fbpx

Meðganga, taka tvö!

Lífið MittMeðganga

Ég hef alltaf verið voðalega hreinskilin og opin varðandi líf mitt á blogginu mínu og það er ólíklegt að það breytist eitthvað á næstunni. Eins og þið kannski vitið flest þá er ég þessar vikurnar að upplifa meðgöngu með barn nr. 2, í heildina er þetta þó meðganga nr. 4 en tvær þeirra enduðu mjög snemma eins og ég hef áður sagt ykkur frá. Ég ef stundum heyrt að skrif mín hafi mögulega hjálpað öðrum í sömu stöðu og ég svo því ákvað ég að skella í eina persónulega færslu svona í miðjum veikindum og spítalaheimsóknum til að fara yfir meðgönguna eða fyrstu 20 vikurnar en núna á laugardaginn er ég hálfnuð með þennan rússíbana sem meðganga er.

Fyrst langar mig að byrja á því að segja að meðganga nr. 2 er á margan hátt mun auðveldari en sú fyrsta á þann hátt að ég er miklu rólegri, ég veit hvað er að gerast þegar ég fæ massívan verk í kviðinn ég veit að ég verð orkulaus af því að ég fæ svoa lágan blóðþrýsting, ég veit að það er eðlilegt að ég bresti í grát yfir öllu og engu og ég veit að það er rökrétt útskýring á öllu sem er á gangi í líkamanum mínum.

Screen Shot 2015-03-24 at 12.33.58 PM

En svo við byrjum nú á byrjuninni…

Ég var stödd í vinnunni í Vero Moda einn morguninn og mér leið svona svakalega illa, mér var svo rosalega óglatt og nú hélt ég bara að það væri komið að einhverri heiftarlegri magapest hjá mér. Í hausnum laumaðist auðvitað sú hugsun að mér, hvort ég væri mögulega komin eitthvað framyfir – ekki séns ég gæti munað það, ég hef aldrei getað munað það. En ég ákvað að fara heim og ég kom við inní Lyfju og keypti mér óléttupróf. Ég fór beint heim, byrjaði á því að kasta all hressilega upp og pissaði svo á prikið. Þið sem hafið fengið jákvætt óléttupróf vitið hvernig tilfinningin er – þetta eru milljón tilfinningar sem maður upplifir á einni sekúndu – þeirri sekúndu sem bleika strikið birtist í glugganum. Svo tekur við nett sjokk, smá panikk kast en svo getur maður ekki annað gert en að brosa útaf eyrum. Ég tók strax upp símann og hrindi í pabbann, bað hann að fara afsíðis og sagði honum fréttirnar – ég held að hann hafi svo sem ekki gert neitt annað en brosað útaf eyrum það sem eftir var vinnudagsins:)

Þetta var yndislega byrjunin á meðgöngunni, vikurnar sem komu á eftir áttu ekki eftir að verða jafn yndislegar en við tóku margar vikur af uppköstum og yndislegheitum en ég kastaði reglulega upp fram yfir 14 viku. Meðgangan byrjaði þó með hvelli – sem var þó eiginlega hnerr… En hvort það var bara tveimur dögum eftir að ég komst að því að ég væri ólétt þá var ég að skríða á fætur, fara fram og taka vítamínin mín og ég hnerra svona svakalega harkalega. Sko ekkert eitthvað lítið ég kastast beint fram yfir mig og ég festi grindina mína… svona öllu gríni sleppt þá voru næstu dagar hræðilegir, ég gat ekki rétt úr mér, ég var sárkvalin og gekk á milli sjúkraþjálfara, ég lá á hitateppi og með kælingu á bakinu til skiptis til að reyna að stilla verkina því bæði hef ég aldrei verið neitt sérlega hrifin eg verkjalyfum heldur má ég náttúrulega ekki taka mikið þar sem ég var ólétt. Þetta allt gerðist 5 mínútum fyrir jól, ef þið munið eftir því þá hvarf ég af blogginu rétt fyrir jól en ég gat engan vegin skrifað ég labbaði um eins og níræð kona og ældi svo eins og ég fengi borgað fyrir það – getið þið ímyndað ykkur hvað maður var glamorous…!

