Ég varð bókstaflega orðlaus þegar ég sá nýjasta myndband söngkvennanna Shakiru og Rihönnu um daginn ég átti ekki til aukatekið orð yfir klámmyndinni sem þetta tónlistarmyndband var! Ég hef verið að velta því fyrir mér síðan þá hvað ætli hafi orðið til þess að þessum söngkonum fannst þær knúnar til að senda frá sér myndband þar sem þær voru hálfnaktar í vafasömum stellingum. Ég hef ekki enn fundið svarið.
Í kvöld rakst ég á samsetta mynd af hinum ýmsu söngkonum (ásamt þessum tveim sem ég nefni hér fyrir ofan) á Facebook sem einn notandi síðunnar hafði sett inn af nýlegum uppátækjum þessara söngkvenna. Ég verð eiginlega bara að setja eitthvað hérna inn um þetta allt saman.
Ég bara veit ekki alveg hvað við getum gert til að koma í veg fyrir það að ungar stelpur nú til dags sjái þetta ekki og haldi að svona eigi þær líka að vera. Sjálf er ég ótrúlega hrifin af mörgum þessara söngkvenna en þessi uppátæki gúddera ég ekki – hvað í ósköpunum ætli hafi fengið þessar flottu konur til að gera þetta – peningar, athygli er það ekki líklegasta ástæðan.
Auðvitað hefur hver og ein kona rétt á því að gera það sem þær vilja en hefur maður ekki einhverja ábyrgð sem fyrirmynd ungra stelpna að láta ekki líta út fyrir að þetta sé bara eðlilegt. Heimurinn er svo gjörólíkur því sem hann var bara fyrir nokkrum árum – sem móðir er ég skíthrædd um það hvaða áhrif heimurinn og allt það sem ég er ekki sammála í honum geti haft á son minn. Ef ég ætti dóttur væri ég vís til að loka hana inni…
Ég held ótrúlega mikið uppá Beyonce og Rihönnu sem söngkonur, sem tískudrottningar og ég hef oft birt myndir af þeim á síðunni minni, eins og þið kannski munið eftir. Mögulega ætti maður bara að hætta því. Ég er hrædd við það sem koma skal mér finnst búningarnir alveg komnir yfir strikið í dag – hvernig verður þetta eftir 10 ár eða bara á næsta ári. Það er ekki langt síðan Britney Spears ögraði heiminum með því að ganga um í magabol – getum við ekki bara fengið þá daga aftur?
Felst ekki ákveðin ábyrgð í því hvernig maður ber sig og kemur fram þegar maður er fyrirmynd – hvað finnst ykkur?
EH
Skrifa Innlegg