mikklu hamingjusamari einstaklingum.
    Þannig ert einmitt þú Erna og fl sem ég þekki hérna á Trendneti og einmitt þessvegna les ég bloggin ykkar vegna þess að það er alltaf heiðarlegt, einlægt og jákvætt.
    Ég sogast að svona fólki eins og þér og vel að umgangast svona fólk af því að mér líður vel með því :)
    Þetta er svo einfalt og bara spurning um val :)
    Love
    A

    • Reykjavík Fashion Journal

      27. October 2014

      Takk fyrir dásamleg orð elsku vinkona :* Öll þín orð eiga líka við um þig flotta, sterka kona! Hlakka til að hitta þig sem fyrst þú og fallega búðin eigið ennþá inni hjá mér afmælisknús <3 <3

  6. Kristín Pétursdóttir

    27. October 2014

    Flottur pistill hjá þér Erna mín! Þessi útlitsdýrkunar vísa er aldrei of oft kveðin að mínu mati. Knús <3

  7. Ásta María

    27. October 2014

    Núna verð ég svo leið yfir því að hafa aldrei kommentað hjá þér því ég hugsa alltaf eitthvað jákvætt til þin þegar ég er að lesa! Heiðarleg, einlæg, hlý, vel skrifandi og umfram allt þú sjálf. Það skín alveg í gegn í því sem þú birtir hér!

    Takk fyrir alla góðu pistlana, ráðin, persónulegu tjáninguna og peppið!! Hér með ætla ég að vera duglegri að hrósa fólkinu í kringum mig :)

  8. Inga Rós Gunnarsdóttir

    27. October 2014

    Til hamingju með afmælið! Veistu ég hefði getað skrifað þennan pistil sjálf, var alveg með útlitið á heilanum á tímabili en sem betur fer er ég alltaf að nálgast það meira og meira að sættast við sjálfa mig. Takk fyrir frábært blogg og haltu áfram að hrósa :)

  9. Hildur Sif

    28. October 2014

    Finnst þetta frábær pistill hjá þér! Ég er alltaf að reyna að tileinka mér nákvæmlega þessa hugsun, þó er ég enn ekki orðin nógu dugleg að bara hrósa sjálfri mér.
    Í mínum augum ertu fyrirmynd, þú ert svo heilsteypt og heilbrigð í hugsun og gjörðum. Alveg elska að lesa þetta blogg hjá þér og kíki á hverjum degi :)