Fyrstu vikur meðgöngunnar voru samt alveg ótrúlega fyndnar því ég var bara komin með smá kúlu þegar ég var rétt gengin nokkrar vikur. Kúlan mætti bara strax og hefur dafnað vel síðan þá, ég vil meina að húðin mín sé í svona svakalega góðri æfingu eftir síðustu meðgöngu já og svo eru það þessi dásamlegu slitför sem gera það að verkum að húðin gengur bara út eins og harmonikka. Svo er kúlan með sinn sjálfstæða vilja, hún er stór einn daginn, þann næsta er hún voða lítil og pen ég skil stundum ekki hvað er í gangi enda löngu búin að átta mig á því að líkaminn minn er með sinn sjálfstæða vilja á þessari meðgöngu. En þar sem það sást snemma mjög vel á mér það og ég var endalaust ælandi, eitt af mínum minnistæðustu æluköstum voru fram á gangi í Smáralind, ég hljóp fram á gang, greip með mér poka og faldi mig á bakvið ruslatunnu og ældi – haldið að maður sé glæsilegur! Ég vil meina eins og svo margar af mínum kynsystrum að það sé enginn meðgönguljómi, þetta er bara sviti frá augnablikum sem þessum ;)

Með þessari stóru kúlu fylgdi það svo að auðvitað sáu langflestir á mér að ég væri ólétt löngu áður en ég tilkynnti það eftir 12 vikna sónarinn. Föt voru löngu hætt að passa og það var áskorun að klæða sig á hverjum degi þannig að það sæist ekki skýrt og greinilega á mér. Eitt af skemmtilegustu augnablikunum var þó þegar hann Binni ljósmyndari sem tekur myndirnar fyrir Reykjavík Makeup Journal spurði í meira gríni en alvöru hvort ég væri að verða jafn feit og hann – við hlógum bæði lengi eftir það og eigum nú smá einkabrandara á milli okkar – þá var ég komin um 9 vikur… Þetta var líka ástæðan fyrir því að kvöldið eftir 12 vikna sónarinn fór tilkynning inná Facebook og daginn eftir gat ég loksins klætt mig eins og mig langaði til og bara leyft kúlunni að standa út.

Screen Shot 2015-03-24 at 12.33.35 PM

Eftir að ógleðin hætti gat ég loks aðeins fengið að njóta mín, orkan var þó ekki alveg full og blóðþrýstingurinn frekar mikið lár. Þar sem ég átti sérstaklega erfiða fæðingu með Tinna Snæ, bæði var hún mjög löng og svo missti ég mikið blóð. Í þannig tilvikum er partur af mæðraverndinni á næstu meðgöngu að hitta fæðingalækni og fara yfir fæðinguna og hann útskýrir þá hvað það var sem varð til þess að svona fór. Ég hitti alveg dásamlegan lækni með ljósmóðurinni minni sem fór yfir fæðinguna og áhættuþættina sem lágu fyrir og gerðu það að verkum að fæðingin endaði eins og hún gerði. En ég missti um einn og hálfan lítra af blóði og þegar það gerist hjá mér er engin leið að koma í mig næringu, eitt af því minnisstæðasta úr fæðingunni eða því sem gerðist eftir fæðinguna var að ég lá í rúminu, emjaði af þreytu. Öðru megin við mig voru þrjár ljósmæður að reyna að koma í mig nál, þar megin lá Tinni í vöggunni sinni og Aðalsteinn sat hálf vankaður í hægindastól við hliðiná mér að reyna að botna í þessu, í klofinu á mér var fæðingalæknirinn og læknaneminn sem tóku á móti Tinna að reyna að stoppa blæðinguna og komast að því hvað væri að valda henni, við vinstri hendina stóðu svo þrjár aðrar ljósmæður að reyna að koma í mig nál, yfir þessu öllu stóð svo mín ljósmóðir og stjórnaði aðgerðum og í fjarska sá ég móta fyrir konu sem reyndist svo vera svæfingalæknir sem beið eftir að fá skipun um hvort það þyrfti að rúlla mér inná skurðstofu. Þetta var ótrúlega skrítin stund en ég var með svo yndislega ljósmóður að þegar allt róaðist settist hún niður hjá mér og fór yfir með mér hvað hafði komið fyrir og hvers vegna þær hefðu ekki getað sagt mér hvað var í gangi á þessum tíma. Fæðingarlæknirinn sem ég hitti nú fyrir stuttu útskýrði þetta svo enn betur. Þrátt fyrir allt þetta og langa fæðingu þar á undan þá er ég voða róleg fyrir þá næstu þar sem allt bendir til þess eða líkurnar benda til þess að þessi fæðing muni ganga mun hraðar fyrir sig.

