Ég held það sé kominn tími til að kjafta almennilega frá leyndarmálinu hér á blogginu – alveg löngu kominn tími til þó svo margar ykkar séuð auðvitað búnar að reka augun í nokkrar myndir sem ég hef deilt á Instagram – @ernahrund.
Núna eftir aðeins nokkra daga mun Reykjavík Makeup Journal koma út í prenti – og það frítt! Sumarið hefur farið í mikla hugmyndavinnu og undirbúning fyrir að gera eitthvað almennilegt úr þessu skemmtilega blaði (mín skoðun og vonandi ykkar líka:)). Blaðið gef ég út í samstarfi við Hagkaup og það hefur verið ekkert smá gaman að gera það frá grunni með flotta fólkinu þar.
Hér fyrir ofan sjáið þið eina opnu úr blaðinu – opnan er hluti af stærri umfjöllun í blaðinu :)
Á fimmtudag gerði ég mér svo ferð til snillinganna í Odda og samþykkti prentunina á minni fyrstu forsíðu – þessi stund var í alvörunni svo ótrúleg að ég átti bágt með mig. Ég hefði getað staðið þarna allt kvöldið og bara dáðst að vélinni prenta þessa fallegu kápu.
Ég leyfi ykkur að fylgjast vel með gangi mála en útgáfudagurinn er aðeins eftir nokkra daga. Ég veit ekki alveg í hvernig ástandi ég verð þegar ég fæ fyrsta blaðið í hendurnar – ég á ábyggilega eftir að fella nokkur tár. Því þó að netið sé framtíðin og allt það þá held ég að fátt jafnist á við að halda á útprentuðu blaði í höndunum á sér.
Efni þessa þriðja blaðs var ákveðið af mér – í samráði við ykkur, ég bað um smá ráð á Facebook síðunni minni fyrir ekki svo löngu þegar ég var að loka efnistökunum fyrir blaðið. Ég nýtti mér nokkrar af ykkar uppástungum svo takk kærlega fyrir hjálpina og ég vona að þið finnið svör við spurningunum í blaðinu.
Ég lofa að leyfa ykkur að fylgjast betur með þegar útgáfudagurinn nálgast – sem er jú 16. október!
EH
Skrifa Innlegg