fbpx

Mín upplifun, með & án fæðingarþunglyndi

MeðgangaMömmublogg

Mig langar að segja ykkur sögu, sögu af mér, litlu mér sem dreymdi ekkert heitar en að verða mamma þegar ég var lítil stelpa. Hlutverkið heillaði mig uppúr skónnum – að eiga afkvæmi sem ég myndi elska heitar en allt annað í heiminum og það myndi elska mig líka. Ég upplifði drauminn minn rætast þegar ég varð ólétt í byrjun ársins 2012 – sá draumur rættist ekki þegar úr varð að fósturvísirinn hvarf að mér fannst jafn hratt og hann varð til. Sár grátur vegna brotinna drauma einkenndi næstu daga, líkamlegur og andlegur sársauki var meiri en ég hefði nokkur tíman geta ímyndað mér. En vitiði hvað draumurinn minn rættist aftur, 4 vikum eftir að ég missti fóstur var komið nýtt og þann 30. desember fæddi ég yndislega Tinna Snæ sem er það fallegasta sem ég hef á ævinni gert.

Vegna fósturlátsins var meðgangan erfið, ég setti upp þykka brynju og bar mig vel útá við en inní mér var mikill ótti, ótti við að missa aftur. Ég sagði sjálfri mér að ég gæti fundið hjartsláttinn hans í gegnum magann ef ég legði hendurnar nógu þétt uppvið magann. Það róaði mig niður, ég fann einhvern slátt, ég get ekki útskýrt það en ætli þetta hafi ekki verið mín leið til að komast í gegnum meðgönguna. Þegar hreyfingar byrjuðu þá hélt ég stundum niðrí mér andanum á milli þess sem ég fann þær og ekki. Ég var svo hrædd, en ég sagði það engum. Ég var enn að syrgja hinn drauminn og hafði ekki gefið sjálfri mér nægan tíma til að gera það því ég var bara svo hrædd. Hræðslan breyttist í mikinn kvíða, mikil kvíðaköst sem ég átti bara sjálf inní mér einni. Stundum langaði mig bara til að vera ein, loka mig einhvers staðar inni og halda utan um kúluna mína og bara bíða þar til drengurinn væri kominn í hendurnar á mér, þá myndi ég sko njóta og vera glöð.

Ég varð ofboðslega glöð þegar Tinni Snær fæddist, ég varð svo hamingjusöm og svo ástfangin af þessum fallega dreng sem gerði líf okkar svo miklu betra en áður. En kvíðin var enn til staðar, ég var svo hrædd um að missa hann. Ég svaf ekki af ótta við að einhver myndi koma og taka hann af mér, að það yrði brotist inn og hann væri tekinn. Ég fór að upplifa þessar aðstæður mjög raunverulega og alltaf gekk hausinn minn lengra og lengra þar til allt í einu ég varð gerandinn og ég sá mig sjálfa skaða barnið mitt eða sjálfa mig. Ég hágrét og sagði engum. Ég þorði ekki að segja neinum því mér fannst eitthvað vera að mér. Ég lokaði mig af og vildi engan hitta og engan sjá, ég sökkti mér í vinnu, verkefni og bloggfærslur því allt skyldi jú fullkomið vera á yfirborðinu því það var þannig hjá öllum öðrum.

Ég varð stundum alveg ofboðslega pirruð og fannst ég vera svo föst, mér fannst ég ekkert getað gert, ekkert getað farið og heimsins minnstu vandamál voru á stærð við fullvaxta fíl og gjörsamlega óyfirstíganleg. Einn mesti sársauki sem ég upplifði var daginn fyrir nafnaveisluna hans Tinna ég hágrét því ég gat ekki bakað snúða ég fékk deigið aldrei til að hefast og ég upplifði mig sem gagnslausa móður. Ég gerði miklar kröfur á sjálfa mig og ef mér tókst ekki eitthvað dæmdi ég mig strax misheppna og óhæfa móður.

Ég man ekki eftir fyrstu vikunum í lífi hans Tinna, allt rennur saman, ég get jú séð svona smá í hausnum á mér ef ég sé myndir frá þessum tíma en ekki nema með aðstoð þeirra.

Ég grét og reifst og skammaðist við minn nánasta og gekk svo langt að ég ætlaði á tímabili bara að labba út. Mér leið svo illa og ég gat ekki útskýrt afhverju – ég vissi eiginlega ekki sjálf hvað var að gerast fyrir mig af því ég sá það ekki sjálf, fyrir mér var þetta raunveruleikinn. En ég man hvernig ég passaði alveg ofboðslega vel uppá að engan myndi gruna að neitt væri að. Ég held það hafi líka verið af því ég hélt að svona ætti þetta bara að vera og svona myndi þetta bara alltaf verða og enginn mátti fá að sjá sársaukann sem var innra með mér.