Ég fór með mjög opið hugarfar inní síðustu fæðingu og ég ákvað að plana lítið sem ekkert fyrir utan það að taka fullt af skemmtilegum þáttum með okkur í tölvuna til að hafa uppá spítala það var ákvörðun sem við sáum lítið eftir – (30 tímar takk!) – og ég ætla að gera slíkt hið sama núna. Ég fékk mænudeyfingu síðast og takk fyrir hún bjargaði lífi mínu og ég mæli með henni við allar konur sem ég hitti. Ég er enn í dag voðalega bara róleg fyrir fæðingunni uppá spítala starfa konur sem gera lítið annað en að taka á móti börnum allan daginn og þær eru bara langbestar í þessu.

En aftur að meðgöngunni, eins og ég segi þegar ógleðin kláraðist var þetta nú bara orðið frekar mikið ljúft svona fyrir utan svefnleysi af völdum endalausra pissuferða… þá komu næstu ósköp. Ég rann beint á olnbogann og á grindina í hálku á bílastæði fyrir utan Smáralind með þeim afleiðingum að úlnliðurinn brotnaði og grindin mín logar af sársauka þessa dagana. Já takk fyrir pent ég hef ekki átt þá marga dagana sæla eða áfallalausa á þessari meðgöngu og brotið já og sársaukinn í grindinni eru að fara með mig þessa dagana. Það er auðvitað ekkert gaman að brotna í sama hvaða ástandi sem maður er en ég vinn að sjálfsögðu mest með höndunum svo þetta hefur komið sér sérstaklega illa fyrir mig. Hendina þurfti að toga í sundur og setja á réttan stað þar sem hún færðist til um einhverjar gráður. Ég verð í gifsi í rúmar 5 vikur og þá á eftir að fara yfir hvernig útlitið er. Ég fer svo í lok vikunnar til sjúkraþjálfara til að láta meta grindina og það eina sem ég hræðist nú er að fallið hafi gert það af verkum að líkaminn minn muni segja stopp mun fyr við vinnu heldur en annars. Svo áfram ligg ég á hitateppinu góða og reyni að létta á sársaukanum. Það var síðan ekki fyr en eftir þegar sjokkið yfir brotinu var svona aðeins búið að jafna sig sem ég áttaði mig á því hvað allt hefði getað farið mun verr, ef ég hefði lent öðruvísi, ég vil helst ekki hugsa um það…

En verður maður þó ekki að reyna að líta á björtu hliðarnar, ég er brotin á vinstri og er rétthent svo þessa dagana geri ég mest með bara hægri hendinni. Ég er ólétt svo ég fékk svakalega góða þjónstu og ummönnun uppá spítala. Ég kann ekki við sterk verkjalyf og er því komin með svakalega háan sársaukaþröskuld fyrir fæðinguna. En vitið þið hvað er verst… ég get ekki haldið á barninu mínu, ég get ekki fyrir mitt litla líf náð að halda á Tinna Snæ sem er einhver versta tilfinning í heimi og ef þið hafið upplifað það þá veit ég að þið eruð sama sinnis.

