fbpx

Leyndarmál makeup artistans: allt um hyljara!

Ég Mæli MeðHyljariLífið MittSnyrtibuddan mín

Jæja það er nú löngu komið að því að taka fyrir fleiri frábær ráð sem geta vonandi nýst ykkur vel. Í þetta sinn ákvað ég að þemað yrði hyljarar en ég fæ reglulega spurningar um hvernig er best að nota þá við ýmsu og oft ráð um hvaða hyljara ég mæli með – svo ég tók líka nokkra mismunandi fyrir hér neðst í færslunni…

Síðustu dagar hafa einkennst af miklum vinnutörnum en ég er í alveg einstaklega skemmtilegu verkefni í vinnunni og ég er eiginlega bara í essinu mínu þessa daga. Svo á Reykjavík Makeup Journal hug minn öll kvöld en ég er á fullu núna að skrifa næsta blað þar sem húðin er í aðalhlutverki!

En hér eru hyljararnir og ráðin fimm!

Ljómandi þríhyrningurinn:

Fyrir ekki svo löngu síðan þá áttum við að setja nokkrar doppur af hyljara undir augun og nota svo fingurna til að blanda hyljaranum. Í dag er hefðin önnur og ég verð að segja að ég er talsvert hrifnari af henni. En þá er mótaður þríhyrningur undir augunum með ljómandi hyljara. Það sem þetta gerir er að það birtir alveg svakalega í kringum augnsvæðið og birtan frá hyljaranum skilar sér í fallegu endurkasti yfir augun sem verða voðalega falleg. Ég hef einmitt skrifað um þennan fallega ljómandi þríhyrning áður – LJÓMANDI ÞRÍHYRNINGUR MEÐ SHISEIDO. Ég vil þó taka fram að það er best að nota létta og ljómandi hyljara í þessa aðferð – þessir stömu gefa ekki svona birtu eins og ljómandi hyljararnir.

IMG_7800-620x413

Stundum þarf að setja nokkrar umferðir:

Ef þið eruð með erfiða bólu eða eitthvað lýti sem þið viljið að hverfi þá er oft gott ráð að setja nokkrar umferðir af hyljara. Ekki hlaða bara fullt af hyljara á lýtið reynið að skipta þessu í nokkrar umferðir. Setjið fyrst umferð af hyljara með því að doppa honum létt yfir svæðið. Takið svo púðurbursta og með hjálp hans setjið létta umferð af púðri helst litlausu yfir hyljarann. Doppið svo meiri hyljara yfir lýtið og púðrið aftur yfir – þetta getið þið gert eins oft og ykkur finnst þið þurfa passið bara að setja ekki of mikið af púðri né hyljara í hverri umferð.

Hyljarar geta líka mótað andlitið:

Samspil ljóss og dökks hyljara getið þið notað til að móta andlitið ykkar í grunninn. Þá berið þið hyljarana á þau svæði sem þið viljið móta – dökka þar sem þið viljið skyggja og ljósa þar sem þið viljið highlighta. Með hjálp grunnfarðabursta – ég mæli með Expert Face Brush eða Duo Fibre burstum frá MAC eða Real Techniques og helst með stuttum hárum í það verk. Mundið burstann með hringlaga hreyfingum og byrjið á að blanda dökka litnum og farið svo í þann ljósa. Ég hef einmitt gert sýnikennslumyndband þar sem ég sýni þetta verk sem þið getið séð hér – CONTOURING MEÐ TRUE MATCH FRÁ L’OREAL. Ég legg þó mikla áherslu á það að þetta er ekki æskilegt dags daglega bara svona þegar tilefni er til og reynið að fara fínt í þetta það er alltof auðvelt að gera þetta of ýkt og ekki viljum við vera of skarpar í framan :)

da21fa4ecdb09f69f0cfd1d3d29705d2

Alls ekki strjúka!:

Þetta er vísa sem er aldrei of oft kveðin. Ég pæli með því að þið setjið smá hyljara á handabakið ykkar og notið svo fingur eða bursta til að bera hann á andlitið. Ef þið notið fingurna þá ættuð þið að doppa hyljaranu yfir svæðið sem þið viljið hylja – alls ekki strjúka því þá eruð þið bara að strjúka hyljaranum fram og til baka og hann endar alls ekki á þeim stað sem þið viljið. Ef þið notið bursta þá mæli ég með því að þið notið léttar strokur til að dreifa hyljaranum og notið svo hringlaga hreyfingar til að festa hyljarann.

