Það er einn varalitur sem ég á alltaf til – ég hef samtals klárað sex stykki síðan ég kynntist varalitnum fyrst fyrir næstum fjórum árum síðan. Þetta er fyrsti alvöru fjólublái varaliturinn sem ég eignaðist en þarna voru dökkir litir alls ekki í tísku – varalitir yfir höfuð voru bara ekki í tísku. Í gegnum tíðina hef ég komið fjölda mörgum vinkonum uppá það að nota litinn og ég vona að með þessari færslu stækki aðdáendahópur þessa litar og þannig pössum við uppá að varan hætti alls ekki!
Þetta er varaliturinn Midnight Plum nr. 338 frá Maybelline.
Ef þið skoðið litinn sjálfan sem er hér fyrir neðan þá er þetta plómulitur sem er kannski örlítið meira útí fjólublátt en rautt. Hann inniheldur örfínar glimmeragnir sem sjást ekki samt þegar liturnn er kominn á varirnar. Heldur endurkasta þær birtu í kringum varirnar af þeim svo þær virðast mun stærri og ferskari.
Formúla litarins inniheldur hunangsnektar sem næra varirnar og gefa þeim raka allan þann tíma sem hann er á vörunum. Á myndinni fyrir ofan er ég ekki með neinn varablýant bara litinn sjálfan svo þið sjáið að hann er með mjög sterkum pigmentum – sérstaklega sterkum miðað við að hann kostar ekki mikla peninga.
Ef ég fengi að ráða einhverju þá myndi ég vilja að allar konur væru með þennan lit í snyrtibuddunni og væru óhræddar við að nota hann. Verið duglegar að prófa eitthvað nýtt þegar kemur að förðun – það er svo mikið af frábærum vörum þarna úti sem bíða bara eftir því að þið uppgötvið þær.
Þetta er minn ómissandi varalitur – þegar ég fæ valkvíða á leiðinni út eitthvað fínt og get ekki valið mér varalit þá gríp ég í þennan.
Hver er ykkar ómissandi varalitur – mér þætti ótrúlega gaman að heyra það frá ykkur. Mögulega er það litur sem ég hef ekki enn uppgötvað – svo SPILL!
EH
Skrifa Innlegg