Ég mælti mér mót við Guðmund Jörundsson á skrifstofu hans á Laugaveginum í gærmorgun. Ég er ein af þeim sem bíð spennt eftir því að kvennlínan sem var frumsýnd á síðasta RFF mæti í verslanir og mig langaði bara að tékka á því hver staðan væri á línunni. Mér fannst upplagt að leyfa nokkrum myndum sem ég tók á hátíðinni bæði á sýningu JÖR og af stemmingunni baksviðs fyrir hana fylgja með færslunni.
Brot af línunni er nú þegar komið í hús, en það eru yfirhafnirnar sem hvíla á fallegum JÖR herðatrjám uppá skrifstofu merkisins sem er nokkrum hæðum fyrir ofan verslunina. Þar bíða þær þess að komast niður í verslun þegar restin af sendingunni er komin. Ef ég ætti að velja eitt lýsingarorð til að lýsa yfirhöfnunum þá yrði það að þær eru veglegar. Þær eru úr ótrúlega flottum efnum sem ég efast ekki um að verði endingagóð, þær eru hlýjar og þær eru klæðilegar. Ég fékk að máta eina kápuna sem var aðsniðin og klæðileg – hún er komin á óskalistann. Ég sýni ykkur hana seinna…
Kvenlína JÖR vakti mikla lukku á RFF sem fór fram fyrr á árinu en ásamt henni er væntanleg ný lína frá JÖR í verslunina – undirlína. Með þeirri línu langar aðstandendum JÖR að geta boðið uppá meira úrval og um leið finnst þeim þau á ákveðinn hátt öðlast þá meira frelsi til að gera línuna sjálfa eins og þau vilja hafa hana. Undirlínan er ekki gerð með það í huga að vera ódýrari útgáfa af línunni sem er væntanleg heldur til að ná til mun breiðari hóps. Þetta verða einfaldari flíkur, sumar þeirra eru innblásnar af nýjustu línu JÖR aðrar eru sjálfstæðar. Guðmundur segir þau stefna á að undirlínan verði á góðu verði svo sem flestir muni ná að eignast flík frá JÖR. Þó svo undirlínan verði úr ódýrari efnum þá segir Guðmundur að þetta séu mjög flott efni engu að síður. Línurnar munu allar koma undir nafninu JÖR en þær verða líklega aðgreindar með ólíkum merkingum.
Það er mjög algengt að fatamerki sendi frá sér undirlínur sbr. Alexander McQueen og McQ by Alexander McQueen og svo hjá ódýrari merkjum eins og Second Female sem er með undirlínuna First Female. Svo þetta er virkilega skemmtileg þróun hjá þessu íslenska tískuhúsi – er það ekki besta lýsingin á JÖR.
Samhliða þessu munu svo ný merki koma í sölu í versluninni t.d. merki sem bjóða uppá töff fylgihluti, dásamlegan undirfatnað og kósý knitwear. Ég fékk að gægjast í lookbook frá þessum merkjum og ég er orðin spennt að sjá þetta allt saman. Mér finnst eiginlega upplagt að hvert merki fái að njóta sín í sér færslu – þetta eru allt merki sem ég hef ekki heyrt um áður en hún Hrafnhildur Hólmgeirs sem er listrænn stjórnandi merkisins hefur valið merkin vandlega inní verslunina. Hrafnhildur er með alveg einstakan stíl og ég efast ekki um að íslenskar konur verði hrifnar af merkjunum.
Ef þið hafið ekki enn kíkt við í JÖR sem er staðsett ofarlega á Laugaveginum í hluta gamla 17 hússins þá er upplagt tækifæri að gera það núna. Búðin mun taka þátt í Airwaves hátíðinni með því að bjóða uppá off venue tónleika.
Þeir fyrstu hefjast í dag klukkan 16:00 – en það er hljómsveitin Japam sem ríður á vaðið og klukkan 17:00 tekur svo Sykur við. En dagskránna í heild sinni finnið þið HÉR. Ég er alveg viss um að það muni myndast skemmtileg stemming inní versluninni – ég stefni á að kíkja við á fimmtudaginn og hlusta á Retro Stefson.
Fylgist með fleiri fréttum af JÖR hér á RFJ innan skamms ;)
EH
Skrifa Innlegg