Þessa dagana sökkar lífið feitt – það er á dögum sem þessum sem mig langar að standa úti á stétt, öskra hátt og senda báðar löngutangirnar beint í andlitið á alheiminum því ég veit eiginlega ekki hvað í ósköpunum ég hef gert til að lenda í því að missa fóstur tvisvar á tveimur árum.
Mig langar að segja söguna mína sem í dag eru tvær af því ég upplifði það að þegar ég gekk í gegnum fyrsta fósturlátið fannst mér eins og ég væri gölluð því ég vissi ekki hvað það væri algengt að missa fóstur af því enginn talaði um það við mig. Mögulega geta mínar sögur hjálpað seinna meir, hjálpað þeim sem fara í gegnum það sama og ég hef gert. Ég óska þess þó innilega heitt að enginn þurfi að fara í gegnum sama sársauka og við fórum í gegnum nokkurn tíman aftur þó ég viti betur.
Ég finn að ég þarf líka að skrifa sögurnar fyrir mig sjálfa. Til að ná á ákveðinn hátt að takast á við það sem ég gekk í gegnum.
Í byrjun ársins 2012 kemst ég að því að ég er ófrísk. Ég get ekki líst því hvað mér brá mikið og ég tók algjört panikk kast. Þetta var ekki beint planað, við höfðum farið óvarlega og því hefði þetta kannski ekki átt að koma mér jafn mikið á óvart og það gerði. Ég tók mér nokkra daga til að jafna mig en svo fann ég spenninginn koma. Hann kom sérstaklega þegar ég sá hversu spenntur kærastinn var. Við fórum í fyrsta sinn í mæðraeftirlit og ég pantaði svo tíma í snemmsónar hjá kvensjúkdómalækni þegar ég átti að vera komin um 8 vikur. Daginn áður en ég fór í sónarinn komu blóðdropar. Þá hrundi veröldin og ég stífnaði öll upp. Það blæddi örlítið þennan dag og hætti svo alveg. Ég ráðfærði mig við ljósmóður uppá kvennadeild sem sagði að það væri engin ástæða til að hafa áhyggjur því það gæti alveg verið að þetta væri saklaust. En það sem gerist á meðgöngu er að æðarnar í leggöngunum verða viðkvæmari fyrir og þær geta sprungið sem leiðir til smá blæðingar. Ég ákvað að reyna að anda rólega þar sem ég átti tíma daginn eftir. Engu að síður var ég hvött til að taka því rólega og fá að fara í veikindaleyfi í vinnunni. Þar voru allir ekkert nema stuðningsríkir vegna aðstæðna og ég er enn svo þakklát fyrir skilninginn sem ég fékk. Í minningunni svaf ég ekki mikið nóttina fyrir snemmsónarinn. Þegar ég fór svo í snemmsónar hrundi heimurinn algjörlega – fóstrið sást inní fylgju með áfastan fæðupoka en enginn hjartsláttur.
Læknirinn sagði mér að hafa ekki of miklar áhyggjur mögulega væri ég bara komin styttra en ég héldi þar sem hjartslátturinn kemur ekki fram fyr en um 7/8 viku. Þetta er allt í frekar mikilli móðu hjá mér. Svo ég fékk nýjan tíma hjá lækninum viku seinna.
Svo smám saman kom meira og meira blóð. Aftur hrundi veröldin því ég vissi alveg hvað væri að gerast. Ég vissi að fóstrið væri að fara þó svo að allir í kringum mig reyndu að hughreysta mig. En vitiði maður veit alveg hvað er að gerast í sínum eigin líkama. Morguninn eftir vaknaði ég og það var blóð útum allt. Ég steig varlega upp, hugurinn fór á sjálfstýringu og stýrði mér inná bað. Ég settist á klósettið og ég fann hvernig fóstrið fór niður eftir leggöngunum mínum og lenti í klósettinu.
