Ég hef aðeins verið að lesa mér til um það sem mér finnst best að kalla óhefðbundnar snyrtivörur. Núna í maí fór ég á námskeið hjá henni Ebbu þar sem hún var að fræða mig og aðrar mömmur í mömmuhópnum mínum um holla fæðu fyrir ungana okkar. Hún kom líka aðeins inná hvernig snyrtivörur hún notaði fyrir húðina – falleg húð tengist að sjálfsögðu ekki bara hvað við berum á okkur heldur líka hvað við látum uppí okkur. En alla vega þá minntist hún á að hún notaði kókosolíu mikið – bæri hana á líkamann áður en hún færi í sturtu og skolaði hana þar af sér – einnig notar hún stundum húðsölt sem hún fær t.d. í Heilsuhúsinu. Eftir fyrirlesturinn fór ég beint í Heilsuhúsið til að skoða söltin og fékk þar þær ráðleggingar að það væri gott að blanda þeim saman við t.d. kókosolíu og nudda yfir líkamann í sturtu. Ég er ekki enn búin að prófa en ég ætla að gera það ég fékk bara valkvíða yfir því hvaða tegund af söltum ég ætti að prófa fyrst…
En meira um kókosolíuna þá var ég líka að lesa mér til um að það væri sniðugt að nota hana til að fjarlægja augnförðun. Því miður á ég ekki eina svona krukku frá Sollu til heima, ég er nýbúin með eina – nota alltaf kókosolíuna frá henni í eldamennsku svo bar ég hana líka á skánina sem myndaðist á höfðinu hans Tinna stuttu eftir fæðinguna. En ég þarf að ná mér í nýja og prófa þetta!
Lumið þið á fleiri óhefðbundnum snyrtivörum sem ég verð að prófa?
EH
Skrifa Innlegg