fbpx

Nú er ilmur af vori í loftinu

Ég Mæli MeðEscadaIlmirInnblásturLífið MittSS15

Hér kemur loksins færsla sem er búin að vera alltof lengi í vinnslu. Eina ástæðan fyrir því er seinagangur í komu vorsins. Mér finnst einhvern vegin mjög erfitt að skrifa um vorilmi þegar það er snjór úti en síðustu dagar hafa verið ansi góðir svo nú ætla ég að klára þetta því ef þið eruð eitthvað eins og ég eruð þið löngu farnar að pæla í vorilmunum ykkar.

Mig langar að deila með ykkur mínum topplista – hér eru mínir topp 5 ilmir fyrir sumarið og einn auka sem er ekki alveg eins og hinir en þið þurfið bara að lesa færsluna til að komast að því hvað er svona sérstakt við hann ;)

vorilmir7

Hér sjáið þið ilmina 5 sem ég valdi á listann og fyrir miðju er sá sem kemur skemmtilega á óvart hér síðar í færslunni. Þið verðið að afsaka ég er soddan ilmvatnsáhugamanneskja svo mér finnst þetta sjúklega skemmtilegt!

vorilmir3

Turquoise Summer frá Escada

Ég hef reyndar skrifað um hann áður HÉR. Ég verð alltaf ótrúlega spennt þegar nýtt ár hefst því þá veit ég að það styttist í að nýjasti ilmurinn frá Escada lendir í hillum snyrtivöruverslana. Þessi er alveg æðislegur og mér finnst hann ná að fylgja vel í fótspor ilmanna í fyrra. Á síðasta ári þá komu tveir ilmir frá merkinu, einn nýr sumarilmur sem var svakalega ferskur og með vatnstónum og svo kom Taj Sunset aftur sem er vinsælasti ilmurinn frá Escada frá upphafi. Ilmurinn í ár er virkilega ljúfur og góður – hann er ekta Escada og mér finnst líklegt að að nái að höfða til mjög margra.

Tónar sem einkenna ilminn:
Hindber, Jarðaber, Ferskja, Fjóla, Appelsínublóm, Sandelviður og Vanilla.

Tilfinning:
Þegar ég finn ilminn af Turquoise Summer þá loka ég augunum og læt mig dreyma um að sitja hér á stéttinni fyrir utan á fallegum vordegi þar sem er sól og létt gola. Ég sit og drekk frískandi límonaði með klökum í og held á nýjasta eintakinu af Allure í leit að innblæstri.

vorilmir2

Daisy Eau So Fresh frá Marc Jacobs

Hér er á ferðinni einn besti sumarilmur frá Marc Jacobs sem ég hef fundið síðustu ár. Þegar ég hef verið að vinna við kynningar í verslnum og sýni konum þennan þá heillast þær allar. Þetta er ilmur sem höfðar til svo margra kvenna og mér finnst merkið hafa sannarlega hitt naglann á höfuðið með þessum. Ilmurinn finnst mér vera sætari en hann hefur verið síðustu ár og mér finnst það kostur því vorilmir eiga einhvern vegin betur við þegar þeir eru örlítið sætari svona til að létta stemminguna á heitum degi. Flaskan er svo auðvitað æðisleg og tappinn er sannarlega listaverk eins og áður.

Tónar sem einkenna ilminn:
Mandarína, Eplablóm, Lotus, Magnólía, Jasmín, Fjóla, kremaðar viðarnótur og Musk.

Tilfinningin:
Eins og þið sjáið kannski á flöskunni hef ég notað þennan mikið síðan ég fékk hann. Svo tilfinningin sem hann vekur upp hjá mér er fallegur og bjartur vormorgun svona eins og síðustu dagar. Ilmurinn frískar svo upp á vitin og hefur hressandi áhrif á mig svo ég næ að byrja daginn með stæl.

