fbpx

Verjið húðina fyrir mengun

Ég Mæli MeðHúðLífið MittSnyrtivörur

Ég veit ekki með ykkur en síðustu daga er ég og húðin mín alveg komin með nóg af þessu blessaða gosi… Mér datt því í hug að koma með nokkur ráð sem gætu kannski nýst ykkur og húðinni ykkar á þeim dögum sem þessi rosalega mengun er að hellast yfir okkur.

Ég finn fyrir menguninni sérstaklega í augunum, mér svíður allan daginn og líður eins og linsurnar mínar séu nokkurra daga gamlar og svo klæjar mig alveg svakalega í húðina. Þetta er eiginlega alltof pirrandi sérstaklega þar sem húðin mín er ekkert í toppástandi útaf kuldanum sem mætti með menguninni. Eftir viku er ég á leið í nokkra daga í vinnuferð til London og ég var að grínast með það í gær að ég væri að fara til London til að fá mér frískt loft. En þar sem ég var að heyra að það séu víst hugmyndir um að þetta gos sé ekki að hætta fyr en næsta vor þá verðum við að vera með á hreinu hvernig við eigum að losa okkur við mengunina úr húðinni.

"Holuhraun Eruption"

Það er búist við því að mengunin frá gosinu færi sig yfir landið í dag og á morgun en ég hvet ykkur endilega til að fylgjast vel með gangi mála HÉR.

En að fyrsta ráðinu þá mæli ég með því að þið reynið að komast sem mest hjá því að fara út með hreina húð. Farði, BB krem, CC krem, lituð dagkrem allt ver þetta andlitið fyrir menguninni og óhreinindunum sem geta sest í hana. Grunnförðunarvörru fullkomna ekki bara áferð húðarinnar og litarhaft heldur mynda líka eins konar lag yfir húðinni sem ver hana svona svakalega vel. Svo munið að þekja húðina vel á morgnanna.

Svo eftir daginn er auðvitað nauðsynlegt að þrífa andlitið vel. Mig langar að mæla með tvöfaldri húðhreinsun. Byrjið á því að þrífa húðina með olíuhreinsi. Olíuhreinsar leysa upp erfið óhreinindi eins og mengun, SPF varnir og önnur yfirborðs óhreinindi og að sjálfsögðu hreinsa þeir líka förðunarvörur. Olíuhreinsunin er líka ótrúlega mjúk og góð og skilur eftir mjög góða næringu. Svo er það dýpri húðhreinsun, þá nota ég t.d. Clarisonic burstann minn eða þá bara gelhreinsi sem freyðir aðeins og djúphreinsar húðina, þá náið þið líka að hreinsa restina af óhreinindunum sem olían leysti upp. Nærið svo húðina eins og þið eruð vanar.

Það er nú kannski ansi erfitt að fara að smyrja allan líkamann með farða á morgnanna til að verja hana en þá er auðvitað gott að venja sig á að eiga góðan líkamsskrúbb í sturtunni, helst dáldið grófan og gelkenndan sem þrífur vel og skrúbba líkamann svona tvisvar í viku. Nærið svo húðina vel með góðu bodylotioni.

Þetta eru þrjú ótrúlega einföld ráð sem geta samt skipt miklu máli og haldið húðinni í góðu jafnvægi á meðan gosmengunin gengur yfir. Þetta eru líka ráð sem nýtast bæði konum og körlum á öllum aldri, þó mér finnist kannski ólíklegra að karlarnir séu til í að bera á sig farða en þá er gott að vera bara með sérstakan andlitsskrúbb í sturtunni og þrífa andlitið þar.

EH

Sigurmyndirnar í Clarisonic leiknum

Skrifa Innlegg

7 Skilaboð

 1. Ragna Björk

  15. October 2014

  Ég var einmitt að taka af mér farðann í gærkvöldið og þá fannst mér eins og bómullaskífan væri svona grárri en á að vera. Vanalega kemur bara liturinn af farðanum á skífuna en í gær var svona grá slykja með. Getur verið að þetta sé út af gosinu?

  • Reykjavík Fashion Journal

   15. October 2014

   Já það eru allar líkur á því – mér fannst ég sérstaklega slæm eftir daginn í gær. Samkvæmt spám má búast við að dagurinn í dag verði jafn slæmur og líka morgundagurinn… :(

 2. Hjördís

  15. October 2014

  Getur þú gefið mér dæmi um olíuhreinsi? :)

 3. Andrea

  15. October 2014

  Ágætu lesendur. Nú bý ég austur á landi og hef upplifað þessa “toppa” sem hafa komið 2-3x síðan gosið hófst. Þegar ég tala um toppa þá hafa brennisteinsdíoxíðsgildin farið í 3-4 þúsund míkrógrömm á rúmmeter. Að öðru leyti hafa gildin verið þolanleg eða langt undir þúsund og því litlar áhyggjur að hafa.

  Til að skoða þetta nánar er gott að fara inn á loftgaedi.is, velja bláan punkt á höfuðborgarsvæðinu og passa að í flettilistanum sé valið “Brennisteinsdíoxíð (SO2))”. Þá sést línurit yfir gildin. Síðustu tvo sólarhringa hafa gildin verið afskaplega lág en hæst fóru þau um miðjan dag í gær í rúm 400 míkrógr á m3. Að sjálfsögðu hefur þetta áhrif og getur haft sérstaklega slæm áhrif á þá sem eru veikir fyrir og börn. En að þetta leggist djúpt á húðina finnst mér heldur djúpt í árinni tekið þar sem gildin eru ekki heldur há svo lengi.

  Þó er gott að passa sig og fara með gát en eins og ég segi, þá finnst mér ólíklegt að þetta leggist á húðina og því tel ég ekki þörf á að vera með einhverja sérstaka aðgát, nema mögulega ef viðkomandi er útivið allan liðlangan daginn, og jafnvel í hreyfingu, meðan hæstu gildi mælast.

  En eins og með allt, þá er gott að hver og einn hugsi þetta algjörlega fyrir sig.

  Góðar stundir.

  PS. Takk Erna Hrund fyrir ljómandi fín skrif.

 4. Rannveig

  15. October 2014

  Sammála henni Andreu. Bý hérna fyrir austan þar sem mengunin hefur farið upp úr öllu valdi nokkrum sinnum. Eini munurinn sem ég finn á minni húð er að ég er orðin mjög þurr, ég reyndar held að það sé frekar kuldinn en mengunin en um að gera að hreinsa húðina vel á kvöldin og muna eftir rakakremi :) Takk fyrir góð ráð :) núna þarf maður að vera duglegur að passa húðina sína!