Ég man ég sat stjörf á klósettinu í langan tíma. Ég man hvað mér leið illa en á sama tíma var mér létt yfir því að vita að þetta væri búið. Að ég þyrfti ekki að vera að deyja úr áhyggjum hverja einustu mínútu á hverjum einasta degi. Svo stóð ég upp og virti fyrir mér þennan slímbolta sem blasti fyrir mér í klósettinu. Þarna var fóstrið okkar sem átti að gera lífið ennþá betra en það var. Ég veit ekki hvaðan styrkurinn til að sturta niður kom – en það var það erfiðasta sem ég hef gert á ævinni. Ég labbaði varlega inní herbergi og sagði kærastanum mínum hvað hafði gerst. Ég sagði honum að fóstrið væri farið. Sársaukinn leyndi sér ekki og þó svo að mér hafi aldrei liðið verr á ævinni þá held ég að honum hafi liðið verr en mér. Við grétum saman og svo hringdi ég niður á spítala til að fá tíma í skoðun til að athuga hvort ég þyrfti að fara í skröpun ef allt hefði ekki skilað sér niður.
Daginn eftir fór ég í skoðun. Yndislegur læknir tók á móti okkur ásamt læknanema. Þau staðfestu fósturmissinn og að allt væri í lagi að allt hefði skilað sér út. Við fengum bækling þar sem farið var yfir upplýsingar um fósturlát, hvar er hægt að sækja sér aðstoð og upplýsinga um hvað hafði gerst. Eftir á sé ég smá eftir því að hafa ekki þegið þá aðstoð bara fyrir mig andlega. En ég vissi þó að líklega hefði bara eitthvað verið að. Fóstrið var ekki fullkomið og líkaminn hafnar því sem er ekki fullkomið. Þannig sá ég þetta alla vega fyrir mér.
Í framhaldi sáum við að við vorum tilbúin fyrir þetta allt saman og ákváðum að fara að reyna. Ljósmóðirin mín sem var með mig í mæðraeftirlitinu sagði okkur að það væri ekkert sem bannaði að byrja að reyna strax. Fyrst læknirinn hafði sagt að allt hefði hreinsast út þá væri ekkert sem segði til um að það myndi ekki vera í lagi. Viti menn tveimur vikum seinna þegar ég var með egglos tókst það.
Ég komst að því mjög snemma að ég væri ólétt. Ég fann fyrir öllum einkennunum aftur en þau fóru eiginlega um leið og það byrjaði að blæða fyrst. Ég tók próf sem reyndist jákvætt en línan var svo ósýnileg að ég ákvað að taka annað daginn eftir sem var alveg eins. Við ákváðum að vera pollróleg, panta tíma í snemmsónar og sjá hvað myndi gerast. Ég hafði líka lesið mér til um að það er mögulegt að fá jákvætt óléttupróf í alltað 8 vikur eftir fósturmissi.
Aftur svaf ég ekkert daginn fyrir snemmsónarinn. Enginn vissi af þessu en við ákváðum að fá fyrst staðfestinguna á grunsemdum okkar. Ég man ég horfði stíft á skjáinn hjá lækninum og strax sá ég litla doppu á skjánum og læknirinn benti okkur síðan á hjartsláttinn. Þarna var lífið fullkomið. Við fengum mynd fórum beint útí búð og keyptum ramma utan um myndina af litla bumbubúanum. Ég hringdi í heilsugæsluna og skildi eftir skilaboð til ljósmóðurinnar minnar sem hringdi tveimur mínútum síðar og trylltist af spenningi þegar ég sagði henni fréttirnar. Hún sagði mér að þetta væru einmitt fréttirnar sem hún vonaðist eftir að fá þegar hún sá að ég hafði hringt í hana. Við fengum þá tíma hjá henni til að fá beiðni í 12 vikna sónar.
Í dag á ég fullkomlega heilbrigt barn sem ég elska meira en allt annað og hann fullkomnar mig. Hann er það sem sannaði það fyrir mér að ég get eignast fullkomið barn þó mér hafi liði eins og ég væri mjög ófullkomin þegar ég missti fóstrið. Eins erfitt og það er að hugsa þannig þá veit ég að ef ég hefði ekki misst þetta fóstur þá hefði ég aldrei eignast Tinna Snæ og ég ætla aldrei að upplifa það að lifa án yndislega sonar míns.
Í dag veit ég að það að missa fóstur er ótrúlega algengt en það hjálpaði mér ekki um helgina. Í dag er ég aftur ófullkomin og í dag er það líka mér að kenna að heimurinn hrundi aftur. Í dag er ég þó svo þakklát fyrir það að eiga besta son í heimi sem ég elska útaf lífinu og hann hjálpar mér svo mikið í dag að halda geðheilsunni. Í dag veit ég hvað ég er heppin að eiga barn því ég veit að það er alls ekki sjálfsagður hlutur. Á sunnudaginn missti ég fóstur í annað skiptið.
