fbpx

Viðtal: SIGGA MAIJA FW14

FashionFW2014ShopStíll

Ég hef einstaklega gaman af því að hampa íslenskri hönnun og fylgjast með öllu frábæra hæfileikaríka fólkinu sem við eigum hér á landi sem starfar við fatahönnun. Bransinn er að vitaskuld ekki sá auðveldasti en mér finnst það alltaf merki um mikinn kjark og metnað þegar fólk tekur af skarið, tekur áhættu og dembir sér út í þennan heim. Ein af þeim sem gerði það nýverið er Sigríður María Sigurjónsdóttir sem frumsýndi sína fyrstu fatalínu á RFF í ár og vakti verðskuldaða athygli fyrir.

Ég man að ég hafði mjög gaman af sýningu SIGGA MAIJA en línan kom sannarlega eins og ferskur blær inní þessa skemmtilegu hátíð og er í mínum huga ein af eftirminnilegustu línunum frá henni. Litirnir voru áberandi og skáru sig frá öðru, þar á meðal rauður og blár, printin voru erótísk og ögrandi og vöktu forvitni. Hvert eitt og einasta smáatriði var fullkomið og ég man að ég sat og hugsaði á einni stundu í sýningunni að ég yrði að fara að klæðast támjóum pinnahælum við netasokka! Nokkrum mánuðum seinna var ég svo heppin að fá að vinna við tökur fyrir Nýtt Líf þar sem áherslan var á haustvörur frá íslenskum hönnuðum. Þar vorum við m.a. með flíkur frá SIGGA MAIJA og mér fannst mjög spennandi og gaman að fá að koma aðeins við þessar flottu flíkur sem höfðu vakið forvitni hjá mér nokkrum vikum áður.

Í tilefni komu fyrstu línunnar frá SIGGA MAIJA í verslanir JÖR þá fékk ég yfirhönnuðinn hana Siggu Maiju til að svara nokkrum spurningum varðandi línuna, innblásturinn og framtíðina.

10610564_506727136128317_7625004595854444549_n

Ljósmyndari: Börkur Sigþórsson, Stílisti: Ellen Loftsdóttir, Fyrirsæta: Brynja fyrir Bast no. 11.

Hverjir standa á bakvið merkið SIGGA MAIJA?

SIGGA MAIJA teymið saman stendur af mér,  (Sigríði Maríu Sigurjónsdóttur) og er ég yfirhönnuður og stofnandi merkisins, henni Örnu Sigrúnu Haraldsdóttur sem er framkvæmdarstjóri, Ellen Loftsdóttur sem er listrænn stjórnandi og henni Anítu Katrínu sem er yfir klæðskeri og studio manager.

Hvað kom til þess að þú fórst af stað með þitt eigið merki?

Það kom brátt að, satt best að seigja. Ég var búinn að vinna fyrir aðra frá útskrift, fór í starfsnám til Parísar hjá Sonia Rykiel og hafði verið að vinna með Gumma Jör þar á undan . Nánast strax við heimkomu var ég ráðin sem aðstoðarhönnuður hjá Kron By Kronkron. Ég naut þess vel að vinna fyrir aðra en um áramótin síðustu fékk ég þessa tilfiningu að ég hefði nú töluvert að segja sjálf og þessi löngun um að vilja koma því út varð mjög sterk. Þá var ekkert annað að gera en að hoppa beint í djúpu laugina segja upp starfinu hjá Kron og sækja um þátttöku í RFF. Þetta er búið að vera frábær tími síðan þá. Ég er líka svo ótrúlega lánsöm að hafa fundið gott samstafsfólk sem er hokið af reynslu í þessum bransa  og  deila sömu framtíðarsýn fyrir SIGGA MAIJA og ég hef. Framtíðin er björt með þeim.

10403710_552618641539166_3967481715348464718_n

Ljósmyndari: Saga Sig

Hvaðan sóttirðu innblástur fyrir fallegu línuna þína?

Takk fyrir það. Hún er í grunninn innblásinn af minni persónulegu rannsókn á því sem dansar á
mörkum hins raunverulega og óraunverulega. Til þess formfesta þessar pælingar í meira form
skoðaði ég spennandi tíma í París þegar  súrealisminn var að brjóta sér til rúms. Fatnaðurinn er byggður á súrealískum hugmyndum en er samt þó mjög klassískur í grunnin. Ég vann með íslenskt Mokkaskinn og það er eitthvað sem ég hef verið að vinna með áður alveg frá því í skólanum. Ég held að það verði mikill partur af SIGGA MAIJA að nota þessa íslensku afurð.

Hannarðu með einhverja sérstaka týpu af konu í huga?

SIGGA MAIJA er fyrir konu sem er hugsuður og fagurkeri. Sú sem vill fá réttmætta athygli fyrir hæfileika sína og hikar ekki við að sýna stöðu sína og fágun í fatnaði. Hún er fyrst og fremst framsækin nútímakona, femínisti, ástkona, móðir, húmoristi, sérvitur og meðvituð.

10541981_479326445535053_1122333383622795751_n

Ljósmyndari: Rafael Pinho, Stílisti: Anna Clausen, Módel: Matta, Förðun og hár: ég – fyrir Nýtt Líf.

Hvað er framundan hjá ykkur hjá Sigga Maija?

Gott jólafrí með fjölskyldunni og svo áframhaldandi þróun á næstu línu SIGGA MAIJA // AW15
sem sýnd verður á Reykjavík Fashion Festival.

10522429_513799248754439_2813696540616984576_n

Mynd frá sýningu SIGGA MAIJA á RFF, fyrirsæta: Magdalena Sara.

Ég þakka Siggu Maiju innilega fyrir að gefa sér smástund til að svara spurningunum mínum, sérstaklega á þessum eflaust annasama tíma þar sem í kvöld verður komu fyrstu fatalínunnar hennar fagnað í verslun JÖR á Laugaveginum. Sölustaður línunnar passar sérstaklega vel þar sem hún og Gummi Jör útskrifuðust saman úr Listaháskólanum og Sigga Maija vann hjá honum eins og hún segir sjálf hér fyrir ofan. Hófið hefst klukkan 17:00 og ég hvet alla sem geta mætt til að mæta! Sjálf kemst ég ekki þar sem ég er föst í vinnu en ég hlakka til að skoða flíkurnar á föstudaginn – ég mæti þangað með myndavélina að vopni! HÉR finnið þið allt um launch partýið fyrir SIGGA MAIJA í JÖR.

SM4

Ljósmyndari: Saga Sig, Stílisti Ellen Lofts, Fyrirsæta: OLGA.

Innilega til hamingju með daginn allir hjá SIGGA MAIJA – því á alltaf að fagna þegar tilefnið er að halda uppá fallega íslenska hönnun!

EH

Ég hlakka svo til...

Skrifa Innlegg