fbpx

Mömmutips: hlýjar sokkabuxur fyrir íslenskan vetur

MömmubloggTinni & Tumi

Ég er svona ein af þessum mömmum sem er svakalega hrifin af sokkabuxum og ég set Tinna Snæ voða mikið í sokkabuxur og þá sérstaklega á haustin og veturna – reyndar líka á vorin, veðrið er nú yfirleitt ekki uppá marga fiska hjá okkur þá. En eitt er að mér hefur alltaf fundist svo erfitt að finna sokkabuxur á stráka hér heima. Þegar Tinni var lítill versluðum við sokkabuxur mikið á hann þegar við fórum út í H&M. Þar var ekkert til í þessum minnstu stærðum á stráka nema hvítar og það var einhvern vegin skárra en ekekrt. En vá hvað sokkabuxurnar þynntust hratt, þær eru eiginlega bara ónýtar svo sokkabuxnamamman á eiginlega ekkert á hann Tuma litla. Það er alveg ótrúlegt hvað það er lítið úrval af sokkabuxum á stráka hér á Íslandi – það er fullt til á stelpur og ég keypti stundum alveg stelpu sokkabuxur á Tinna Snæ – þessar sem voru svona eins venjulegar og hægt var að finna s.s. ekki með blúndu eða bleikum blómum á.

En ég er búin að vera að hafa augun opin fyrir litlum sokkabuxum á Tumalinginn, ég ákvað að kaupa ekki þessar þunnu í H&M í sumar og bara taka sénsinn að ég myndi finna einhverjar góðar hér heima. Mér fannst nefninlega svo gott að hafa Tinna í góðum sokkabuxum og svo í flísgalla og svo í svefnpoka og útí vagn. Í sokkabuxum er einhvern vegin minni hætta á því að þær renni af og fæturnir verði kaldir eða þá aðallega táslurnar. Ég fæ alltaf svona smá mömmu samviskubit þegar ég sé að Tumi hefur misst sokkana sína og tærnar orðnar kaldar. Ég fann loksins fullkomnar sokkabuxur sem standast þessar pælingar mínar og þær fást hér heima – jess!

tumadress5

Ullarsokkabuxur úr Name It, þær fást í bleiku og bláu auk gráa litarins sem ég keypti. Fyrir áhugasamar þá kosta þær 1790kr stykkið.

Ég ákvað að vera ekki að skrifa um þær nema þæ myndu standast mínar kröfur – ótrúlegt hvað ég get verið miklu harðari varðandi kröfur þegar kemur að barnafatnaði en ekki mínum eigin ;) Föt þurfa að mínu mati að þola nokkrar ferðir í þvottavélina og þá helst með erfiðum blettum. Fötin þurfa að falla vel að líkama barnanna, vera þægileg og mega alls ekki valda óþægindum eins og kláða og svona. Börnum þarf að mínu mati að líða vel í fötunum og þau verða að geta leikið sér og hreyft sig eins og þau vilja og geta. Jæja Tumi er svo sem ekkert að hoppa og skoppa hér um allt en hann er einstaklega laginn við að sparka af sér öllum sokkum þó ég togi þá alveg upp yfir hnén og reyni eftir fremsta megni að gera það sem ég get svo þeir haldist á. Þessar sokkabuxur standast mínar kröfur og það er svo mikill kostur að þær séu ullarsokkabuxur svo þær eru fullkomnar útí vagninn núna í haust.

Þessar sokkabuxur eru strax komnar í mikla notkun og ég þarf að kaupa fleiri handa Tuma því ég hef ekki undan við að þrífa þessar – blái liturinn verður keyptur næstur :)

EH

Lancome að hætti Caroline de Maigret

Skrifa Innlegg

8 Skilaboð

  1. Þórunn

    23. September 2015

    Nei ég verð bara að vera ósammála. Nú hef ég átt sokkabuxur frá HM, POP og akkúrat þessar úr Name it á 14 mánaða dóttur mína og mér finnst einmitt þessar úr Name it endast hrikalega. POP og HM hinsvegar sést ekki á og stækka alveg með barninu. Vona að þín reynsla af Name it verði betri :)

    • Reykjavík Fashion Journal

      23. September 2015

      haha já og ég er alveg hjartanlega ósammála þér – svona er nú gaman að allir eru ólíkir :) En gott þú hefur fundið það sem hentar þér! En svo er það nú líka bara það að úrval af sokkabuxum á stráka er alveg hrikalegt… þ.e. ef manni langar að eiga kannski fleiri en eina týpu :(

  2. Dóra Sif

    23. September 2015

    Þá mæli ég svo sannarlega með því að þú kíkir í bíumbíum- margar, margar tegundir af dásamlegum sokkabuxum í “strákalitum”, ull, bómull, ull/bómull og bambus- skal hjálpa þér að finna hlýjar og góðar á Tinnann þinn ;-) xxx

    • Reykjavík Fashion Journal

      23. September 2015

      Slegið! Ég kem í vikunni – ég er reyndar alltaf á leiðinni til þín en nú lofa ég að ég skila mér á áfangastað***

  3. Eva Björk Hickey

    23. September 2015

    Ég er sammála Þórunni! Mér finnst Janus ullarsokkabuxurnar bestar :)

  4. Helga Reynis.

    24. September 2015

    Ég má til með að benda þér á þessar dásamlegu ullarvörur: https://www.facebook.com/lanaullarvorur. Gamla, góða og sígilda íslenska framleiðslan á stóra jafnt sem smáa! :)

  5. Sara

    24. September 2015

    Ullarkistan á Laugavegi er líka með geggjaðar ullarsokkabuxur, líka á stóra stráka :) mæli með þeim!