Þið sem hafið verið lesendur mínir í gegnum árin og þið sem nýir eruð vitið vonandi að ég legg mikið uppúr því að vera hreinskilinn bloggari. Ég er líka mjög opinn og persónulegur bloggari og ég hef deilt með ykkur mörgum af mínum persónulegustu augnablikum. Ég vil gefa ykkur kost á því að kynnast mér vel, kynnast því hvernig manneskja ég er og kynnast mínum gildum og siðareglum. Ég tel það mjög mikilvægt að þið þekkið mig til að þið getið treyst mér og því sem ég segi og því sem ég skrifa.
Ég skrifa alltaf það sem mér finnst, mögulega hafa margar ykkar stöku sinnum hrist hausinn yfir lofi mínu um einstakar snyrtivörur en þau hafa alltaf verið byggð á mínum orðum og mínum skoðunum. Enginn annar segir mér hvað ég á að skrifa, því það er einfaldlega ekki í boði.
Á síðunni minni vil ég að allir finni ráð, vörur og umfjallanir við sitt hæfi. Ég vil hjálpa ykkur að grisja í gegnum frumskóg snyrtivara sem eru til á Íslandi og hjálpa ykkur að finna það sem hentar ykkur og mögulega stýra ykkur frá því sem gerir það ekki. Ég hef í rúm þrjú ár byggt upp Reykjavík Fashion Journal með þessari stefnu að leiðarljósi. Í dag líður mér hins vegar eins og ég hafi misst mikið af trausti sem mér finnst þið bera til mín og minna orða.
Í dag birtist nefnilega viðtal við mig í tímariti sem heitir Heilsufréttir. Ég var beðin um að velja mér 5 snyrtivörur sem fást í Heilsuhúsinu og ég gæti mælt með. Ég gerði það enda skemmtilegt tækifæri til að kynnast betur snyrtivörum sem fást þar og auka enn betur fjölbreytileikann. Ég valdi mér vörur, skrifaði textann og sendi hann inn, sá texti var þar af leiðandi samþykktur af mér og ég skildi ekki annað en það væri bara sá texti sem þyrfti.
Í morgun vakna ég upp við vondan draum þar sem ég er látin vita af því að viðtalið og greinin er eitthvað einkennileg og ekki í takt við mig og mín gildi. En þá hafði verið bætt við, án minnar vitneskju, beinni tilvitnun í mig sem var sett innan gæsalappa eins og ég hefði raunverulega sagt hana í umræddu viðtali.
Hér sjáið þið tilvitnunina eins og hún birtist:
“Ég vel náttúrulegar snyrtivörur umfram aðrar vegna þess að þær eru alltaf án parabena, fara betur með húð og heilsu, eru í fremstu röð í gæðum og verðið er hreint út sagt ótrúlega gott. Ég hvet þig til að kíkja í Heilsuhúsið og
prófa náttúrulegar snyrtivörur á eigin skinni”
Öðru var breytt í vörulýsingum sem ég átti að hafa sagt um vörurnar sem ég mælti með:
„Hreinasta dásemd fyrir konur á öllum aldri!“
„Verðið er frábært og því margborgar sig að velja náttúrulegt!“
„Algjör snilld!“
Þetta sagði ég aldrei og þetta hef ég aldrei sagt. Það þýðir þó ekki að vörurnar sem ég mælti með í blaðinu hafi ekki verið þar af ástæðu. Ég stend við allt sem ég sjálf skrifaði um þessar vörur sem ég valdi og í Heilsuhúsinu fást fjölmargar flottar og spennandi vörur. Helst finnst mér sárt að sjá að textanum sem ég skrifaði um vörurnar var breytt en ég var sjálf ekki búin að sjá það fyr en ég var búin að birta þessa færslu og því bæti ég því sem var bætt við hér fyrir ofan.
Hins vegar er ég ósátt við þetta þar sem ég dæmi ekki vörur útfrá því hvort þær gefi sig út fyrir að vera náttúrulegar eða ekki, hvort þær innihaldi paraben eða ekki eða hvort þær séu dýrar eða ekki. Ég dæmi vörur útfrá minni upplifun, ég dæmi þær ekki útfrá því sem auglýsingar segja um vörur. Á minni síðu leggur mér enginn orð í munn, það er ekki boðlegt og því harma ég innilega þessi vinnubrögð og hef nú þegar fengið afsökunarbeiðni frá umsjónarmanni blaðsins sem viðurkennir að þau hafi gert mistök með því að leggja mér orð í munn án minnar vitneskju.
Í þessum stóra netheimi er mikilvægt að hver og einn geri sér grein fyrir því að það sem birtist þar er þar alltaf. Ég geri mér grein fyrir því og því reyni ég að vinna eftir mínum eigin siðareglum sem ég hef sett mér sjálf til að vernda orðspor mitt sem manneskju, bloggara og förðunarfræðings. Mín skoðun, orðin og þessi síða er ekki til sölu fyrir neina upphæð. Ég skrifa eingöngu af heilum hug og stend á bakvið allt sem ég skrifa.
Það sem þarna birtist er ekki frá mér komið en þarna birtist tilvitnun sem skaðar mig persónulega. Alhæfingarnar sem eru settar þarna fram eins og ég hefði sagt þær stríða gegn öllu því sem ég stend fyrir. Ég harma þessi vinnubrögð innilega, svona geri ég ekki og ég mun nú passa mig ennþá betur.
Ég vona að þið lesendur mínir sem berið traust til mín látið þetta ekki hafa áhrif á ykkur og ég þakka ykkur innilega fyrir stuðning við mig og mín skrif í gegnum árin. Fyrir lesturinn og tímann sem þið gefið ykkur í að lesa það sem ég hef að segja verð ég ævinlega þakklát enda geri ég mér vel grein fyrir því að ég á ykkur mjög margt að þakka.
Það er margt spennandi framundan sem ég hlakka til að segja frá og deila með ykkur. Ég vona að þið haldið áfram að treysta því sem ég hef að segja og að þessi orð hafi ekki haft áhrif á það traust sem fyrir var.
Mínar bestu kveðjur og þakkir til ykkar allra,
Erna Hrund Hermannsdóttir.
Skrifa Innlegg