fbpx

Ljómandi augnskuggar sem bráðna saman

AugnskuggarBobbi BrownÉg Mæli MeðFallegtMakeup ArtistNýtt í snyrtibuddunni minni

Sá sem bjó til þá reglu að konur mættu ekki nota sanseraða augnskugga eftir ákveðinn aldur var á einhverjum stórundarlegum villigötum því ég og ein af mínum uppáhalds förðunargúrúum erum svo hjartanlega ósammála og ég veit að margir deila okkar skoðun á því!

Ég fékk augnskuggapallettuna úr Sandy Nudes sumarlínunni frá Bobbi Brown nú á dögunum og eins og ég var búin að benda á í Tax Free færslunni minni þá er ég búin að nota hana óheyrilega mikið síðan ég fékk hana og þá sérstaklega í farðanir fyrir brúðkaup s.s. á brúði, mæður brúðarinnar, systur og svoleiðis dömur. Alltaf koma litirnir og áferðin í skuggunum jafn vel út og þó svo glimmerið og glamúrinn virðist allsráðandi þá er útkoman glæsileg.

Bobbi Brown er ein af mínum fyrirmyndum í förðunarheiminum, ótrúlega flott kona sem hefur sannarlega góðan smekk fyrir vörum, litum og gæðum. Hún er konan sem mér þykir sú besta í því að framleiða vörur sem hylla það besta í okkar fari og ég er alltaf ánægð með vörurnar frá henni en þessa stundina iða ég af spenning eftir að fá nýjasta farða merkisins í hendurnar sem kemur til Íslands seinni hluta þessa árs.

En að pallettunni – sem allar konur geta notað því munið það eru engar reglur og sannarlega ekki þegar kemur að aldri. Ég er þeirrar skoðunar að það klæði okkur best það sem okkur þyki flott og ég hvet konur á öllum aldri til að nota fallega sanseraða augnskugga og glimmer ef þeim langar til þess.

ljómandipalletta2

Annað sem Bobbi mín er svo framarlega í er samsetning lita og að gera fallegar pallettur. Ég girnist alltaf palletturnar frá henni og því þykir mér óendanlega vænt um að fá svona fallega gersemi að gjöf. Palletturnar hennar Bobbi nýtast mér nefninlega alltaf, hún gerir þannig liti að þeir blandast allir saman – þeir fara vel með öðrum litum og klassísk palletta eins og þessi er ómissandi í safn hverrar konu. Oft í svona palletum er kannski einn og einn litur sem við sjáum ekki fram á að við munum nota – ég hef aldrei hugsað þannig þegar ég horfi á pallettur frá Bobbi.

Ég var sjálf búin að gera förðun með pallettunni en myndirnar voru ekki alveg eftir gæðastöðlum sem ykkar einlæg er búin að setja sér. Ég fór því á myndarúnt og setti saman almbúm með myndum af förðunum sem þið gætuð leikið eftir með þessum grip – takið eftir að þetta eru konur á öllum aldri!

Smellið á myndirnar til að sjá þær stærri.

Þetta er palletta sem leynir svo sannarleg á sér og býður uppá fjölbreytileika þegar kemur að því að gera fallegar augnfarðanir. Margir af litunum eru líka þannig að það er hægt að nota þá sem highlighter á húðina, í kringum augun, augabrúnir og í kringum varir t.d.

ljómandipalletta3

Ég var með augnförðun sem ég gerði með pallettunni í brúðkaupi hjá mági mínum og svilkonu nú á dögunum og þá var ég að prófa pallettuna í fyrsta sinn. Ég elska að prófa vörur í fyrsta sinn. Þá sit ég alltaf, virði fyrir mér vöruna vel og fyllist innblæstri. Það var yndislegt að nota augnskuggana og ég blandaði þónokkrum litum saman og þá sérstaklega þeim sanseruðu. Ég notaði einn mattan sem grunn – það er oft gott til að það sé auðveldara að vinna saman sanseruðu litina og svo vann ég mest með litina í neðstu röðunni. Því miður sést það ekki nógu vel en ég verð að segja eins og ég skrifaði um daginn að augnskuggarnir komu mér á óvart að því leitinu til að þeir bráðnuðu saman og skildu eftir sig áferð sem minnti meira á kremkennda augnskugga en ekki og flauelsmjúka umgjörð um augun en ég gerði smokey förðun sem þið sjáið svona nokkurn vegin hér fyrir neðan en samt kannski ekki alveg nógu vel.

Screen Shot 2015-07-12 at 3.16.13 PM

Tveir kostir við pakkningu pallettunnar er lögunin á henni hún passar vel í snyrtibuddur og þessi stóri spegill – ég notaði hann t.d. til að farða mig alla þennan daginn. Maður þarf alltaf á svona stórum spegli að halda. Þriðji kosturinn er svo burstinn sem fylgir með – hér er enginn svampbursti heldur alvöru Bobbi Brown bursti bara af minni gerðinni.

ljómandipalletta

Þessi færsla átti að koma inn fyrir þónokkrum klukkutímum síðan og ég ætlað að minna ykkur að lokum á Tax Free í Hagkaup sem klárast nú í kvöld. En Bobbi Brown vörurnar fást í Hagkaup Smáralind þar sem er opið til klukkan 19:00 – og það eru örfáar svona eftir. Svona gripir kosta nefninlega smá en hugsið bara að þið eruð að fá svo miklu meira fyrir peninginn en bara nokkra staka augnskugga – þið eruð að fá ótrúlega marga möguleika fyrir ótrúlega margar farðanir og það á afslætti ef þið náið því :)

Njótið kvöldsins og enn og aftur verð ég að fá að þakka fyrir yndislega fallegar batakveðjur – við krílið erum enn inná spítala og loks er nú búið að komast til botns í því hvað hrjáir móðurina og við erum svo þakklát. Svo er bara að bíða og sjá hvort við förum ekki að komast heim til strákanna okkar***

EH

Pallettan sem ég skrifa um hér fékk ég sent sem sýnishorn. Það hefur þó engin áhrif á álit mitt á vörunum og eins og alltaf veiti ég hreinskilið álit. 

Dior góðgæti!

Skrifa Innlegg