vorilmir4

Jour Pour Femme eau de parfum Lumineuse frá Hugo Boss

Ilmurinn sem er innblásin af fyrstu sólargeislum dagsins sem endurspegla nýju tækifærin sem hver dagur færir okkur. Mér finnst innblásturinn sannarlega dásamlegur og hér er enn einn glæsilegur ilmur í Femme ilmvatnslínuna frá Hugo Boss. Þessi er ekki bein hugsaður sem vorilmur enda eru þeir í flestum tilfellum eau de toilette en hér er það parfum ilmur. En það er bara þessi innblástur sem vekur þessa tilfinningu um sumar og birtu. Mér finnst hann alveg dásamlegur og eins og ég segi alltaf þá á maður að horfa á hvern nýjan dag sem ný tækifæri til að lifa lífinu lifandi og þá er ilmur eins og þessi tilvalinn til að hefja daginn með.

Tónar sem einkenna ilminn:
Sítróna, Greip blóm, Honeysuckle. Fresía, Lilja, Birki, Amber og Musk.

Tilfinningin:
Það eru þessi tækifæri og jákvæðni sem ég upplifi þegar ég finn þennan ilm. Um leið og ég heyri innblásturinn tengi ég hann strax við ilminn og upplifi innblásturinn í gegnum hann. Hvað er dásamlegra en að úða yfir sig frískandi ilmi á morgnanna á meðan sólargeislarnir umlykja herbergið – ég veit varla hvort það er hægt að hefja dag á betri vegu.

vorilmir6

Bronze Goddess eau fraiche frá Estée Lauder

Þið sem hafið verið að lesa bloggið mitt alla vega í ár núna ættuð að vita að ást mín á þessum ilmi hefur nú lifað í ár. Bronze Goddess er einn af þessum ilmum sem hafa verið til í ýmsum útgáfum síðustu ár frá Estée Lauder. Í ár er ilmurinn með sítrustónum og þar af leiðandi mun frísklegri heldur en ilmurinn í fyrra. Í fyrra var flaskan alveg heilgyllt en nú eru léttari litatónar sem einkenna glasið sem er þó í sömu lögun. Í ár kemur skemmtileg lína í kringum ilminn í sölu hjá merkinu sem ég hlakka mikið til að prófa en ég er aðeins búin að fá að sjá. Bronze Goddess er ekki kominn í verslanir en um leið og hann kemur mun ég láta vita af því hér ég var bara svo heppin að fá sýnishorn svona snemma og geta hitað aðeins upp fyrir heitari daga. Svo á næstu vikum ætla ég að fara í spennandi verkefni hér á blogginu með Estée Lauder sem ég hlakka til að segja ykkur betur frá.

Tónar sem einkenna ilminn:
Bergamot, Appelsína, Sítróna, Mandarína, Tiare blóm, Appelsínublóm, Magnólía, Jasmín, Vanilla, Kókosmjólk, Sandelviður, Myrrh, Vetiver og Amber.

Tilfinningin:
Tilfinningin sem vaknar um leið og maður finnur þennan ilm er fallegur og sólríkur sumardagur. Þar sem maður getur verið berlggja í fallegum sumarkjól og notið þess að vera úti allan dagin – mikið vona ég að við fáum nokkra þannig daga í sumar.

vorilmir5

Dolce Floral Drops Eau de Toilette frá Dolce & Gabbana

Þið munið eflaust eftir einum af mínum uppáhalds sumarilmi frá síðasta ári sem var Dolce frá Dolce & Gabbana. Hann er enn alveg einn sá dásamlegasti sem ég hef fundið og ég þarf eiginlega að fara að taka hann aftur upp núna. En ilmurinn var mjög vinsæll og ekki bara hér heldur um allan heim – sá ilmur var Eau de Parfum en núna fyrir vorið sendir merkið frá sér Eau de Toilette ilm sem heitir Floral Drops. Ilmurinn er talsvert léttari finnst mér en hann heldur samt í einkenni Dolce sem eru þessir dásamlegu blómatónar sem fanga vitin samstundis. Innblásturinn fyrir þennan ilm er dáldið skemmtilegur en ilmurinn á að minna á nýtýndan villtan blómvönd sem hefur verið týndur eftir létta rigningu. Þegar maður heyrir innblásturinn og finnur svo ilminn þá meikar það mjög mikið sens.

