Ég er með sérstaklega þurrar og leiðinlegar varir. Ég verð bara að nota varasalva á hverjum einasta degi og oft á dag. Ef ég gleymi því þá skrælna varirnar mínar upp, springa og ég byrja að naga þær. Það er leiðindaávani sem endar oftar en ekki í því að ég fæ sár á varirnar sem blæðir úr.
Ég hef vanið mig á það að vera með varasalva alls staðar, í öllum töskum, í vösum á öllum kápum, í vinnunni, í bílnum – alls staðar! Lang oftast nota ég varasalvana frá Blistex – ég bókstaflega dýrka þennan grænbláa klassíska (lengst til vinstri á myndinni). Hann rífur alveg aðeins í varirnar, sérstaklega ef hún er þunn eftir mikið nag. En ég finn mikinn mun um leið og ég ber hann á.
Að naga varirnar er eitthvað sem ég hef gert alltof lengi og mig langar svo mikið að hætta því. Ekki bara fæ ég leiðindasár heldur verða varirnar mínar í leiðinni mislitar og þær eru það alveg nógu mikið fyrir. En þegar maður er með mislitar varir þá getur niðurstaðan verið sú að varaliturinn sem maður er með er ekki ein á litinn yfir allar varirnar. Sérstaklega ef hann er ljós. Svo ef þið eruð eins og ég með þurrar og sprungnar varir þá er gott að venja sig á að skrúbba varirnar reglulega kannski 2-3 í viku eftir ástandi þeirra.
Það eru til sérstakir varaskrúbbar en ég hef aldrei gerst svo fræg að prófa þá. Ég nota alltaf aðferðina sem Kalli frændi minn kenndi mér fyrir mörgum árum og það var að nota rakan þvottapoka til að skrúbba varirnar. Þá nuddið þið bara varirnar í smástund með þvottapokanum – þær verða dáldið dofnar eftir á. Ég geri þetta helst á kvöldin og set svo þykkan varasalva yfir varirnar til að vera á yfir nóttina. Ég geri þetta reyndar líka ef ástandið á vörunum er slæmt og ég er að fara að setja á mig varalit kannski fyrir einhvern viðburð. Það er líka gott að venja sig á að bera á sig varasalva áður en maður setur á sig varalit. Byrjið kannski á því áður en þið farðið restina af andlitinu. Með því að gera það þá nærið þið varirnar vel og þær fá nauðsynlegan raka sem þær myndu annars taka frá varalitnum sem verður þá í staðinn fallegri lengur og endist betur.
Hér sjáið þið þá varasalva sem ég er með á víð og dreif…
Blistex Medicated Lip Balm: Þessi klassíski sem er snilld fyrir þurrar varir í kuldanum – en ég segi aðeins betur frá honum hér fyrir ofan. Kannski fínt að bæta við að hann er mjög mjúkur svo hann rennur auðveldlega yfir varirnar.
Blistex Simple and Sensetive: Þegar ég er ekki slæm í vörunum þá nota ég þennan. Hann inniheldur kókossmjör, jojoba og sólblómafræs olíur. Það er enginn ilmur, ekkert bragð og enginn litur af honum. Bara basic og góður varasalvi sem er mjög auðveldlega hægt að ofnota – sem er ekki slæmt.
Blistex Lip Vibrance. Þessi er mjög léttur og mjúkur og er með ávaxtailmi og bragði. Það er smá litur í varasalvanum sem hentar vel dags daglega. Ég nota hann mikið bara á daginn til að varirnar fái ferskan lit. Það sem er skemmtilegast við hann er að á tappanum er pínulítill og krúttlegur spegill. Algjör snilld að nota þegar varasalvinn er borinn á en þar sem hann er með smá lit er gott að geta passað uppá að liturinn sé jafn!
Hér sjáið þið smá close up af speglinum sem er á varasalvanum.
Ég er búin að næla mér í ansi skemmtilega uppskrift fyrir varaskrúbb sem ég er mjög spennt að prófa – eina málið er að það tekur alveg 2 vikur fyrir hann að jafna sig inní ískáp. En ég ætla samt að prófa og ég segi ykkur frá því þegar þetta vonandi tekst. En undirstaðan í þeim skrúbbi er hrásykur og kókosolía – hljómar alltof vel!
EH
Skrifa Innlegg