Screen Shot 2015-03-24 at 12.33.15 PM

Nú myndu margir segja stopp, er þetta ekki komið gott er þessi ólétta kona ekki búin að upplifa nóg… neibb þetta er ekki búið enn. Þið getið venjulega gert ráð fyrir því að eitthvað gangi á þegar ég hverf af blogginu í einhverja daga án þess að láta af því vita. Á föstudaginn bankaði flensan upp á heimilinu með vin sinn magakveisu, það er skemmst frá því að segja að ekkert hefur haldist í líkama mínum frá föstudeginum og ég er loksins í dag að eiga góðan dag. Ég er búin að vera í einangrun uppá slysó og með næringu í æð uppá kvennadeild. Hrós á allt þetta yndislega fólk skilið frá mér sem vinnur uppá slysó og inná kvennadeild Landspítalans ásamt ljósmóðurinnni minni – allt einstakt fólk sem hugsar svo vel um mann þegar eitthvað bjátar á. Ég er búin að fara tvisvar í sónar á síðustu dögum og ekkert bendir til þess að þetta hafi haft áhrif á litla krílið okkar. Nú er bara að safna saman kröftum og setja heilsuna í fyrsta sæti.

Svona eru mínar fyrstu 20 vikur búnar að vera, þetta er sko ekki viðburðarlítil meðganga en vá hvað hún er miklu léttari og vá hvað mér líður miklu betur andlega. Ég er svo pollróleg yfir krílinu og nýt þess nú að finna það hreyfa sig inní maganum. Fyrstu hreyfingarnar komu mjög snemma og spörkin fylgdu svo fast eftir en fyrsta sparkið fann ég á 15. viku sem er nú heldur snemmt en bara dásamlegt. Það er alveg einstakt að fá að ganga með heilbrigt barn og ég hlakka til að sjá það aftur í 20 vikna sónar á mánudaginn. Í þetta sinn viljum við þó ekki vita kynið og hlökkum til að fá að upplifa það þegar barnið er komið í heiminn. Mér finnst samt voða fyndið að fólk er enn æstara í að giska á kynið þegar það heyrir að við viljum ekkert vita og flestir virðast vera sammála um að krílið sé stelpa en ég reyndar held að það sé aðallega af því að við eigum strák fyrir. Mér persónulega gæti ekki staðið meira á sama og fyrir mér skiptir mestu máli að barnið verði heilbrigt og hamingjusamt.

Nú vona ég að þetta sé komið gott hjá mér… eruð þið ekki sammála… en svo er alltaf pælingin hvort þetta verði bara svona alla meðgönguna, þá læt ég nú bara leggja mig inn það sem eftir er takk fyrir!

EH – verðandi tveggja barna móðir :)

Gjafaleikur með Bianco!

Skrifa Innlegg

4 Skilaboð

 1. Heiða

  24. March 2015

  Úff knús á þig en gott að krílinu líður vel. Vona að seinni helmingurinn af meðgöngunni verði rosalega góður.

 2. Helena

  24. March 2015

  Úfff….fall er faraheill segi ég nú bara. Seinni helmingurinn hlýtur að verða góður hjá þer. Vont að þú skildir detta því grindin er svo viðkvæm á meðgöngu. Ég var algjört case með grindargliðnun og þurfti að hætta snemma að vinna. Nú kvíði ég mest þegar ég verð ólétt næst að geta einmitt ekki haldið á barninu mínu. Því yfirleitt versnar þetta með hverju barni og þá verð ég nú bara í hjólastól held ég næst:S

 3. Sigrún

  24. March 2015

  úff jesús!! Gangi þér sem allta best❤️

 4. Karen Andrea

  24. March 2015

  Úff, gangi þér sem allra best á seinni helmingnum, vona að hann verði ögn bærilegri :)