fbpx

Húsráð: Jólaseríur og límbyssa!

FallegtFyrir HeimiliðJól 2014Lífið Mitt

Við fjölskyldan kíktum í IKEA síðustu helgi í þeim tilgangi til að sjá hvort rúmið sem við erum að bíða eftir fyrir Tinna Snæ komi aftur – við þurfum víst að bíða lengur. Við ákváðum samt að nýta heimsóknina í þessa stórskemmtilegu verslun og keyptum okkur piparkökuhús til að skreyta. Við keyptum hús og glassúr og svo rak ég augun í límbyssu við hliðiná og skaut að Aðalsteini að þetta væri furðulegasta staðsetning fyrir límbyssu sem ég hafði séð – þau orð át ég þó ofan í mig stuttu seinna. Ég rak nefninlega augun í nokkur tilbúin hús sem voru til sýnis og spurði einn af piparkökumanninum hvort húsin væru í alvörunni límd saman með límbyssu – hann sagði svo vera og sagði að þetta væri besta leiðin til að setja húsin saman þar sem það væru hvort eð er mjög fáir sem borðuðu húsin. Í mesta lagi væru það börnin sem týndu nammið af húsinu – svo ég fór og náði mér í límbyssu og á morgun er planið að prófa þetta – ég sýni ykkur útkomuna. En í leiðinni laumaði piparkökugerðamaðurinn að mér öðru ráði og það væri að festa jólaseríur í glugga með límbyssunni – það væri alltaf vesen að nota sogskálar en það væri leikur einn að ná líminu af og seríurnar yrðu alveg pikkfastar. Ég verð nú að segja að þetta er eitt besta húsráð sem ég hef lengi heyrt og í dag var límbyssan tekin upp og sería límd á gluggann inni hjá Tinna og ég brenndi mig bara einu sinni. Piparkökumaðurinn laug engu því serían er pikkföst!

jólaseríur

Við fórum í Blómaval í dag og keyptum nýjar jólaseríur og meðal annars þessa – því miður var ekki til stærri svo ég setti bar aá neðri hluta gluggans en mér finnst það allt í lagi. Þetta er bara gert fyrir Tinna Snæ honum fannst þetta mjög spennandi. En ég setti bara dágóða klessu af lími á rúðuna, setti seríuna í klessuna, hélt við (já ég brenndi mig en bara einu sinni!) á meðan límið þornaði og voila. Þetta tók ekki langa stund og þetta ráð mun ég klárlega nýta næstu árin.

Svo keyptum við líka skemmtilega seríu til að hafa inní stofu.

jólaseríur4

Ég veit reyndar ekki alveg hvað ég á að gera við hana en ég vona að með hjálp Pinterest þá fái ég nokkrar góðar hugmyndir. Þangað til hvílir hún hér. Þessi sería er með svona stórum glærum perum og hana er hægt að fá líka hvíta og marglita. Það þarf fyrst að kaupa svona startsett og svo er hægt að kaupa framlengingarseríu við erum samtals núna með 20 perur.

jólaseríur3

Svo dundaði ég mér við að breyta stafaborðunum okkar, ég setti saman Gleðileg jól til að hafa inní stofu og svo er ég að föndra nýja setningu til að setja fyrir ofan hjá Tinna Snæ. Borðinn er fyrir ofan orgelið sem er erfðagripur frá ömmu minni og afa sem frænka mín var með en vegna flutninga til Svíþjóðar fær hann að vera hjá okkur núna. Þarna bíða líka jóladagatölin okkar þess að verða opnuð eftir bara tvo daga!

jólaseríur5

Stundum heillast ég af nákvæmlega því sama og fjöldinn og þegar ég rak augun í eitt stakt voðalega sorgmætt lítið jólatré ákvað ég að taka það með okkur heim. Utan um það var vafin jólasería sem mig langaði ekki alveg að hafa utan um tréð alla vega ekki í fyrstu svo ég skellti henni bara í botninn – ég er eitthvað aðeins að pæla í því hvernig ég vil hafa þetta – kannski er þetta bara fínt svona :)

jólaseríur2

Á morgun verður svo restin af jólaskrautinu dregin fram úr geymslunni og heimilið skreytt undir fallegum jólatónum – mikið hlakka ég til. Ég ákvað að nenna ekki alveg að standa í því að föndra aðventukrans ég var svo svakalega hugmyndasnauð en ég er reyndar mjög ánægð með ÞANN SEM ÉG GERÐI Í FYRRA og ég held ég noti hann líklega bara aftur.

Ég vona að þið og ykkar fólk njóti morgundagsins í botn ég er svo sannarlega komin í hátóðarskap og hlakka mikið til þess að jólamánuðurinn renni upp!

EH

Andlitið skyggt með Studio Sculpt frá MAC

Skrifa Innlegg

3 Skilaboð

  1. Pálína Björk Matthíasdóttir

    8. December 2014

    Er ekkert mál að ná líminu af eftirá?

    • +

      8. December 2014

      ð