Passið ykkur á þrotanum:

Ef þið eruð með mikinn þrota í kringum augun, eða svona poka sem ykkur finnast mjög áberandi getur verið varasamt að setja hyljara á þá. Ég mæli frekar með góðri kælingu á þrotann t.d. með köldu augnkremi (Skyn Iceland er mitt uppáhalds) og setjið svo frekar ljósan hyljara undir pokana ef ykkur finnast þeirr ennþá áberandi. Þar sem ljósir litir draga út þá getur það að setja hyljara á pokana gert það að verkum að þeir vekja miklu meiri athygli en áður. En með því að setja hyljarann undir pokana þá lyftið þið svæðinu í kringum pokana og náið svona nánast að láta þá hverfa.

hyljarar

Svo að lokum langar mig að leyfa uppáhalds hyljurunum mínum að fylgja með – þið fáið meiri upplýsingar um hvern og einn fyrir neðan myndina…hyljarar

1. True Match Concealer frá L’Oreal, þessi elska hún hylur allt saman og hann gefur svona stama áferð sem endist rosalega vel. Ljósasti liturinn í þessum er líka mjög ljós og hentar mér fullkomlega – líka þegar ég lít út eins og vofa…

2. Lumi Magique Concealer frá L’Oreal, þessi er alveg frábær og svo fallega ljómandi. Fullkominn hyljari til að draga úr þreytu í húðinni og þá sérstaklega í kringu augun.

3. Cover Stick frá Maybelline, þessi stift hyljari er mjög flottur og mér finnst sérstaklega gott að nota þennan  á t.d. roða eða ójöfnu í litarhaftinu því það dreifist svo vel hún honum og hann hylur mjög vel.

4. Natural Finish Cream Concealer frá Shiseido, þessi hyljari gerði það að verkum að ég féll fyrir svona krem hyljurum því þeir blandast svo svakalega fallega saman við farða og gera því áferð grunnförðunarinnar lýtalausa.

5. Magic Concealer frá Helenu Rubinstein, ég er tiltölulega nýbúin að prófa þennan hyljara. Það sem ég hafði helst heyrt um hann var að hann næði að fela allt – hann stóðst alla vega mínar væntingar. Svo finnst mér æðislegt hvað túban er stór og hyljarinn drjúgur.

6. Healthy Mix Concealer frá Bourjois, þessi eins og sá frá Shiseido er svona kremaður og blandast svo fallega við farða – þetta er sá kremhyljari sem mér finnst bestur af þeim sem fást hjá ódýru merkjunum. Þetta er frábær hyljari sem ég mæli alltaf með!

7. Diorskin Star Concealer frá Dior, þessi frábæri hyljari er með svo fallega áferð eins og farðinn fallegi sem ber sama nafn og er einn sá allra besti sem ég hef prófað. Hann gefur létta og kremkennda áferð og léttan ljóma.

8. Tinted Eye Brightener frá Bobbi Brown, þegar ég prófaði þennan hyljara þá var ég sko fljót að klára hann upp til agna. Hann gefur ótrúlega fallega ljómandi áferð fyrir húðina svo hún verður fersk og falleg. Þó nafnið gefi til kynna að hann henti best fyrir augun þá notaði ég hann alveg líka bara sem hyljara og highlighter eins og á kinnbeinin og í kringum varirnar.

9. Setting Brush frá Real Techniques, þetta er sá bursti sem ég nota undantekningarlaust í hyljara. Ég elska að nota svona fluffy bursta í hyljara því þá næ ég að blanda hyljaranum svo vel saman við grunnförðunina mína. Ég er reyndar svakalega spennt líka fyrir nýja Concealer burstanum frá Real Techniques sem merkið var að tilkynna að væri að koma í úrval fyrir helgina þið getið séð hann hér – CONCEALER BRUSH FRÁ RT.

Ég vona að þið hafið haft gaman af lestrinum og að ráðin nýtist ykkur og hyljurunum ykkar! Eins og áður þá verð ég kannski ekki alveg jafn virk hér næstu 2 vikur þar sem ég þarf að klára blaðið og skila því af mér á einmitt þessum tíma svo nú set ég í 5. gír og við keyrum þetta í gang!

Blaðið er væntanlegt í febrúar og ég er vandræðalega spennt að fá það í hendurnar – það verður mjög skemmtilegt… held ég. En í þessu blaði verður mikið af viðtölum og efni sem er ekki bara skrifað af mér svo það verður góð fjölbreytni :)

EH

Nýjustu netkaupin

Skrifa Innlegg