Ég er sjálfstætt starfandi tveggja barna móðir. Starfið mitt er mest þannig að ég get unnið þau heima í tölvunni svo ég er eiginlega líka bara heimavinnandi. Lífið snýst því um tölvuna, símann – ég verð að vera í sambandi. Í dag er fæðingarorlofinu formlega lokið ég fékk í dag greidda fyrstu og einu greiðsluna frá fæðingarorlofssjóð í bili en eins og er erum við í sömu sporum og margir aðrir með það að endar ná eiginlega ekki saman með þessum greiðslum. En ég er heppin ég á gott barn og ég get unnið og ég hlakka bara eiginlega mikið til. Ég er og hef alltaf verið þessi manneskja sem vill hafa mikið að gera og ég fúnkera best þannig. En eitt finnst mér þó mikið hafa breyst síðan ég kom heim með Tuma og það er það að þegar Tinni er kominn heim af leikskólanum þá loka ég tölvunni – aftengist Facebook og steingleymi mér bara smá í því að vera mamma. Það gerðist því miður ekki nógu oft áður og ekki þá útaf vinnu ég hef alltaf haft þá reglu að vinna ekki á þeim tíma sem Tinni er hjá mér og vakandi nema í undantekningartilfellum – ég var bara að hanga eitthvað á netinu. Núna nýt ég þess frekar að knúsa strákana mína.
Ég viðurkenni það fúslega að ég hef alltaf sjálf verið mikill sjónvarpssjúklingur. Sjónvarpið róar mig – ég verð alltaf að hafa eitthvað í gangi til að geta slakað á og unnið – ég er stórfurðuleg! Svo eftir leikskóla horfum við stundum (ekki misskilja mig það gerist nú sjaldan) saman á skemmtilega teiknimynd sem Tinni Snær fær að velja. En við foreldrarnir fáum alltaf samviskubit, þetta týpíska samviskubit sem allir foreldrar fá mörgum sinnum á dag. En svo fékk ég smá áskorun frá einni góðri og hún kom einmitt í gegnum Facebook!
LESANDI FYRIRMYNDIR – BÓK Í HÖND
Það er myndlistarkonan, blaðamaðurinn og barnabókahöfundurinn Bergrún Íris Sævarsdóttir sem stendur fyrir áskoruninni sem snýst í meginatriðum um að hvetja okkur til að lesa meira. Hvetur okkur til að slökkva á tækjum, leggja frá okkur símana og grípa í góða bók. Ég er ekki vön því að lesa mér mikið til yndisauka því miður – ég les meira vinnutengt. Svo áskorunina tek ég með Tinna Snæ og les barnabækur með honum í stað þess að horfa á teiknimyndir, sem við gerum samt alveg stundum líka. Við sonurinn eigum það sameiginlegt að vera miklir Disney aðdáendur. En hann er líka algjör bókakall svo það er ekkert þannig erfitt að fá hann til að fletta bók með mömmu sinni.
Mér fannst enn meira viðeigandi að byrja einmitt átakið á því að lesa og skoða með Tinna Snæ bækurnar eftir hana Bergrúnu Írisi sem eru svo fallega myndskreyttar og það er mjög skemmtilegt að hlusta á hvað Tinni hefur um bækurnar að segja.
Vinur minn vindurinn & Sjáðu mig sumar!
Önnur bókin gengur undir nafninu brandarabókin því honum finnst hún svo ótrúlega fyndin en í hinni bókinni leynist Mikki Refur á hverri blaðsíðu. Ímyndunarafl barnanna er alveg yndislegt og þarna kemur það mjög skemmtilega fram hjá Tinna. Hann náði að sameina þessa lestrarstund okkar og uppáhalds ævintýrið sitt Dýrin í Hálsaskógi í eitt.
Svo á kvöldin þegar hann er að sofna fær hann einmitt að hlusta á Dýrin í Hálsaskógi, það er ekki skrítið að barnið kunni leikritið utanað og syngi hástöfum lögin úr þessari krúttlegu sögu.
Auk fallegu bókanna hennar Bergrúnar Írisar sem ég mæli sérstaklega með því myndirnar gefa orðunum fallegt líf, þá höfum við gluggað í stafabók, fundið Valla og lesið um ævintýri Vidda og Bósa.
Mér finnst ég samt eiginlega ekki hafa verið alveg nógu dugleg – ég vil endilega gera betur og þannig er þessi færsla líka kannski smá spark í rassinn frá mér til mín um að lesa ennþá meira með honum Tinna mínum og jafnvel fyrir Tuma á meðan hann er að súpa hjá mömmu sinni – það væri kannski ekkert vitlaust :)
EH
Skrifa Innlegg