fbpx

#smearforsmear – strokan er lítið mál!

Lífið Mitt

Ég heillaðist samstundis af skemmtilegri herferð sem starfssystur mínar í Bretlandi hrintu af stað fyrir stuttu. Herferðin nefnist Smear for Smear og felst í því að fá konur til að mæta í krabbameinstékk á leghálsi. Það er greinilegt að minnkandi aðsókn kvenna í þetta einfalda tékk á sér stað um allan heim en ekki bara hér á Íslandi. Ég hef sjálf alltaf haft mjög gaman af bleikum október og geri mitt til að styrkja málefnið ár hvert.

Ég fór fyrst í stroku þegar ég var 17 ára – 20 ára fékk ég frekar leiðinlegt símtal frá kvensjúkdómalækninum mínum það var þá eftir stroku númer 2. Ég greindist með frumubreytingar á fyrsta stigi – í stuttu máli sagt leið mér eins og læknirinn væri að segja mér að ég væri með leghálskrabbamein. Ég vissi reyndar ekki alveg hvað fólst í þessu á þessum tíma en ég man ótrúlega vel að þegar ég skellti á lækninn þá brotnaði ég alveg saman og ég hágrét. Ég hringdi í foreldra mína til að láta þá vita og pabbi kom beint til mín í vinnuna bara til að halda utan um stelpuna sína og láta mig vita að þetta yrði allt í góðu lagi. Ég þurfti svo að bíða í nokkra mánuði þar til ég gæti komið aftur í stroku, það var virkilega erfiður tími og ég var í mikilli óvissu allan tímann. Ég var þó heppin, frumubreytingarnar höfðu staðnað og engin hætta var á ferðum lengur ég þurfti ekki einu sinni að fara í keiluskurð eins og margar aðrar. En eftir þetta var ég í ströngu eftirliti og fór í stroku á 6 mánaðafresti í 2-3 ár. Ég var hjá alveg einstökum lækni og pantaði bara nýjan og nýjan tíma eftir hverja stroku þar til hann tilkynnti mér að nú væri þetta í góðu lagi og ég gæti bara komið á 2-3 ára fresti eins og vani er á. Síðast fór ég í stroku eftir að ég átti Tinna Snæ svo það fer að koma kall á mig von bráðar og ég mun að sjálfsögðu svara því með glöðu geði og mæta með bros á vör í tékk því ég fæ alltaf svo yndislegar móttökur hjá mínum lækni sem gerir þetta svo vel – svo vel að ég finn ekki fyrir neinu.

Mér finnst ekkert endilega þurfa að vera alltaf október bara til þess að minna á mikilvægi þessarar heimsóknar. Þegar ég fer í fína gula sloppinn og kem mér fyrir á stólnum tilbúin að takast nánast á hvolf þá hugsa ég um allt það sem ég vil ekki missa af hvort sem það eru minningar eða tækifæri. Því hvet ég ykkur sem hafið ekki enn farið í stroku eða eruð komnar á tíma til að fara í tékk.

Fyrir ykkur sem hafið ekki farið í leghálsstroku hjá lækni þá er ferlið einfalt og stutt. Þið farið annað hvort til kvensjúkdómalæknis (ég geri það) eða á leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands. Svo var það fyrir stuttu í fréttum að það er verið að efla þessa þjónustu úti á landi og að ljósmæður á Suðurlandi munu sinna sýnatökum þar – frábærar fréttir! Þegar ég fer í tékk til læknis fer ég afsíðis þar sem bíður mín gulur sloppur, ég fer úr að neðan og klæðist sloppnum svo hann sé opinn í bakið, ég sest í stólinn hjá lækninum og stóllinn fer nánast á hvolf. Læknirinn byrjar á því að opna leggöngin með græju sem minnir helst á gogg á önd, þá skoðar hann hálsinn, tekur svo eitthvað sem lýtur út fyrir að vera eyrnapinni sem hann strýkur eftir leghálsinum. Þetta er strokan sem hann sér svo um að koma til skila. Ég fæ svo að koma af hvolfi og stend uppúr stólnum, klæði mig og þakka kærlega fyrir mig. Þetta er einfalt, sársaukalaust og þetta hjálpar manni að slaka á og sofa betur á nóttunni – ég lofa!

Pantið tíma núna – og deilið ykkar varalitastrokumyndum inná Instagram með #smearforsmear eða #strokufyrirstroku til að hvetja kynsystur ykkar til að passa uppá sinn legháls!

knús og kram frá mér***

EH

Varalitadagbók #27 - Lightness of Being frá MAC

Skrifa Innlegg