Á laugardagin dreymdi mig um það að eiga tvö börn, að vera tveggja barna móðir. Ég var farin að skipuleggja það í huganum á mér hvernig systkinin eða bræðurnir gætu fylgt mér til pabba þeirra á brúðkaupsdaginn okkar. Hvernig ég var farin að skipuleggja það að flytja í stærri íbúð þar sem börnin tvö gætu deilt herbergi eða fengið sitthvort. Ég sem var samt svo viðbúin því að missa fóstrið og ég er líka svo fúl útí sjálfa mig fyrir að hafa verið svona viðbúin mér finnst ég hafa skemmt fyrir sjálfri mér með því að búast við þessu.
Við fjölskyldan áttum yndislegan dag á laugardaginn, hann var fullkominn og ég fann hvað áhyggjurnar um plássleysi í íbúð eða peningamissi hurfu og hvað tilhlökkunin var að yfirtaka allt annað. Mig verkjaði í brjóstunum, mér var óglatt og mjaðmirnar voru að fara með mig – allt passaði og mér reiknast til að ég hafi verið komin nokkrar vikur 6-7 líklega. Svo vakna ég á sunnudaginn, fer fram á baðherbergi til að pissa og þá kom blóð. Daginn eftir var ég tóm.
Við höfum tvisvar misst fóstur bara nokkurra vikna gömul. Það er hræðilegt og ég get ekki ímyndað mér hvernig er að missa þegar fóstrin eru orðin eldri en það. Konur sem ganga í gegnum þá hræðilegu reynslu finnst mér sterkustu konur í heimi – að geta komist í gegnum það.
Að missa fóstur er því miður mjög algent og mig minnir að tölfræðin segi að í 10 kvenna saumaklúbbi hafi að minnsta kosti 3 konur misst fóstur alla vega einu sinni. Það sem ég veit þó er að við sem höfum lent í þessu getum hjálpað hvor annarri í gegnum þetta. Þetta er ömurlegt og svo ósanngjarnt en ég og mín saga er dæmi um að það að missa fóstur þýði ekki að það sé útilokað að eignast heilbrigt barn og það strax í næsta egglosi. En við erum allar ólíkar og engin okkar er eins. Við sem höfum gengið í gegnum þetta upplifum þetta á okkar hátt. Þetta eru bara mínar sögur og mín reynsla.
Á margan hátt þarf ég líka að skrifa söguna mína niður til að minna sjálfa mig á það að þó svo ég hafi upplifað þennan missi fyrir tveimur árum og aftur nú fyrir stuttu þá á ég einn fullkominn son sem fullkomnar mig. Ég skrifa söguna til að minna mig á að þó svo sorgin hafi tekið yfir líf mitt þá var hamingjan handan við hornið.
Ég skrifa líka söguna til að minna sjálfa mig á að lífið er erfitt og við tökumst á við fullt af hlutum, bæði jákvæða og neikvæða sem móta okkur sem einstaklinga og ég vil trúa því að margt af því geri okkur að betri manneskjum. Í dag veit ég að ég mun aldrei taka því sem sjálfsögðum hlut að eiga fullkomlega heilbrigt barn. Ég veit að það er mikið kraftaverk að verða ólétt og eignast barn. Ég veit að þó að mér líði eins og heimurinn minn hafi hrunið þá fæ ég fleiri tækifæri í framtíðinni til að verða ólétt.
Við erum margar sem höfum upplifað sömu sorgina og uppgjöfina. Ég man að þegar ég gekk í gegnum þetta fyrst þá upplifði ég mig mjög einmanna, ófullkomna og misheppnaða. Ég hélt ég væri ein sem væri gölluð en ég komst að því að svo er ekki. Að lokum þá skrifa ég líka söguna mína og birti hana hér til að láta aðrar konur sem hafa gengið í gegnum það sama og ég vita að þær eru ekki einar eins og mér leið og til að láta þær vita að ég er hér til staðar fyrir þær ef þær þurfa einhvern til að tala við.
Með kærri kveðju, þökkum fyrir stuðning sem margir hafa nú þegar sýnt mér og með von um góðar móttökur.
EH
Skrifa Innlegg