Ég þáði að lokum hjálp, seint og síðar meir, stundum hugsa ég tilbaka og skamma sjálfa mig fyrir að hafa séð þetta alltof seint en þá stoppa ég og man hvað ég er bara heppin að hafa fengið hjálp og vera búin að fá hana.

Ég hef verið í meðferð hjá yndislegum þerapista og yndislegum geðlækni sem hafa hjálpað mér við að átta mig á því almennilega hvað gekk á og hjálpa mér að rekja óttann og kvíðan til upprunans. Þær eru enn að hjálpa mér og þó ég taki smá pásur af og til þá er ég ekki enn tilbúin til að sleppa takinu.

Þegar ég varð ólétt af Tuma þá tók ég mjög stóra ákvörðun, ég skyldi ekki vera eins og áður. Tæpu ári áður en ég varð ólétt af Tuma missti ég aftur fóstur, við vissum hvorugt af því að það væri og grunaði ekki einu sinni. En þá gat ég andað inn og andað út, ég gat sagt sjálfri mér rólega hvað hafði gerst og ég leyfði sjálfri mér að syrgja, mér þótti það gott þó ég hafi ekki vitað af því þá var þetta að sjálfsögðu smá áfall, að fá eitthvað og missa það bara á sama augnabliki.

Meðgangan með Tuma gekk langt í frá áfallalaust fyrir sig eins og kannski margir vita. Um leið og ég fann að ég var að detta í sama far og áður þá kallaði ég á hjálp og ég fékk hana. Ég var opin fyrir hjálpinni því ég ætlaði svo sannarlega ekki að upplifa þennan sársauka aftur. Meðgangan var mjög erfið, þá helst líkamlega sem hafði auðvitað áhrif á andlegu hliðina en ég komst í gegnum hana einhvern vegin og ég held að með hjálp frá góðu fólki, ljósmæðrum, þerapista og fjölmörgum læknum að ógleymdum klettinum mínum, eiginmanninum þá hafi þetta farið á góða veginn.

Í dag er hjartað mitt svo uppfullt af ást að það liggur við að það springi af hamingju. Ég og Tumi erum svo góð saman og við spjöllum saman, leikum okkur, horfum stundum á teiknimyndir það má alveg, förum í labbitúra, hittum fólk og að sjálfsögðu eyðum við miklum tíma með hinum strákunum okkar. Við erum að ná að tengjast svo vel af því ég fékk skilning, ég fékk fræðslu og ég fékk hjálp. Eitt af því sem ég fékk aðstoð við var að læra að tengjast börnunum mínum, ég lærði það að það er ekkert sjálfgefið en það kom hjá mér og ég nýt þess svo mikið að vera mamma nú meira en nokkru sinni áður.

Screen Shot 2016-01-12 at 10.21.37 PM

Að vera með nýfætt barn og fæðingarþunglyndi var ofboðslega undarleg upplifun, ég var svo dofin og ekki í sambandi einhvern vegin en ég náði að fela það alveg ofboðslega vel. Að vera með nýfætt barn og ekki fæðingarþunglyndi er það besta í heimi, ég svíf um á bleiku skýi.

Elsku foreldrar, mæður og feður, viljið þið gera mér og ykkur þann greiða að leita ykkur aðstoðar ef þið finnið að það sé eitthvað sem er ekki rétt. Það er svo lítið mál að biðja um hjálp, það er minna mál en mig óraði nokkur tíman fyrir. Að verða foreldri er það besta sem hefur komið fyrir mig, að fá að upplifa þennan ómetanlega tíma sem fyrstu vikur í lífi barns eru án þess að vakna full af kvíða, sofa ekki útaf áhyggjum og að upplifa það að maður sé að tengjast þessum pínulitla einstaklingi órjúfanlegum böndum er magnað.

Ég þáði ekki hjálpina fyr en ég var tilbúin fyrir hana sjálf, fyr en ég var opin fyrir því að ég vildi fá hjálp. Ef ég tala fyrir sjálfa mig þá fannst mér erfitt þegar mér leið eins og það væri verið að þröngva uppá mig hjálp sérstaklega af því mér fannst ég ekki þurfa á henni að halda – munið að það er erfitt að hjálpa einhverjum sem vill ekki hjálp. En tíminn kom hjá mér, sem betur fer sá ég það sjálf.