Tónar sem einkenna ilminn:
Papaya blóm, Neroli, Vantslilja, Amaryllis, Neroli, Cashmere Wood, Sandelviður og Musk.

Tilfinningin:
Ég fá svona smá nostalgíu frá síðasta sumri þegar ég tek þetta glas upp. Glasið er að sjálfsögðu það sama og á eau de parfum ilminum sem kom á síðasta ári sem var í mikilli notkun hjá mér þá. Ég sé fyrir mér þegar ég loka augunum að ég sé stödd á einhverri dásamlegri vínekru á Ítalíu eða jafnvel í Róm að spóka mig um umvafin sögulegum byggingum og líflegu umhverfi – ó væri það ekki draumur!

vorilmir

Miss Dior Hair Mist Parfum Pour Les Cheveaux

Það ættu allir að kannast við söguna á bakvið Miss Dior ef ekki mæli ég með að þið passið uppá að næsta eintak af Reykjavík Makeup Journal fari ekki framhjá ykkur. Ég heillast af svona sögum og innblæstri en Miss Dior er óður Christian Dior til yngri systur sinnar Catherine Dior. Ilmirnir eru alveg dásamlegir en það er leikkonan Natalie Portman sem hefur verið andlit ilmanna undanfarin ár. Miss Dior endurspegla frelsi, sjálfstæði og hugrekki – eiginleikar sem við búum allar yfir. Í ár kemur nú ilmvatn fyrir hárið frá Miss Dior og mér finnst þetta algjört æði! Þetta er hinn einstaki Miss Dior ilmur sem maður fær að upplifa aftur og aftur á meðan léttar golur leika um í hárinu. Ég get ekki beðið eftir að fá að prófa þennan svona almennilega en við höfum nú ekki beint fengið golur hér síðustu vikur þetta eru meiri vindhviður. Glasið er það sama og einkennir Miss Dior ilmina – houndstooth munstrið einkennir hliðar glassins en það eina sem vantar er kannski slaufan en við getum nú fyrirgefið það. Þetta er sumsé ilmurinn sem er samt ekki beint eins og hinir í færslunni. Þessi gefur manni kost á að fá að upplifa ilm á annan hátt en þennan týpíska.

Tónar sem einkenna ilminn:
Bergamot, Rós, Jasmín, Patchouli og Musk

Tilfinningin:
Ég upplifi þennan eins og á að upplifa hann, ég sé fyrir mér að ég sé að labba meðfram strönd og ég finn hafgoluna leika um hárið mitt og fæ að upplifa ilminn með hverri golu á meðan hárið leikur um andlit mitt.

Þetta er minn topplisti og mikið vona ég að hann geti nýst ykkur á einhvern hátt. Nú er tækifærið til að grípa sér nýjan ilm fyrir vorið eða sumarið og það er enginn sem segir að maður þurfi bara að velja einn. Ég vel ilm fyrir hvern dag eftir líðan minni og reyni frekar að velja ilm í takt við ástandið sem ég er í eða í takt við ástandið sem ég vil koma mér úr.

Njótið dagsins og tökum fagnandi á móti nýrri og frekar stuttri og skrítinni vinnuviku – ég hlakka samt til þar sem ég mun eyða miklum tíma með Tinna Snæ það er alltaf kostur!

Seinna í dag er það svo fyrir & eftir færsla með myndum af svefnherberginu okkar Aðalsteins…

EH

Vörurnar sem ég skrifa um hér fékk ég sendar sem sýnishorn Það hefur þó engin áhrif á álit mitt á vörunum og eins og alltaf veiti ég hreinskilið álit.

Varalitur til að fagna 23. viku!

Skrifa Innlegg

Skilaboð 1

  1. Svart á Hvítu

    19. April 2015

    Bronze goddess!! Það sem ég er búin að leita af þessum ilmi og afgreiðsludömurnar sem ég hef reynt að lýsa ilminum fyrir vissu ekkert…. típískt get ég s.s. ekki nælt mér í ilminn frá því í fyrra? Minnti mig svo á sólarlönd:)