Í dag sit ég þó og hugsa um stóra stubbinn minn, ég missti af þessu og ég vildi óska þess, í alvörunni ef ég fengi eina ósk uppfyllta þá væri sú ósk að fá að upplifa svona tíma eins og ég á með Tuma með Tinna Snæ. Ég veit ég má ekki hugsa svona heldur á ég að njóta tímans og stundanna sem við eigum saman nú. En þetta er mitt næsta verkefni að komast í sátt við þunglyndið mitt og að fyrirgefa sjálfri mér fyrir að hafa brugðist.

Screen Shot 2016-01-12 at 10.20.58 PM

Mögulega getur mín frásögn og mín upplifun hjálpað ykkur, hvatt einhvern þarna úti sem er í vafa til að biðja um hjálp. Þó það sé ekki nema ein manneskja þá verð ég sátt.

Ást,

Erna Hrund

Nude varir áberandi á Golden Globes

Skrifa Innlegg

15 Skilaboð

  1. Hildur

    12. January 2016

    Mikið ofboðslega eru þessi skrif góð og svo mikið það sem ég þurfti einmitt að lesa núna!

  2. Karin

    12. January 2016

    ❤️

  3. Svart á Hvítu

    12. January 2016

    Þú ert nú meiri dásemdin, það sem þessi færsla mun koma til með að hjálpa mörgum sem standa í þessum sporum. :*

  4. Lilja Björk

    13. January 2016

    Það þarf hugrekki til að viðurkenna að maður þurfi hjálp.
    Vel skrifað og ég er viss um að þetta hjálpar mörgum.

  5. Rúna Dís Jóhannsdóttir

    13. January 2016

    Þú ert svo sterk Erna! Það ættu allir að líta upp til þín <3

  6. Hanna

    13. January 2016

    ❤️

  7. Halla

    13. January 2016

    Flott og einlæg frásögn ! ♡

  8. Klara

    13. January 2016

    Dásamleg skrif, svo sannarlega þörf. Alls ekki sjálfgefið að bleika skýið birtist við fæðingu þessara gullmola okkar

  9. Sóley

    13. January 2016

    Flott hjá þér að tala opinberlega um þetta, það eru miklu fleiri í þessum sporum en vilja viðurkenna. Gangi þér vel að vinna úr þessu – það var bara eitt sem stakk mig þarna í lokin og það voru þessi orð: “…að fyrirgefa sjálfri mér fyrir að hafa brugðist.” Þú mátt ekki og átt ekki að hugsa að þú hafir brugðist. Þú gerðir þitt besta og svona veikindi eru eitthvað sem enginn sér fyrir. Mundu það – þú brást engum, og allra síst stráknum þínum. Kær kveðja og ljós til þín.

  10. Unnur Lár

    13. January 2016

    Elsku Erna Hrund. Þú veist ekki hveru mikið hrós þú átt skilið! Virkilega fínn og einlægur pistill – þú stendur þig vel.
    Knús! xx

  11. Hjördís

    13. January 2016

    Takk fyrir þarfan og einlægan pistil, þú ert ekki sú fyrsta sem ég veit um sem hefur liðið svona illa á meðgöngu og fyrstu mánuðum barnsins, eftir fósturmissi. Ég vona að lestur pistilsins hvetji mig til þess að koma mér í að leita mér hjálpar eftir minn fósturmissi og getað notið næstu meðgöngu til hins ítrasta ❤️ Fósturmissir er það erfiðasta sem ég hef gengið í gegnum. Gangi þér sem allra best elskuleg.

  12. Elísabet Heiðarsdóttir

    14. January 2016

    Mikið rosalega ert þú sterk Erna Hrund! :) Það er ekki auðvelt að segja frá svona hlutum, en það að þú sért tilbúin að segja frá þínum veikindum á eflaust eftir að hjálpa mjög mörgum sem lenda eða hafa lent í svipuðu.
    Mér finnst svo fallegt þegar kona eins og þú sem veit að hún hefur mjög stóran lesendahóp nýtir það til svona góðra hluta :) Áfram þú! :)

  13. Guðrún H.

    14. January 2016

    Þegar þú fórst í viðtal í vikunni þá fyrst bað èg um hjálp! Hjálpaði mér mikið að vita að èg væri ekki ein sem sem hef lent í þessu! Takk fyrir að segja frá ert ótrúlega sterk! ❤

  14. Lóa

    4. February 2016

    Einstaklega hjartnæm og vel skrifuð færsla sem án efa hefur og á eftir að hjálpa mörgum í samskonar aðstæðum.

  15. Pingback: Erna Hrund:„Ég sá mig sjálfa skaða barnið mitt eða sjálfa mig“ - DV